Skíðasvæðahættumat

Skíðasvæðahættumat

Samkvæmt lögum 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum skal ofanflóðahætta metin á skíðasvæðum. Veðurstofa Íslands sinnir vinnu við skíðasvæðahættumat en einnig hættumat vegna ofanflóða í byggð. Síðustu ár hefur hættumat fyrir byggð verið í forgangi en vinna við skíðasvæðahættumat er nú aftur í fullum gangi.

Hættumat hefur verið staðfest fyrir skíðasvæðið í Hlíðarfjalli og Oddsskarði.  Verið er að leggja lokahönd á hættumat fyrir Bláfjöll og Skálafell og unnið er að hættumati fyrir skíðasvæðin á Ísafirði sem áætlað er að klárist í lok ársins 2024.

Skíðasvæðahættumat er að mörgu leyti frábrugðið hættumati fyrir þéttbýli. Þegar snjóflóðahætta er metin á skíðasvæðum er landssvæðið skoðað í meiri smáatriðum vegna þess að hugsanleg upptakasvæði eru í mörgum tilfellum nálægt skíðaleiðum eða skíðalyftum. Til viðbótar við hættu á snjóflóðum af náttúrulegum orsökum þarf að hafa í huga hættuna á því að skíðamenn eða vinnutæki setji af stað snjóflóð í bröttum brekkum. Aftur á móti er talinn óþarfi að taka tillit til hættu af aurskriðum og grjóthruni.

Viðmið

Þann 7. júlí 2009 var reglugerð nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum gefin út af umhverfisráðuneyti. Í reglugerðinni kemur fram að Veðurstofa Íslands skuli annast gerð hættumats á skíðasvæðum samkvæmt beiðni hlutaðeigandi sveitarfélags. Skilgreining á hugtökum í reglugerðinni er að finna í viðauka I.

Í 6. grein reglugerðarinnar segir að á skipulögðum skíðasvæðum eigi að gera hættumat og það skuli ná til bygginga þar sem gera má ráð fyrir að fólk geti dvalið um lengri eða skemmri tíma svo og safnsvæða. Jafnframt skal leggja mat á möguleg upptakasvæði snjóflóða sem ógnað geta skipulögðum skíðasvæðum og endurkomu­tíma snjóflóða innan merktra skíðaleiða.

Í 9. grein kemur fram að á hættumatskorti skuli sýnd áhætta við mannvirki og safnsvæði. Áhætta við byggingar skal sýnd sem punktáhætta og á safnsvæðum skal sýna áhættu með jafnáhættulínum, sbr. 12. og 17. gr. reglugerðar nr. 505/2000. Á hættumatskorti skal jafnframt sýna upptakasvæði snjóflóða sem ógnað geta skíðavæðum og skíðalyftum, en þar að auki skal afmarka þau svæði þar sem endurkomutími snjóflóða innan merktra skíðaleiða er annars vegar skemmri en 10 ár og hins vegar skemmri en 100 ár.

Í 11. grein segir að við skipulagningu skíðasvæða skuli leita til aðila sem hafa sérfræðiþekkingu á snjóflóðahættu. Jafnframt skal leitast við að hafa skíðasvæði utan snjóflóðahættusvæða og forðast skal að leggja lyftuleiðir, svig- og gönguskíðaleiðir undir upptakasvæðum. Sérstaklega ber að forðast að skipuleggja skíðasvæði undir upptakasvæðum sem ógnað geta stórum hluta skíðasvæðis. Lyftumöstur og togvír stólalyfta og kláfa skulu þola ástreymisþrýsting hönnunarflóðs, sbr. leiðbeiningar Veðurstofunnar á grundvelli RB blaða nr. Rb(V9).003, Rb(V9).004 og Rb(V9).005 útgefin af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Í 12. grein eru viðmið skilgreind. Miðað er við jafnáhættulínur B og C eins og þær eru skilgreindar í 17. gr. reglugerðar 505/2000 sem miðast við ofanflóðahættumat í þéttbýli.

Hættumat í þéttbýli miðast við einstaklingsbundna áhættu. Hún er skilgreind sem árlegar líkur á því að einstaklingur, sem býr á tilteknum stað, farist í ofanflóði. Flokkun hættusvæða byggir á staðaráhættu en hún er skilgreind sem árlegar líkur á að einstaklingur, sem dvelur allan sólarhringinn í húsi sem ekki er sérstaklega styrkt, farist í ofanflóði. Að öðru jöfnu er reiknað með að fólk dvelji allt að 75% af tíma sínum á heimilum og allt að 40% í atvinnuhúsnæði. C-lína miðast við staðaráhættu 3?10-4 á ári og B-lína við staðaráhættu 1?10-4 á ári.

Slíkt mat á áhættu er ekki hægt að yfirfæra beint á skíðasvæði þar sem viðvera fólks er minni en á heimilum og vinnustöðum og fólk er ekki inni í húsum. Samt sem áður er notast við sömu skilgreiningu á hættumatslínum í skíðasvæðahættumati. Tekið er tillit til þess að viðvera einstaklinga er mun minni en í íbúðarhúsnæði og að ásættanleg áhætta er hugsanlega hærri á skíðasvæðum. Á móti kemur að skíðasvæði eru líka vinnustaður fólks en ekki bara frístundasvæði. Þar getur líka margt fólk safnast saman að vetrarlagi og því er safnáhætta töluverð. Við þetta bætist að fólk á skíðasvæðum er ekki varið af húsum nema innan skíðaskálanna.

Nýting hættusvæða er sem hér segir:

Á hættusvæði C er óheimilt að hafa:

  • Byggingar þar sem gera má ráð fyrir viðveru fólks að næturlagi
  • Upphafsstöð skíðalyftu
  • Safnsvæði
  • Barna- og byrjendasvæði

Á hættusvæði B er óheimilt að hafa:

  • Skíðaskála með næturgistingu
  • Upphafsstöð skíðalyftu á barna- og byrjendasvæði
  • Raðasvæði á barna- og byrjendasvæði

Í 13. grein kemur fram að sé talin hætta á snjóflóðum innan skipulagðra skíðasvæða skal rekstraraðili gera áætlun um daglegt eftirlit og tímabundnar öryggisaðgerðir og í 14. grein segir: „Rekstraraðili skal vinna áætlun um eftirlit, aðgerðir og viðbúnað vegna snjóflóðahættu og skal hún samþykkt af viðkomandi sveitarstjórn að fengnu áliti óháðs aðila. Endurskoða skal áætlanir á fimm ára fresti eða oftar að gefnu tilefni.

Í 15. grein er tekið fram að fyrir stór og meðalstór skíðasvæði sem ekki uppfylla ákvæðin skal rekstraraðili gera áætlun um viðbúnað eða aðgerðir til að tryggja ásættanlegt öryggi fólks vegna ofanflóða. Veðurstofan skal endurskoða hættumat á skíðasvæðum ef varanlegar varnaraðgerðir hafa komið til framkvæmda.

Í stuttu máli má segja að skíðalyftur og skíðaleiðir megi liggja um snjóflóða­hættusvæði en gerð er krafa um daglegt eftirlit og að möstur stólalyfta og kláfa standist reiknaðan ástreymisþrýsting. Aftur á móti er gerð krafa um að upphafsstöðvar lyfta og tilheyrandi raðasvæði séu á sæmilega öruggum svæðum sem og önnur safnsvæði og skíðaskálar. Sérstaklega strangar kröfur eru gerðar fyrir svæði þar sem börn safnast saman. Fyrir þau skíðasvæði sem standast ekki viðmiðin skal viðkomandi sveitarstjórn gera áætlun um úrbætur. Staðsetningu nýrra mannvirkja á skíðasvæðum skal skipuleggja frá upphafi með tilliti til snjóflóðahættu.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica