Fréttir
Mynd-2---is
Séð neðan á kjarnabút sem náði niður í jökulís undir snjólagi vetrarins. Takið eftir óhreinindum í ísnum. Ítarlegri útskýring í fréttinni. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir

Vetrarafkoma Hofsjökuls með slakasta móti

Við boranir kom fljótt í ljós að veturinn var óvenju snjóléttur

24.5.2023

Vetrarafkoma Hofsjökuls var mæld í 35. skipti í leiðangri Veðurstofu Íslands í síðustu viku aprílmánaðar. Að þessu sinni stóð tæpt að komist yrði að jöklinum á farartækjum, því snjólaust var orðið mjög víða um hálendið. Jörð var þó freðin því kólnað hafði í veðri fyrir brottför og var ekið án vandkvæða að norðurjaðri jökulsins. Leiðangursmenn fóru svo á vélsleðum um jökulinn og héldu til í Setrinu, skála jeppamanna suðvestan Hofsjökuls.

Setrid

Mynd af Setrinu, skála jeppamanna suðvestan Hofsjökuls. Hér er hópurinn að gera sig kláran fyrir leiðangurinn.

Skyringar

Útskýring á myndinni hér til vinstri:


Hofsjökull: Vatnasvið og afkomumælipunktar

Gulu línurnar afmarka vatnasvið Vestari Jökulsár í Skagafirði (punktar merktir HNxx), Austari Jökulsár (norðausturhlutinn), Þjórsár (punktar merktir HSAxx) og Jökulfalls (punktar merktir BLGxx). Innan vatnasviðs Þjórsár eru einnig 2 mælipunktar á Blautukvíslarjökli (merktir BLTxx). H18 er hæsti punktur jökulsins, um 1790 m y.s.








Við boranir kom fljótt í ljós að veturinn hafði verið óvenju snjóléttur, einkum á sunnanverðum jöklinum. Þykkt vetrarlagsins 2022-2023 var undir meðallagi í öllum mælipunktum og nam aðeins 60% af snjóþykkt í vetrarlok 2021-2022.

Borun-og-skraning-snjokjarna

Mynd: Unnið við borun snjókjarna, mælinga þeirra og skráningu. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir

Borað var í 20 punktum á Sátujökli, Þjórsárjökli, Blautukvíslarjökli og Blágnípujökli, auk punkts á hábungu jökulsins í 1790 m hæð. Mæld var lengd, þvermál og massi hvers kjarnabúts og reiknað út samanlagt vatnsgildi vetrarlagsins. Að auki var snjóþykkt mæld með rafsegulbylgjum á mælilínum allvíða um jökulinn og nam lengd þeirra samtals 240 km. Eðlisþyngd mæld á snjókjörnum var nærri meðallagi en frost var með mesta móti í vetrarlaginu.

H18-hiti-2023Hitaferlar (t.v.): Blái ferillinn sýnir hitaferil mældan í snjókjörnum á hábungu Hofsjökuls (1790 m y.s.) þann 26. apríl 2023. Rauði ferillinn sýnir meðaltal hitamælinga í vorferðum 2017-2022. Sjá má að nær alls staðar er óvenju mikið frost í snjónum þetta vor, einkum í efsta metranum. Þar kennir líklega áhrifa hins afar kalda marsmánaðar, sem einnig var með eindæmum þurr. Frostið er oftast mest á dýptarbilinu 2-3 m, í snjó sem fallið hefur á kaldasta tíma vetrarins. Vetrarfrostið hverfur úr snjónum þegar hlýnar að sumri og nær þá vetrarlagið allt bræðslumarki (0°C) líkt og allt hjarn og jökulís neðan þess.

H18-edlisthyngd-2023

Eðlisþyngdarferlar (t.h.): Blái ferillinn er nálgaður með veldisfalli við safn mæligagna frá hábungu Hofsjökuls úr vorferðum 2017-2022. Rauði ferillinn sýnir eðlisþyngd mælda 26. apríl 2023. Hvert lóðrétt strik táknar eðlisþyngd eins kjarnabúts og eru einstakir bútar mislangir. Eðlisþyngdin er undir meðaltali á bilinu 4.1-5.4 m en yfir meðaltali í efsta hluta kjarnans.

Skil vetrarlags og eldra hjarns eða íss

Hausthvorf

Á ákomusvæði jökulsins (ofan við ~1300 m hæð) er borað gegnum vetrarlagið niður í eldra hjarn frá fyrra vetri (sjá mynd hér að ofan)  Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson

Hrafnhildur-mynd-3

Á skilunum má oftast greina sk. hausthvörf, þ.e. skil fínkorna vetrarsnævar og grófara hjarns. Oft eru nokkurra sentimetra þykk íslög í skilunum og þar má stundum greina ryk, sem vindar hafa feykt af hálendinu á jökulinn að sumri og snemma hausts. Á leysingarsvæði jökulsins er jökulís undir snjólagi vetrarins, stundum aurugur. Þar er neðra borð vetrarlagsins því auðgreinanlegt. (Sjá mynd hér að ofan). Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir.

Varla dæmi um jafn litla ákomu á jöklinum

Snjóþykkt mældist 0.5 m í um 800 m hæð neðst á jöklinum en mest um 5.8 m á hábungu jökulsins í tæplega 1800 m hæð. Áðurnefnd ísasvið ná samtals yfir um 40% af flatarmáli jökulsins og má út frá niðurstöðunum áætla að meðalþykkt vetrarlagsins á Hofsjökli öllum hafi verið 2.7 m. Vatnsgildi þess reiknast með því að margfalda þykktina með eðlisþyngdarmeðaltali, sem að þessu sinni reyndist 470 kg/m3. Niðurstaðan er um 1270 kg/m2 sem jafngildir 1.27 m djúpu vatnslagi á hverjum fermetra jökulsins. Að teknu tilliti til óvissuþátta er vatnsgildi vetrarafkomunnar því metið 1.27 ± 0.15 m. Er það um 75% af meðaltali áranna 1989-2022 og eru varla dæmi um jafn litla ákomu á jökulinn frá upphafi mælinganna. Þó mældist hún ívið lægri í vorferðum 2001 og 2010.

Hofsjokull-Vetrarafkomusamanburdur

 Hér sést vetrarafkoma. Afkoma Hofsjökuls veturinn 2022-2023 (ljósblá súla) borin saman við afkomu vetrarins 2021-2022 (dökkblá súla) og meðaltal áranna 1989-2017 (grá súla).

Hofsjökull er nú rétt tæpir 800 km2 að flatarmáli og samsvarar vetrarafkoman því að 1 km3 af vatni hafi fallið á jökulinn í snævarham á liðnum vetri.

Kerlingarfjoll

Mynd tekin á Blágnípujökli. Gott útsýni er til Kerlingarfjalla frá suðvestanverðum Hofsjökli. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Hvers má vænta um sumar- og ársafkomu jökulsins?

Ef leysing verður að jafnaði 1.3 m (vatnsgildi) nægir það til að ársafkoman verði neikvæð. Leysing hefur aðeins tvívegis mælst minni en 1.3 m (sumurin 1992 og 2015) og meðaltalið er 2.1 m. Verður því að teljast mjög líklegt að rýrnun jökulsins muni halda áfram á þessu ári, því skv. langtímaspám er útlit fyrir að sumarið verði í hlýrra lagi.

Hrafnhildur-mynd-

Á þessari mynd er kjarni viktaður. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir

Nýliðinn vetur hefur þó kennt okkur að lofthiti yfir landinu getur sveiflast mikið milli mánaða og er því rétt að taka spádómum sem þessum með mátulegri varúð og bíða niðurstöðu haustmælinga á Hofsjökli í byrjun október.


Útskýring á forsíðumynd:

Mynd-2---is

Séð neðan á kjarnabút sem náði niður í jökulís undir snjólagi vetrarins. Takið eftir óhreinindum í ísnum. Annað hvort er þetta ryk sem fokið hefur á jökulinn að sumarlagi eða aur sem ísinn hefur skrapað upp af jökulbotni er hann skríður áfram, aurinn færist svo smám saman uppávið og safnast fyrir á yfirborðinu. Ekki alveg auðvelt að dæma af myndinni hvort tilfellið er þarna um að ræða, gæti jafnvel verið hvorttveggja. Ljósmynd: Hrafnhildur Hannesdóttir





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica