Fréttir
GPS-tæki vaktar færslur við Bárðarbungu.

Virkni í Bárðarbungu frá goslokum

Fundur vísindamannaráðs almannavarna í Skógarhlíð

24.6.2016

Eftirfarandi fundargerð (pdf 0,3 Mb) barst frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra:


Á fundi vísindaráðs almannavarna í dag var farið yfir niðurstöður mælinga og athugana á Bárðarbungu undanfarnar vikur. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans auk starfsmanna frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Íssjármælingar voru gerðar á Bárðarbungu í vorleiðangri Jöklarannsóknarfélags Íslands (JÖRFÍ) dagana 3.-10. júní 2016. Engin merki koma fram um breytingar á botni öskjunnar frá síðasta ári og engar vísbendingar um að vatn sé að safnast fyrir inni í öskjunni. Lægðin sem myndaðist við sig öskjunnar í umbrotunum 2014-2015 grynnkar vegna innflæðis íss og snjósöfnunar, lægðin hefur grynnkað um 8 metra á ári.

Í leiðangri JÖRFÍ voru einnig gerðar gasmælingar við sigkatla á brúnum öskjunnar, sem myndast vegna jarðhita undir jöklinum. Þær sýna að útstreymi gass hefur lítið breyst síðasta árið. Dýpt og stærð katlana hefur ekki verið mæld í nokkurn tíma, en þær mælingar verða aðeins gerðar úr lofti. Ekki er því vitað hvort jarðhiti sé að aukast eða minnka.  

Ný jarðskjálftastöð í tæplega 1600 metra hæð í norðvesturhlíðum Bárðarbungu var sett upp 5. júní 2016. Hún bætir nákvæmni staðsetninga jarðskjálfta inni í öskjunni til muna. 

Jarðskjálftamælingar sýna að uppsafnað skjálftavægi í Bárðarbunguöskjunni hefur farið stigvaxandi frá miðjum september 2015. Alls hafa mælst 51 jarðskjálftar stærri en M3 frá goslokum í Bárðarbunguöskunni. Frekari upplýsingar um jarðskjálftana í Bárðarbungu má finna í frétt á vef Veðurstofu Íslands.

GPS mælingar sýna færslur í átt frá Bárðarbungu.

Líklegasta skýringin á aflögun og jarðskjálftavirkni er innflæði kviku á 10-15 km dýpi undir Bárðarbungu, þar sem kvikan átti uppruna sinn í gosinu 2014-2015. Engar vísbendingar eru um kvikusöfnun ofar í jarðskorpunni. Þetta er algeng hegðun í kjölfar eldgosa.

Í kjölfar öskjusigsins í Bárðarbungu og aukins jarðhita er hætta á að vatn safnist fyrir undir sigkötlum eða inni í öskjunni. Því er mikilvægt að fylgjast áfram með þróun katlanna auk þróun jarðskjálftavirkni, aflögunar, jarðhitavirkni og gasútstreymis.


Fróðleikur á vef Veðurstofunnar

Um Bárðarbungueldstöðina

Samantekt upplýsinga um Bárðarbungu og Holuhraun

Ógnarkraftar
Brúnir sigketils, syðst á öskjurima Bárðarbungu, 10. júní 2016. Víðátta mynd frá 7. júní sýnir sama sigketil með Grímsvötn í baksýn. Ljósmyndir: Benedikt G. Ófeigsson.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica