Fréttir
Dregið hefur verulega úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Hér má sjá samantekt af skjálftum sem mældust í apríl.

Verulega dregið úr skjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur

Vísbendingar um að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum

4.5.2020

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi fimmtudaginn 30. apríl vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurnesjum.

Í byrjun apríl dró úr landrisi við Þorbjörn og um miðjan mánuðinn lauk þessari seinni landrishrinu. Í kjölfar landrissins mældist sig sem má útskýra með því að jarðskorpan jafnar sig þar sem kvikan í innskotunum kólnar og dregst saman.  Á sama tíma hefur dregið verulega úr skjálftavirkni.  Þetta bendir til þess að kvikuinnflæði undir Þorbjörn sé lokið í bili.  Þrátt fyrir að ekki mælist lengur landris við Þorbjörn, gætir enn dálítilla landbreytinga á stærra svæði.  Eins og þróun atburða hefur verið síðustu mánuði verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum.

Veðurstofa Ísland ásamt Jarðvísindastofnun, ÍSOR og HS-Orku mun áfram fylgjast vel með þróun mála á Reykjanesskaga.

Jarðskjálftahætta á Reykjanesi er viðvarandi

Áhrif jarðskjálfta, í hrinu eins og þeirri sem nú gengur yfir, getur gætt á öllum Reykjanesskaga, og er þá höfuðborgarsvæðið ekki undanskilið. Jarðskjálftahætta á Reykjanesi er viðvarandi og því þarf alltaf að huga að forvörnum vegna hennar.  Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir tjón eða líkamsmeiðsl er að ganga vel frá húsgögnum og öðrum innanstokksmunum þannig að þau falli ekki ef jarðskjálfti ríður yfir. 

Vísindaráð almannavarna hvetur því enn fólk til þess að fara yfir heimili og vinnustaði og tryggja óstöðuga innanstokksmuni. Upplýsingar um forvarnir og viðbrögð vegna jarðskjálfta má finna á heimasíðu almannavarna

Næsti fundur vísindaráðs almannavarna verður haldinn í lok maí þar sem fjallað verður um mælingar og rannsóknir á helstu virku eldstöðvum á Íslandi ásamt jarðskjálftasvæðum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica