Fréttir
Vedurstodin-hvanneyri-2023
Ljósmynd af veðurstöðinni Hvanneyri búveðurstöð (hveyb), tekin 9. nóvember 2023. Hægra megin á myndinni er mastur með vindmæli í toppnum, vefmyndavélum sem horfa til suðurs og norðnorðausturs, hita- og rakamæli á slá til hægri og geislamæla á slá til vinstri. Til vinstri á myndinni eru rammi með vindmælum við yfirborð og í 1 og 2 m hæð og til hliðar úrkomumælir. Ljósmynd: Friederike Dima Danneil.

Veðurstöðin á Hvanneyri tekur breytingum

28.2.2024

Höfundar

Guðrún Nína Petersen, Árni Sigurðsson, Sibylle von Löwis og Friederike Dima Danneil


Á undanförnum tveimur árum hefur Veðurstofa Íslands í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands unnið að færslu og uppfærslu á veðurmælingum á Hvanneyri. Síðan sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Hvanneyri árið 1997 hefur umhverfi hennar tekið nokkrum breytingum og veðurstöðin er orðin umlukin trjágróðri og byggingum. Hún uppfyllir því ekki lengur kröfur Veðurstofunnar og Alþjóðaveðurfræði-stofnunarinnar um stöð sem mælir veður sem er lýsandi fyrir svæðið. Að auki uppfyllir hún heldur ekki kröfur Landbúnaðarháskólans fyrir landbúnaðar-rannsóknir. Þess utan er veðurstöðin í alfaraleið innan Hvanneyri og hafði stundum orðið fyrir hnjaski vegna leiks og starfa íbúa á svæðinu. Því var ljóst að til að hægt væri að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til veðurmælinga þyrfti að færa þær til innan Hvanneyrar. Styrkur fékkst frá Innviðasjóði Rannís til að gera nýju veðurstöðina að heilstæðri búveðurstöð, þ.e. bæta við mælitækjum sem mæla þætti sem hafa áhrif á vöxt og afkomu nytjajurta, en eru almennt ekki hluti af hefðbundnum veðurmælingum.

Nýju veðurstöðinni var valinn staður um 200 m vestnorðvestan við aðalbyggingu Landbúnaðarháskólans með viðbótarmælistöð á akri um 1 km norðaustur af byggðinni. Á mynd 1 má sjá staðsetningar gömlu og nýju veðurstöðvarinnar. Til að aðskilja veðurstöðvarnar heldur eldri veðurstöðin heitinu Hvanneyri (skammstöfuð hveyr) í bili en nýja stöðin er kölluð Hvanneyribúveðurstöð (hveyb). Viðbótarveðurstöðin fékk heitið Hvanneyri akur (hakur). Á ytri vef Veðurstofunnar eru nú sýndar mælingar, myndir úr vefmyndavélum og veðurspár frá nýju búveðurstöðinni. Sú eldri er þó enn í gangi, svo fáist samanburðartímabil. Hún verður þó fljótlega tekin niður og þá mun nýja veðurstöðin taka yfir nafnið og verða veðurstöðin Hvanneyri. Í framhaldi af því verður gerður samanburður á mælingum á eldri veðurstöðinni og nýju búveðurstöðinni.

Yfirlitsmynd

Mynd 1: Kort sem sýnir staðsetningar veðurstöðvanna á Hvanneyri: eldri veðurstöðin (hveyr), nýja búveðurstöðin (hveyb) og aukabúveðurstöðin (hakur).

Mælingarnar á nýju veðurstöðinni munu nýtast Veðurstofunni við almenna veðurvöktun, spágerð, viðvaranir og veðurrannsóknir og Landbúnaðarháskólanum við rannsóknir sem tengjast jarðrækt, búfjárrækt og landbúnaðarframleiðslu. Mynd 2 er ljósmynd sem sýnir nýju veðurstöðina.

Vedurstodin-hvanneyri-2023

Mynd 2: Ljósmynd af veðurstöðinni Hvanneyri búveðurstöð (hveyb), tekin 9. nóvember 2023. Hægra megin á myndinni er mastur með vindmæli í toppnum, vefmyndavélum sem horfa til suðurs og norðnorðausturs, hita- og rakamæli á slá til hægri og geislamæla á slá til vinstri. Til vinstri á myndinni eru rammi með vindmælum við yfirborð og í 1 og 2 m hæð og til hliðar úrkomumælir. Ljósmynd: Friederike Dima Danneil.

Helstu mælar eru komnir í rekstur en enn á eftir að setja upp skyggnismæli, skýjahæðamæli, snjódýptarmæli og grænkustuðulsnema. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvaða mælitæki verða á nýju stöðinni.

Mælir Staðsetning
Vindmælir 10 m hæð
Vindmælir án áttar Við jörðu og í 1 og 2 m hæð
Vindáttamælir 2 m hæð
Úrkomumælir 1,5 m hæð
Loftvog 1,7 m hæð
Lofthitamælir Við jörðu og í 2 m hæð
Loftrakamælir 2 m hæð
Jarðvegshitamælir 5, 10, 20, 50 og 100 cm dýpi
Jarðvegsraka- og leiðnimælir 20 cm dýpi, gagnastreymi ekki komið
Geislamælir Stuttbylgja og langbylgja frá himni og jörðu
Gróðurrakaskynjari Við jörðu
Vefmyndavélar Horfa til suðurs og norðnorðausturs
Skýjahæðamælir Á eftir að setja upp
Skyggnismælir Á eftir að setja upp
Snjódýptarmælir Á eftir að setja upp
Grænkustuðulsnemi Á eftir að setja upp

Viðbótarveðurstöðin norðaustan byggðarinnar er á svæði með aðrar landbúnaðaraðstæður, þ.e. önnur jarðvegsgerð og skjólbeltaumhverfi. Þar eru gerðar búveðurmælingar, mælingar á jarðvegshita og -raka á nokkrum dýptum, lofthita við jörð, lofthita og -raka í 2 m hæð auk vindhraða við jörð og í 1 og 2 m hæð. Mynd 3 sýnir hvernig veðurstöðin á akrinum lítur út.

Akurinn-nordaustur-af-byggd

Mynd 3: Ljósmynd af veðurstöðinni á akrinum norðaustur af byggðinni (hakur), tekin 9 nóvember 2023. Veðurstöðin samanstendur af ramma með þremur vindmælum, við jörðu og í 1 og 2 m hæð, lofthita og -rakamæli í 2 m hæð auk jarðvegshita og -rakamælum á nokkrum dýptum. Ljósmynd: Friederike Dima Danneil.

Saga veðurmælinga á Hvanneyri

Veðurmælingar á Hvanneyri eiga sér nokkuð langa sögu, allt frá stofnun Veðurstofu Íslands. Veðurmælingar hófust árið 1923 og stóðu að mestu samfellt fram til ársins 1944. Þorgils Guðmundsson, kennari, var veðurathugunarmaður á árunum 1923-1929, en þá tók við Ásmundur Sigurðsson, ráðsmaður, en hann sinnti veðurathugunum á árunum 1929-1932. Hjörtur Jónsson, ráðsmaður, var veðurathugunarmaður í 10 ár, 1932-1941, og því næst Guðmundur Jóhannesson, ráðsmaður, á tímabilinu 1941-1944. Svo varð hlé á veðurathugunum í um tvo áratugi eða til ársins 1963 þegar mælingar hófust á nýju. Þá var stöðin skilgreind sem veðurfarsstöð.

Vedurstodin-hvanneyri-1963

Mynd 4: Veðurstöðin á Hvanneyri, ljósmynd tekin 12. júní 1963. Unnið við hitamælaskýli fyrir miðri mynd en úrkomumælir er til vinstri. Ljósmynd: Markús Á. Einarsson.

Gerðar voru mælingar þrisvar sinnum á dag, kl. 9, 15 og 21 og gögnum skilað mánaðarlega til Veðurstofunnar. Þegar mælingar hófust á ný 12. maí var Helga Sigurjónsdóttir, húsfreyja, veðurathugunarmaður og henni til aðstoðar var Magnús Óskarsson, tilraunastjóri. Þá var veðurstöðin staðsett þar sem nú er Túngata 12, mynd 4. Óttar Geirsson, tilraunastjóri, tók svo við veðurathugunum 20. júní 1969 og var stöðin þá færð um 50 m til suðurs. Var vindteljari settur í 2 m hæð, og lesið af honum einu sinni á sólarhring, og hitasírita bætt í hitamælaskýlið til að fá þéttari hitagögn, mynd 5. 

Blad-ur-hitasirita

Mynd 5: Blað úr hitasírita sem sýnir hita (°C) og raka (%) á Hvanneyri, 9.-16. ágúst 1971.  Lóðréttu merkingarnar í hitamælingunum voru gerð af veðurathugunarmanni við athugunar kl. 09 og 18. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Á árunum um og eftir 1970 sjá nemendur Landbúnaðarskólans að mestu um veðurathuganirnar á vetrum og sumarstarfsmenn á sumrin. Fyrir utan hita, raka og úrkomu var einnig mældur hiti í 20 cm hæð, jarðvegshiti og lágmarkshiti við jörð. Vindhraði og vindstefna var metin sem og skýjahula, skyggni, veður og snjóhula. Árið 1972 tók Bjarni Guðmundsson, tilraunastjóri, við ábyrgð á athugununum en nemendur og sumarstarfsmenn sáu að mestu um athuganirnar eftir sem áður. Þann 20. júní 1980 var veðurstöðin flutt um 400 m til suðvesturs, nyrst á svonefndar Skólaflatir, og á þeim stað hefur hún verið fram að þessu, mynd 6. Grétar Einarsson, tilraunastjóri, tók svo við gerð veðurathugana árið 1984. Byrjað var að gera stöðina sjálfvirka á árunum 1990 og 1991, með hita, raka og vindhraðamælingum í 2 m hæð.

Vedurstodin-hvanneyri-1993

Mynd 6: Veðurstöðin á Hvanneyri, ljósmynd tekin 30. september 1993. Ljósmynd: Torfi Karl Antonsson.

Full sjálfvirk veðurstöð var sett upp á sama stað árið 1997 en mannaða veðurstöðin hætti 25. ágúst 1998, mynd 7. Sjálfvirka stöðin mælir hita, raka og vind í 2 m hæð, vindhraða og vindstefnu í 10 m hæð og úrkomu. Til að byrja með var einnig mældur jarðvegshiti í fjórum dýptum og hiti við jörðu, en því var hætt vorið 2007. Allar mælingar eru skráðar á 10 mínútna fresti.

Þegar veðurstöðinni var valinn staður árið 1980 var þarna opið svæði en nokkrum árum síðar var byggt einbýlishúsahverfi austan við stöðina sem þrengdi vel að stöðinni og upp úr 1990 var farið að planta trjám nærri stöðinni. Smám saman urðu aðstæður til veðurmælinga á þessum stað takmarkaðar og alls ekki lýsandi fyrir veður á Hvanneyri, líkt og var í upphafi. Einnig nýttist veðurstöðin illa sem búveðurstöð. Af þessum ástæðum var nýrri og uppfærðri veðurstöð fundinn nýr staður, á opnu svæði um 200 m vestnorðvestan við aðalbyggingu Landbúnaðarháskólans. Uppbygging þessarar nýju og fullkomnari veðurstöð hófst 1. mars 2023. Í maí 2023 var viðbótarveðurstöð bætt við á opnum akri, um 1 km austnorðaustur af byggðinni. Uppbyggingu á nýju veðurstöðinni er ekki lokið, enn á eftir að bæta nokkrum mælitækjum við, en Hvanneyri búveðurstöð er þegar orðin heildstæðasta búveðurstöð landsins.

Sjalfvirka-vedurstodin-hvanneyri

Mynd 7: Sjálfvirka veðurstöðin á Hvanneyri (hveyr), ljósmynd tekin 30. október 2003. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica