Fréttir
Frá gosinu í Grímsvötnum 2011. Eldgos hófst í Grímsvötnum um kl. 19 hinn 21. maí 2011. Skjálftavirkni hófst kl. 17:30 og var gosið afar mikið fyrsta sólarhringinn. Náði gosmökkurinn 15-19 km hæð aðfaranótt 22. maí. Gosinu lauk aðfaranótt 25. maí. Myndin er tekin kl. 20:23 að kvöldi 21. maí. Talið er að jafnmikil aska hafi komið upp á fyrsta sólarhring gossins eins og kom úr gosinu úr Eyjafjallajökli þá 40 daga sem það stóð vorið 2010. (Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson)

Vísbendingar um að Grímsvötn búi sig undir eldgos

 Vísindaráð Almannavarna hittist á fundi til að ræða stöðuna á Reykjanesskaga og nýjustu mælingar á virkni í Grímsvötnum.

15.6.2020

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi miðvikudaginn 10. júní vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og nýlegra mælinga í Grímsvötnum. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, HS-Orku, ÍSOR og Umhverfisstofnun ásamt fulltrúum frá ISAVIA-ANS,  almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurnesjum.

Landris hafið að nýju í nágrenni Grindavíkur

Um miðjan maí hófst þensla að nýju vestan við Þorbjörn sem bendir til þess að nú sé í gangi þriðja kvikuinnskotið á þessu svæði frá áramótum. Innskotið virðist hafa byrjað að myndast um miðjan maí en jarðskjálftavirkni jókst nokkru síðar eða þann 30. maí. Um 2000 skjálftar hafa mælst síðan þá og er mesta skjálftavirknin austan við Þorbjörn, einungis fáeinum kílómetrum norðan Grindavíkur. Stærsti skjálftinn í þessari hrinu mældis laugardagskvöldið 13. júní og var hann um 3,5 að stærð. 


Yfirlit yfir skjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur frá því á föstudag í síðustu viku. Skjálfti af stærðinni 3,5 mældist laugardaginn 13. júní.

Í heildina hefur nú land risið um 12 cm frá því landris hóst í janúar á þessu ári. Á milli ristímabila verður vart við örlítið sig sem líklega skýrist af kólnun og samdrætti kviku í innskotunum eða víxlverkun við jarðhitakerfið. Líkanreikningar benda til að þetta þriðja innskot við Þorbjörn sé áþekkt fyrri innskotum þar, þ.e. miðja þeirra er um 1 km vestan Þorbjarnar, dýpi um 3-4 km og lögun þessara innskota eru ílangar nokkur hundruð metra breiðar sillur sem teygja sig norðaustur og suðvestur og eru allt að 6 km langar. Rúmmál sem safnast hefur fyrir í þriðja risfasa nemur um 1.2 milljónum rúmmetra.  Jarðskjálftavirknin er dreifð um stærra svæði en sem nemur áætlaðri staðsetningu kvikuinnskotanna, sennilega vegna spennubreytinga í jarðskorpunni sem innskotin valda á stóru svæði umhverfis sig. 

ÍSOR gerði þyngdarmælingar í fastapunktum í lok janúar skömmu eftir að land tók að rísa við Þorbjörn og aftur í lok apríl. Niðustöður renna stoðum undir þá túlkun að kvikuinnskot hafi átt sér stað. Ástæða er til að endurtaka þyngdarmælingarnar nálægt miðju sumri.

Vikulegar gasmælingar á tveimur stöðum í grennd við landrisið eru breytilegar en tengsl við innskotavirkni eru óljós.  Jarðhitavinnslan í Svartsengi hefur ekki merkt neinar efnabreytingar í jarðhitakerfinu. Mælingar í jarðhitakerfinu sýna aukna lekt og aukið vökvaflæði í berginu innan kerfisins, sem telja má að sé afleiðing skjálftavirkni, þenslu og landriss á svæðinu, þar sem nýjar sprungur hafi myndast og eldri sprungur opnast. Úrvinnsla Veðurstofu Íslands á skjálftamæligögnum í Grindavík benda einnig til þess jarðskorpan á svæðinu hafi tekið varanlegum breytingum á árinu.

Veðurstofa Ísland ásamt Jarðvísindastofnun, ÍSOR og HS-Orku mun áfram fylgjast vel með þróun mála á Reykjanesskaga.

Vísbendingar um að Grímsvötn búi sig undir eldgos

Á fundinum var einnig  rætt um stöðuna í Grímsvötnum, en Jarðvísindastofnun og Veðurstofa  Íslands voru þar við mælingar í byrjun júní.

Á virknitímabilum eins og verið hefur frá 1996, er algengt að 5-10 ár séu milli gosa í Grímsvötnum. Síðast gaus þar 2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt gos.  Á þeim tíma sem liðinn er frá gosinu benda aflögunarmælingar til þess að kvika hafi safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfi aukist.  Í síðustu viku mældu starfsmenn Veðurstofunnar SO2 í suðvesturhorni Grímsvatna, nærri þeim stað þar sem gaus 2004 og 2011. „Þetta er í fyrsta sinn sem SO2 mælist í svo miklu magni í eldstöð á Íslandi án þess að eldgos sé í gangi og er vísbending um grunnstæða kviku“, segir Melissa Anne Preffer, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands sem var einn leiðangursmanna sem fór á Vatnajökul á dögunum. Melissa segir að til viðbótar við aukið magn SO2, fari svæðið þar sem jarðhiti á yfirborði mælist stækkandi.


Sérfræðingur Veðurstofunnar við gassmælingar í Grímsvötnum á dögunum. Þessi mynd er tekin nálægt upptökum gossins 2011. (Ljósmynd: Veðurstofan/Melissa Anne Pfeffer)

Árið 1953 setti Sigurður Þórarinsson fram kenningu um samband jökulhlaupa og eldgosa í Grímsvötnum.  Ef færi saman hár kvikuþrýstingur í Grímsvötnum og jökulhlaup eftir mikla vatnssöfnun í Grímsvatnaöskjunni, þá gæti lækkun vatnsborðsins og þar með þrýstiléttir ofan við kvikuhólfið orðið til þess að kvikan bryti sér leið upp á yfirborð og eldgos hæfist.  Atburðarás af þessu tagi hefur margoft orðið í Grímsvötnum, síðast árið 2004 og þar áður 1934 og 1922.

Mögulegt að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups

Núna eru aðstæður í Grímsvötnum þannig að vatnsborð stendur fremur hátt auk þess sem kvikuþrýstingur er hár í kvikuhólfinu undir öskjunni.  Því verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups, sem gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum.  Alls ekki er víst svona fari, jökulhlaup á næstunni þarf ekki að leiða til eldgoss.

Vegna aðstæðna í Grímsvötnum hefur vísindaráð verið boðað á annan fund 18. júní.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica