Fréttir
hvít ber í rauðu laufi
Koparreynir ber hvít ber.

Tíðarfar í september 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.10.2010

September var óvenju hlýr, meðal hinna allra hlýjustu um mestallt land. Svalast að tiltölu var við ströndina á Austfjörðum og austast á Suðurlandi. Sérstaklega hlýtt var í fyrstu vikunni þegar hitamet voru slegin á fjölmörgum veðurstöðvum. Framan af mánuðinum var óvenju þurrt um landið norðanvert en þegar leið á mánuðinn rigndi mikið syðst á landinu.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 10,2 stig. Það er 2,8 stigum hlýrra en í meðalári. Þetta er 6. hlýjasti september sem vitað er um í Reykjavík. Á Akureyri mældist meðalhitinn 9,7 stig og er það 3,4 stigum yfir meðallagi. Þetta er 9. hlýjasti september á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,4 stig, 1,8 stigum ofan meðallags, og á Hveravöllum var meðalhitinn 5,8 stig, eða 3,4 stigum ofan meðallags. Fleiri meðaltöl og röðun má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 10,2 2,9 6 140
Stykkishólmur 9,9 3,2 5 165
Bolungarvík 9,6 3,4 5 113
Akureyri 9,7 3,3 9 128
Egilsstaðir 9,2 3,1 61
Dalatangi 8,5 1,9 13 72
Höfn í Hornaf. 9,4 1,1
Stórhöfði 9,9 2,5 5 134
Hveravellir 5,8 3,4 3 45


Hæsti meðalhiti mánaðarins á landinu var 10,9 stig á Garðskagavita en lægstur 2,1 stig á Brúarjökli.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 4., 24,9 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Mánárbakka sama dag, 24,7 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -8,5 stig á Brúarjökli hinn 21. Lægsti hiti á veðurstöð í byggð mældist á Haugi í Miðfirði, -6,1 stig, þann 23. Sama dag var hiti á mannaðri veðurstöð lægstur í mánuðinum, -5,8 stig á Staðarhóli í Aðaldal. Frostnætur í byggð voru 13.

Tvö dagamet landsins voru slegin í mánuðinum; hinn 4. (24,9 stig á Mörðuvöllum), gamla metið frá 2007 á Skjaldþingsstöðum) og hinn 7. (22,0 stig - einnig á Möðruvöllum, gamla metið frá 1991 á Egilsstöðum).

Úrkoma, sólskin og vindhraði

Mánuðurinn var þurr framan af. Í Reykjavík mældist úrkoma alls 92,2 mm og er það 40 prósent umfram meðallag. Meir en helmingur úrkomunnar féll síðustu fjóra dagana. Á Akureyri mældist úrkoman 23,7 mm og er það um 60 prósent meðalúrkomu. Þar féll hins vegar meginhluti úrkomunnar, 19,9 mm, á einum sólarhring, 14. til 15. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 154,5 mm.

Síðustu helgi mánaðarins (25. til 26.) urðu allmiklir vatnavextir syðst á landinu, einkum í kringum Eyjafjallajökul, og tepptist ferðafólk í Þórsmörk. Skemmdir urðu litlar.

Sólskinsstundir mældust 109 í Reykjavík, 15 færri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 100 og er það 15 fleiri en í meðalári.

Sumarið (júní til september) 2010

Sumarið 2010 var hið hlýjasta sem vitað er um síðan mælingar hófust víða um suðvestan- og vestanvert landið. Hitavik og röð má sjá í töflu. Rétt er að taka fram að í Reykjavík er gert ráð fyrir flutningum stöðvarinnar, sumurin 1939 og 1941 voru nánast jafnhlý og þetta.

stöð hiti röð af
Reykjavík 11,68 1 140
Stykkishólmur 11,11 1 165
Bolungarvík 10,29 4 113
Akureyri 10,87 5 128
Egilsstaðir 10,08
Dalatangi 8,24 14 72
Höfn í Hornaf. 10,56
Stórhöfði 10,66 1 134
Hveravellir 7,86 1 45


Sumarið varð hið hlýjasta bæði í Stykkishólmi (mælt frá 1845) og í Vestmannaeyjum (mælt frá 1877). Á báðum stöðum er sumarið 1939 það næsthlýjasta, aðeins skeikar þó 0,1 stigi. Í Bolungarvík var sumarið nú í fjórða sæti, hlýrra var 1933, 1939 og 1941. Mæliröðin nær aftur til 1898, flutningar gera nákvæman samanburð erfiðan.

Á Akureyri var sumarið það fimmta hlýjasta. Hlýrra varð þar 1933, 1939, 1941 og 1894, sumarið 2004 var jafnhlýtt og nú. Austanlands var sumarið heldur daufara en er þó í 7. sæti á Egilsstöðum og því 14. á Dalatanga. Á þessum stöðum hafa mælingar þó staðið mun skemur en á hinum stöðunum sem hér eru nefndir. Lengsta mæliröðin á Austurlandi er frá Teigarhorni, en minniháttar galli er í athugunum þar í september og liggja endanlegar tölur þaðan ekki fyrir að svo stöddu.

Hæsti hiti sumarsins mældist ekki fyrr en í september, 24,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal. Verður að teljast óvenjulegt að hæsti hiti á metsumri skuli ekki vera hærri en þetta. Hámarkshiti sumarsins hefur ekki verið svo lágur síðan 2001. Það hefur gerst aðeins þrisvar áður að hæsti sumarhiti hafi orðið í september, 1877 (19,8 stig), 1915 (21,1 stig) og 1981 (25,3 stig). Árið 1877 var stöðvakerfið þó aðeins örfáar stöðvar og niðurstaðan varla marktæk.

Sumarið 1939, sem var helsti keppinautur nýliðins sumars um hita, komst hiti hæst í 30,5 stig, miklu hærra en nú.

Úrkomu var misskipt í sumar, norðanlands var sérlega þurrt í júní og aftur í september, en þar rigndi hins vegar talsvert í júlí og ágúst. Heildarúrkoma sumarsins er því í meðallagi. Í Reykjavík jókst úrkoma þegar á leið og endaði í rétt tæpu meðallagi. Sólskinsstundir voru 78 fleiri en í meðalári í Reykjavík, en samt færri en undanfarin þrjú sumur. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar í sumar 42 fleiri en í meðalári.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Fyrstu níu mánuðir ársins eru næsthlýjastir frá upphafi mælinga í Reykjavík, sami tími 2003 var lítillega hlýrri. Síðan er 0,2 stiga bil niður í 1939, 1964 og 2004. Í Stykkishólmi er hitinn nú aðeins sjónarmun (innan við 0,1 stig) frá methita sömu mánaða 2003, en 2004 er um 0,3 stigum lægri og 1939 um 0,4 stigum lægri en sama tímabil nú.

 Loftþrýstingur fyrstu níu mánuði ársins er með allra hæsta móti. Hann var ámóta hár og nú 1941 og heldur hærri 1888. Samfelldar mælingar hófust 1822.

 

Regnbogi
HaBj_116
Tvöfaldur regnbogi yfir Reykjavík 27. september 2010. Horft af svölum Veðurstofuhússins til norðurs. Ljósmynd: Halldór Björnsson.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica