Vöktun Öræfajökuls - staðan 22. desember 2017
Náttúruvárvöktun við Öræfajökul hefur verið bætt umtalsvert síðan í haust þegar skjálftavirkni jókst í eldstöðinni og töluverðrar jarðhitavirkni varð vart í miðri öskjunni.
Náttúruvárvöktun við Öræfajökul hefur verið bætt umtalsvert síðan í haust þegar skjálftavirkni jókst í eldstöðinni og töluverðrar jarðhitavirkni varð vart í miðri öskjunni. Búið er að fjölga síritandi skjálftamælum, vatnamælum, vefmyndavélum og aflögunarmælum í nágrenni Öræfajökuls og er gögnum streymt til Veðurstofunnar þar sem er vakt allan sólarhringinn.
Mælingar sýna að jarðskjálftavirkni hefur verið með svipuðu móti undanfarnar vikur. Flestir skjálftanna eru innan við 1 að stærð en stærstu skjálftar undanfarinn mánuð hafa verið um 2,5 að stærð. Skjálftavirknin er að mestu bundin við öskjuna og skjálftar virðast vera á 2-10 km dýpi en nokkur óvissa er á dýptarákvörðun þeirra.
Mælingar benda til þess að dregið hafi úr hlutfalli jarðhitavatns Í Kvíá. Líklega náði þetta hlutfall hámarki í upphafi desember og svo virðist sem heldur hafi dregið úr rennslu jarðhitavatns síðan.
Mat á afli í jarðhita í Öræfajökli, sem endurspeglast í bráðnun íss við botninn og myndunar sigketils á yfirborði jökulsins, bendir til að jarðhitavirkni sé ekki að aukast. Ekki hafa komið fram vísbendingar um að vatn safnist fyrir undir jöklinum. Ef virkni helst svipuð og verið hefur undanfarnar vikur er ólíklegt að jarðhitinn geti valdið hlaupi á næstu mánuðum. Mikilvægt er að fylgjast áfram með þessu ferli með mælingum á yfirborði ísketilsins.
Mælingar á jarðhitagasi hafa ekki gefið óyggjandi niðurstöður um hvaða gas orsakaði lykt sem fannst í nágrenni við Kvíá. Dregið hefur úr lykt á svæðinu.
Þegar öll gögn eru tekin saman benda þau til þess að ástand Öræfajökuls hafi verið nokkuð stöðugt undanfarnar vikur en of snemmt er að segja til um hvort dragi úr virkni. Veðurstofan verður því áfram með gult viðvörunarstig fyrir flug til marks um að virkni sé yfir eðlilegri bakgrunnsvirkni eldfjallsins.
Hluti starfsmanna við náttúruvárvöktun Veðurstofunnar, staddir við Sólheimajökul. Ljósmynd: Kristín Jónsdóttir.
Íbúafundur i Öræfum 27. nóvember 2017. Ljósmynd: Kristín Jónsdóttir.