Vetrarafkoma Hofsjökuls 2023-2024
Vetrarafkoma Hofsjökuls var mæld í 37. sinn í fimm daga leiðangri Veðurstofu Íslands 29. apríl –3. maí 2024. Fjórir starfsmenn óku vélsleðum í 20 mælipunkta á jöklinum, boruðu gegnum snjólag vetrarins og mældu eðlisþyngd þess. Með afkomu í tilteknum punkti er átt við vatnsgildi snævar sem þar hefur safnast fyrir frá upphafi jökulársins. Oft er miðað við að jökulár hefjist 1. október og ljúki 30. september en auðvitað falla fyrstu snjóar oft fyrir 1. október, einkum ofarlega á jöklinum og þarf að taka tillit til þess við úrvinnslu. Ekki er víst að afkoman gefi til kynna alla úrkomu, sem fallið hefur um veturinn, því haustsnjóar geta bráðnað burt af yfirborði. Einnig getur úrkoma fallið sem regn að hausti (og jafnvel vetri) og skolast af jöklinum. Stundum er orðið ákoma notað um þykkt þess snjólags, sem varðveitst hefur á yfirborðinu frá vetrarbyrjun.
Suðvestanverður Hofsjökull. Fremst er vestanverður
Blautukvíslarjökull. Á skriðjöklinum handan gnípunnar ofan við miðja mynd bera
tvö ísasvið heitin Þverfellsjökull (nær) og Brattöldujökull (fjær). Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Þorsteinn Þorsteinsson
Að þessu sinni mældist ákoman minnst 0.5 m í 800 m hæð neðarlega á Blautukvíslarjökli, sem gengur suðvestur úr Hofsjökli. Mest mældist hún 5.8 m í 1600 m hæð ofarlega á norðurhelmingi jökulsins sem kenndur er við hæðina Sátu. Ámóta mikil ákoma (5.7 m) var á hábungu jökulsins í 1790 m hæð. Að jafnaði mældist snjóþykkt um 15% undir meðaltali undanfarins áratugar (2014–2023). Var snjóþykktin svipuð og við lok vetrarins á undan (2022–2023), en þó var sá munur á að síðastliðinn vetur snjóaði meira á leysingarsvæðinu (neðan við 1300 m) en minna bættist á safnsvæðið (ofan við 1300 m). Getur þessi munur skipt nokkru máli þegar áætluð er heildarleysing á komandi sumri, því hvítur snjórinn endurkastar sólarljósi mun betur en jökulísinn, sem undan honum kemur á leysingarsvæðinu, þegar liðið er á sumar. Mikill vetrarsnjór tefur því fyrir að leysing komist á fullan skrið og getur munað 25% á heildar-afrennsli að sumri milli tveggja sumra með svipað veðurlag, ef snjóalög eru óvenju mikil eftir annan veturinn en óvenju lítil eftir hinn veturinn.
Hér má sjá snjókjarna á vinnuborði. Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Þorsteinn ÞorsteinssonVetrarákoma
(snjóþykkt) á Þjórsárjökli, sem nær yfir rúman fjórðung af flatarmáli
Hofsjökuls. Ákoman var í minna lagi síðustu tvo vetur, en með mesta móti
veturinn 2021-22.
Meðaleðlisþyngd vetrarlagsins mældist á bilinu 0.45–0.48 g/cm3 og var hún að jafnaði lítillega undir langtímameðaltali. Snjóhiti var óvenju lágur enda var veturinn kaldur. Berst frostið niður í efstu 10–12 metra snævar og hjarns á safnsvæði jökulsins en snjórinn hlýnar svo allur að bræðslumarki um sumarið.
Gögn um eðlisþyngd og hita í snjólagi vetrarins í punktinum H18 á hábungu Hofsjökuls mæld 1. maí 2024. Eldri meðaltöl til samanburðar.
Vetrarafkoma í tilteknum punkti er reiknuð með því að margfalda saman þykkt vetrarlagsins og meðaleðlisþyngd þess. Reyndist vatnsgildi hennar 1.4±0.2 m þegar jafnað er yfir Hofsjökul allan, þ.e. um 18% undir meðaltali áratugarins 2014–2023. Flatarmál jökulsins er nú rétt tæpir 800 km2 og hafa því um 1.1±0.2 gígatonn safnast á Hofsjökul á liðnum vetri (1 GT = 1 milljarður tonna = 1 km3 vatns).
Sumarleysing á jöklinum hefur að jafnaði numið –2.2±0.2 m undanfarin 10 ár og hafa því um 1.8 GT tapast árlega að jafnaði. Því er ljóst að verði sumarið nærri meðallagi undanfarins áratugar mun jökullinn enn rýrna á þessu ári. Samkvæmt þekktu samhengi meðalhita sumars á Hveravöllum og sumarafkomu á Hofsjökli má áætla að meðalhitinn þyrfti að vera 4 °C á tímabilinu maí–sept, um 1.5°C lægri en að jafnaði undanfarinn áratug, til þess að leysing á Hofsjökli verði ekki umfram ákomu þetta jökulár.
Aurhattur á stapalaga ísstrýtu, sem stendur upp úr
neðanverðum Þjórsárjökli. Myndin sýnir hvernig aur (og stundum gjóska) getur
tafið leysingu á afmörkuðu svæði. Þarna hefur veirð drýli og au og sandur hefur smám saman skolast af hliðum þess. Aur situr þó enn á toppnum og ver ísinn gegn bráðnun um tíma.