Yfirlit um íslenska jökla í árslok 2021
Afkoma íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan árið 1995 með einni undantekningu
Jöklar á Íslandi hafa hopað
hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver skýrasti vitnisburður hérlendis um hlýnandi loftslag. Á árinu 2021
hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu
fram, mest Morsárjökull sem gekk fram um meira en 100 m. Af þeim jöklum sem
mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélags Íslands hopaði
Skeiðarárjökull mest eða um 400 m þar sem mest var við austanverðan sporðinn en
þar slitnaði sporðurinn frá dauðísfláka. Breiðamerkurjökull hopaði víða um eða
yfir 150 m þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.) Þetta kemur fram í nýútkomnu fréttabréfi á vegum
verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og
Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu,
og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu
Suðausturlands.
Flugsýn af tungu Fjallsjökuls 1988 og 2021. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1988 og flygildi 2021 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel hörfun jökuljaðarsins og lækkun yfirborðs jökulsins á rúmlega 30 ára tímabili. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee.)
Afkoma ársins 2021
Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undanfarin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Allir þrír jöklarnir voru nærri jafnvægi 2018. Sumur hafa verið nokkuð hlý síðan 2018 og hefur afkoma allra þriggja jöklanna mælst neikvæð síðan þá. Jöklarnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 8% af heildarrúmmáli þeirra. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.)
Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn sem hann tapar/græðir á ári hverju.
Mýrdalsjökull hefur rýrnað um u.þ.b. 5 km3 síðan 2010 og yfirborð hans lækkað um 9 m að meðaltali
Íslensku jöklarnir eru kortlagðir reglulega til þess að fylgjast með rýrnun þeirra. Síðsumars 2021 voru Vatnajökull, Langjökull og Mýrdalsjökull kortlagðir með gervihnattamælingu og sýnir meðfylgjandi kort hæðarbreytingu yfirborðs Mýrdalsjökuls á tímabilinu 2010 til 2021. Á þessu tímabili lækkaði yfirborð neðanverðs leysingarsvæðisins víða um meira en 30 m og hann tapaði samanlagt um 5 km3 íss. Ofarlega á ákomusvæðinu hækkaði yfirborði hins vegar víðast um nokkra metra. Meðallækkun jökulyfirborðsins er um 9 m yfir þetta árabil. Nánar má fræðast um samband jökla og loftslags á fræðsluvef Vatnajökulsþjóðgarðs um jökla- og loftslagsbreytingar Hörfandi jöklar og á nýrri íslenskri jöklavefsjá islenskirjoklar.is.
Breyting á hæð yfirborðs Mýrdalsjökuls skv. kortum sem byggð eru á leysimælingum úr flugvél (2010) og á ljósmyndum Pléiades gervihnatta (2021). (Pléiades © CNES (2021), Distribution AIRBUS DS. Kort: Maud Bernat.)
Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.