Um hættu á jökulhlaupi í Jökulsá á Fjöllum
17:22 Skjálftavirknin sem hófst í Bárðarbungu og nágrenni 16. ágúst hefur nú færst að mestu yfir á línu með SV-NA stefnu, undir norðaustanverðum Dyngjujökli (sjá mynd 1).
Kæmi til eldgoss á þessu svæði gæti orðið um að ræða sprungugos undir 150-600 m þykkum jökli og bræðsluvatn mundi renna jafnóðum undan jöklinum og valda flóði í Jökulsá á Fjöllum (sjá kort).
Líklegt er að ferðatími bræðsluvatns frá gosstað að jökuljaðri væri 1-1,5 klst. og líkleg stærð hlaups væri á bilinu 5.000-20.000 rúmmetrar á sekúndu. Frá gosstað niður að Herðubreiðarlindum væri líklegur ferðatími 4,5 klukkustundir, niður að brúnni á Jökulsá við Grímsstaði 7 klst og niður undir Ásbyrgi um 9 klst.
Í fréttum hefur komið fram að allstór svæði umhverfis Jökulsá gætu farið undir vatn ef til stórhlaups kæmi af völdum eldsumbrota, auk þess sem brúm á ánni væri hætta búin. Í þessu samhengi er rétt að benda á að hlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa verið mjög mismunandi að stærð, allt frá forsögulegum hamfaraflóðum, sem mynduðu Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi (hámark u.þ.b. 200 þús. rúmmetrar á sekúndu), niður í minniháttar hlaup. Eins og staðan er núna (síðdegis 19. ágúst) eru mjög litlar líkur á gosi sem leiða mundi til hamfarahlaups af stærðinni 100-200 þús. rúmmetrar á sekúndu.
Tæpar þrjár aldir eru liðnar síðan umtalsverð hlaup hafa komið í Jökulsá á Fjöllum. Í annálum og öðrum sögulegum skjölum er getið um hlaup í ánni á 15., 17. og 18. öld. Þau ollu umtalsverðu tjóni á landi, bæjum og búpeningi í Kelduhverfi og Öxarfirði en fólk bjargaðist sumt upp á þök bæja sinna. Sagnir eru um að hlaup hafi náð alla leið vestur í Víkingavatn í Kelduhverfi. Nú er landslag á söndunum inn af Axarfirði mikið breytt eftir Kröfluelda 1975-1984 og eru því líkur á að hlaup sem kæmi núna myndi fylla í flestar lægðir sem eru á sandinum (t.d. Skjálftavatn).
Þorsteinn Þorsteinsson, Oddur Sigurðsson og Matthew J. Roberts