Fréttir
Vísindamenn Veðurstofu Íslands að störfum við mælingar
Vísindamenn Veðurstofu Íslands að störfum við mælingar (Ljósmynd Bergur H. Bergsson/Veðurstofa Íslands)

Uppbygging hafin á umfangsmestu gagnaþjónustum fyrir jarðvísindi frá upphafi

29.10.2021

Aðgengi að gögnum lykillinn að framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna

Fyrr í ár var úthlutað styrkjum úr Innviðasjóði Rannsóknarmiðstöðvar Íslands , RANNÍS. Markmiðið með sjóðnum er að efla innlendar vísindarannsóknir með því að skapa nýja möguleika til rannsókna með fjármögnun tækjabúnaðar eða aðstöðu sem ekki er aðgengileg nú þegar. Sex verkefni eru forgangsröðuð á sérstökum vegvísi Innviðasjóðs um uppbyggingu rannsóknarinnviða og er EPOS Ísland eitt þeirra.

EPOS Ísland er leitt af Kristínu Vogfjörð, sem fer fyrir hópi jarðvísindafólks á Veðurstofu Íslands og stundar rannsóknir m.a. á eldstöðvum og jarðskjálftavirkni á Íslandi. Verkefnið tengist uppbyggingu evrópsku innviðasamtakanna EPOS ERIC ( European Plate Observing System ) sem hófst fyrir um 11 árum síðan og hefur Ísland verið þátttakandi í uppbyggingu EPOS frá upphafi. Markmið EPOS er að efla jarðvísindi í Evrópu með bættu aðgengi að jarðvísindagögnum, rafrænum þjónustum og ofurtölvum svo dæmi séu nefnd. EPOS Ísland er umfangsmesta uppbygging á gagnaþjónustum fyrir jarðvísindi sem ráðist hefur verið í á Íslandi.

„Þegar talað er um innviði í vísindarannsóknum er átt við aðgengi að margskonar rafrænum þjónustum sem veita opið aðgengi að gögnum eða að ofurtölvum til úrvinnslu gagna og slíkir innviðir eru mjög mikilvægir“ segir Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðar og eldgosa á Veðurstofu Íslands. „EPOS Ísland er samstarf fimm stofnana um uppbyggingu innviða í jarðvísindum sem eru öflugar gagnaþjónustur sem veita opið aðgengi að mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum frá Íslandi. Þetta eru til dæmis gögn úr jarðskjálftamælaneti og GPS mælaneti, jarðskjálftalistum fyrir alla skráða skjálfta á Íslandi, jarðfræðikortum og ýmsum eldfjallagögnum eins og ösku- og gasmælingum, ratsjármælingum frá gosmökkum, steinasöfnum og ljósmyndasöfnum fyrir öll helstu gos seinustu tveggja áratuga. Sem sagt heilmikið magn af margskonar gögnum“, segir Kristín.

Aðgengi að gögnum lykillinn að framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna

Með því að veita aðgengi að áður óaðgengilegum gögnum og rannsóknarstofum víðs vegar um álfuna skapast nýir möguleikar á þverfaglegum vísindarannsóknum sem taka til allra fagsviða innan jarðvísinda, jafnt grunnrannsókna sem hagnýtra rannsókna, stúdentaverkefna og innlendra sem alþjóðlegra samstarfsverkefna. Um leið er veittur möguleiki á úrvinnslu og samtúlkun með alþjóðlegum jarðvísindagögnum.

„Í hvert sinn sem stórir jarðskjálftar eða eldsumbrot verða í námunda við byggð eða samfélagsinnviði og ógna þeim, byggja viðbrögð eftirlitsstofnana, Almannavarnaraðila og stjórnvalda á þekkingu byggðri á greiningu og rannsóknum á fyrri atburðum“, segir Kristín. EPOS Ísland mun gera jarðvísindagögn aðgengileg vísindafólki allra innlendra rannsóknarstofnana sem og allra landa og stuðla þannig að framþróun þekkingar sem nýtist samfélaginu við að minnka áhættu og skaða sem af þessum atburðum hlýst.

Gagnaþjónusta EPOS Íslands mun nýtast hagsmunaaðilum, eins og orkuveitum og verkfræðistofum, við hagnýtar rannsóknir sem miða að nýtingu og umsjón auðlinda landsins og sem mögulegur dreifingaraðili fyrir þeirra eigin gögn. Enn fremur eru eldfjallaþjónustur verkefnisins mikilvægar fyrir alþjóðlegu og íslensku flugmálastofnanirnar, ICAO og ISAVIA við að meta og stýra flugöryggi í nálægð eldgosa.

Thumbnail_20200606_184332

Mælingar við Grímsvötn. (Ljósmynd Melissa Anne Pfeffer/Veðurstofa Íslands)

Þetta aukna aðgengi mun einnig auðvelda íslenskum háskólum að nýta þau mikilvægu jarðvísindagögn sem safnast hafa á Íslandi um helstu íslensku eldgos og jarðskjálfta seinustu áratuga, til að mennta nýjar kynslóðir jarðvísindafólks, segir Kristín. „Uppbygging rannsóknarinnviða EPOS Íslands munu auðvelda aðgengi íslensks vísindafólks að fjölþátta jarðvísindagögnum og afurðum frá Íslandi sem og öðrum Evrópulöndum, og styrkja samkeppnishæfni þeirra til alþjóðlegra styrkja.

Einnig myndast nýir möguleikar á þverfaglegum tengingum við önnur fræðasvið eins og líffræði, landafræði, veðurfræði, félagsfræði o.fl. og þar með á þverfaglegum rannsóknum á náttúruvá eins og t.d. jarðskjálfta- og eldfjallavá.

„Það má alveg gera samanburð við það sem þekkist sem „hakkaþon“, þar sem hópur fólks fær aðgengi að gögnum og verkefnið er að hagnýta gögnin á einhvern hátt í einhverskonar nýsköpun. EPOS Ísland er einmitt þetta en á miklu stærri skala. Hagnýting á gögnum handa samfélaginu“, segir Kristín.

„Þannig að þetta verkefni sem ber ef til vill ekki mikið á í daglegum tali og virðist ekki jafn áhugavert og sjónarspilið við Fagradalsfjall, er engu að síður gífurlega mikilvægt þegar til lengri tíma er litið og skiptir verulega máli hvað varðar framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna“, segir Kristín Vogfjörð að lokum.

Í dag 29. október,  verður haldinn ræsfundur kl 10:30 í Undirheimum, sal Veðurstofu Íslands þar sem aðilar frá þátttökustofnununum, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Íslenskum Orkurannsóknum munu hittast og farið verður yfir m.a.  verkáætlun fyrsta árs og samstarfssamningur stofnananna kynntur.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica