Fréttir
Hopmynd_Ofanflodahopur_2023
Hópmynd frá samráðsfundi ofanflóðastarfsfólks sem haldinn var í Neskaupstað dagana 3.-5. október. Fundirnir eru árlegir, annað hvort er eru þeir haldnir í Reykjavík og hitt árið á öðrum stöðum landsins þar sem snjóathugunarmenn starfa.

Vel heppnaður samráðsfundur ofanflóðastarfsfólks í Neskaupstað

Sett verður upp starfsstöð Veðurstofunnar í Neskaupsstað tímabundið fram til sumars 2025. Liður í því að efla ofanflóðavöktun á Austurlandi.

6.10.2023

Samráðsfundur snjóathugunarmanna og ofanflóðastarfsfólks Veðurstofunnar var haldinn í Neskaupstað dagana 3.-5. október. Fundirnir eru árlegir, en annað hvert ár eru þeir haldnir í Reykjavík og hitt árið á öðrum stöðum landsins þar sem snjóathugunarmenn starfa. Samráðsfundirnir eru eina skiptið á árinu þar sem allir þeir (öll þau) sem vinna að ofanflóðamálum hjá Veðurstofunni víðsvegar um landið, hittast. Hópurinn vinnur síðan þétt saman allt árið að vöktun ofanflóða, hættumati og rannsóknum. Á fundunum eru flutt erindi um sum þeirra verkefna sem unnið hefur verið að síðasta árið. Mikilvægur hluti fundanna er einnig yfirferð yfir ofanflóð og vaktstörf síðasta árið, umræður, greiningar og rýni með það í huga að halda áfram að bæta ofanflóðavöktun á Íslandi. Þau sem starfa við snjóathuganir fá þjálfun í öryggismálum og verklagi. Á nýafstöðnum fundi var einnig farið í vettvangsferð í fjallið ofan Neskaupstaðar þar sem hópurinn fræddist um snjóflóðasöguna og þá sérstaklega þau snjóflóð sem féllu í mars 2023. Varnarvirki voru skoðuð og Kristín Martha Hákonardóttir varnarvirkjahönnuður fór með hópnum yfir virkni þeirra. Einnig var farin skoðunarferð til Eskifjarðar og upp á skíðasvæðið í Oddsskarði.

20231003_144843

Hópurinn að kynna sér varnarvikri í Neskaupstað.

Ofanflóðamál einnig rædd á vinnustofu með heimafólki

Stór hluti ofanflóðastarfsfólks Veðurstofunnar tók einnig þátt í vel heppnaðri vinnustofu sem Almannavarnarnefnd Austurlands og Veðurstofan stóðu fyrir í Neskaupstað. Þar hittust hinir ýmsu aðilar á svæðinu og ræddu ofanflóðamál út frá mismunandi sjónarhornum. Rætt var m.a. um samskipti og skipulag í aðdraganda og á meðan á hættuástandi stendur, vinnu í kjölfar atburða, uppbyggingu varna, hættumat og hvernig skipulag byggðar þarf að taka tillit til ofanflóðahættu. Einnig var rætt um ofanflóðahættu á vegum, snjóflóðaslys í fjalllendi og snjóflóðahættu á skíðasvæðum.

Í kjölfar vinnufundarins var haldinn opinn upplýsingafundur fyrir íbúa. Einnig var tilkynnt að komið verður upp starfsstöð Veðurstofunnar í Neskaupsstað fram til sumars 2025. Það er liður í því að efla ofanflóðavöktun á Austurlandi.

Snjóathugunarmenn í héraði eru mikilvægir ráðgjafar ofanflóðavaktar

Á ofanflóðadeild Veðurstofunnar eru starfræktar skriðu- og snjóflóðavaktir, og einnig er unnið að ofanflóðahættumati. Til þess að vöktun og hættumat byggi á góðum grunni er nauðsynlegt að vinna jafnframt að ýmsum þróunar- og rannsóknarverkefnum. Snjóathugunarmenn eru hluti af starfsfólki ofanflóðadeildar en á landinu starfa 22 einstaklingar við snjóathuganir á vegum Veðurstofunnar og sveitarfélaganna. Hlutverk þeirra er að fylgjast með veðri og snjóalögum, mæla snjódýptir, skrá snjóflóð, taka snjógryfjur og gera stöðugleikaprófanir á snjó. Einnig fylgjast snjóathugunarmenn með ummerkjum um skriðuhættu og skrá skriður sem falla. Þau sem starfa við snjóathuganir eru ráðgjafar ofanflóðavaktar Veðurstofunnar og mikilvægur hluti vöktunarkerfisins enda segja mælar ekki allt, það er mikilvægt að hafa augu á staðnum. Snjóathuganir eru oft á tíðum krefjandi starf, því fylgir álag og það er ekki alltaf hættulaust, en í starfið velst fólk sem ber umhyggju fyrir samfélagi sínu og hefur næmt auga fyrir náttúrulegu umhverfi sínu.

Tomas-snjoathugunarmadur

Tómas að störfum við snjóathuganir.

Tómas Zoëga er einn snjóathugunarmanna Veðurstofunnar sem hefur starfað sem lengst, en Tómas hefur starfað sem snjóathugunarmaður í Neskaupstað hátt í 40 ár eða frá því seint á síðustu öld. Tómas hefur látið af störfum og í lok upplýsingafundarins fyrir íbúa var Tómas heiðraður fyrir störf sín við snjóathuganir. Við starfinu tekur Daði Benediktsson, og mun hann hafa sér til aðstoðar Hjálmar Joensen. 

Veðurstofan þakkar Tómasi fyrir störf sín fyrir samfélagið í gegnum árin og óskum við honum velfarnaðar á þessum tímamótum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica