Fréttir
Logo_ERIC_definitivo_566_0

Umfangsmesta gagnaþjónusta fyrir jarðvísindi frá upphafi opnuð

Aðgengi vísindasamfélagsins að gögnum lykillinn að framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna

26.4.2023

Evrópsku innviðasamtökin, EPOS ERIC sem Ísland er aðili að, opnuðu í gær aðgengi að alþjóðlegri gagnagátt fyrir jarðvísindi. Gagnagáttin er afrakstur 20 ára rannsóknarstarfs og nýsköpunar á vegum samtakanna.

Með EPOS verkefninu (European Plate Observing System), sem hófst árið 2007 hefur tekist að samþætta gögn og afurðir frá um 150 innlendum rannsóknarstofnunum  frá 25 Evrópulöndum í einn gagnagrunn. Opnun gagnagáttarinnar var fagnað í Vínarborg í gær, 25. apríl á árlegu aðalþing Evrópska jarðvísindasambandsins.

EPOS ERIC

Ísland, undir forystu Veðurstofu Íslands hefur verið þátttakandi í uppbyggingu á EPOS ERIC samtökunum frá upphafi og er markmið þess að efla jarðvísindi í Evrópu með bættu aðgengi að jarðvísindagögnum, rafrænum þjónustum og ofurtölvum svo dæmi séu nefnd. 

Kristin-vogfjord

Hér sjáum við Kristínu Vogfjörð fagstjóra jarðar og eldgosa hjá Veðurstofu Íslands í Vínarborg kynna landsátak á Íslandi til að tryggja langtíma sjálfbærni EPOS þjónustu í gegnum innlenda rannsóknarsjóði sem styðja við myndun nýrrar þverfaglegrar EPOS þjónustu sem og langtíma sjálfbærni.

EPOS Ísland er leitt af Kristínu Vogfjörð, sem fer fyrir hópi jarðvísindafólks á Veðurstofu Íslands og stundar rannsóknir m.a. á eldstöðvum og jarðskjálftavirkni á Íslandi. Háskóli Íslands og Landmælingar Íslands eru virkir þátttakendur í samstarfinu. Verkefnið tengist uppbyggingu evrópsku innviðasamtakanna EPOS ERIC ( European Plate Observing System ) og hefur Ísland verið þátttakandi í uppbyggingu EPOS frá upphafi. EPOS Ísland er umfangsmesta uppbygging gagnaþjónustu fyrir jarðvísindi sem ráðist hefur verið í á Íslandi og tengist beint uppbyggingunni á vegum evrópsku innviðasamtakananna EPOS ERIC. „Þegar talað er um innviði í vísindarannsóknum er átt við aðgengi að margskonar rafrænum þjónustum sem veita opið aðgengi að gögnum eða að ofurtölvun til úrvinnslu gagna og slíkir innviðir eru mjög mikilivægir“ segir Kristín.

„Framtíðarsýn EPOS er að stuðla að opnum vísindum með því að deila þverfaglegum jarðvísindagögnum og afurðum stofnanna til að efla rannsóknir og nýsköpun; þetta hefur verið okkar leiðarljós  við smíði gagnagáttarinnar sem við kynntum í dag í Vínarborg“, útskýrir Lilli Freda, framkvæmdastjóri EPOS ERIC í fréttatilkynningu. EPOS er fyrsta og eina evrópska verkefnið sem snýr að innviðum í jarðvísindum og mun hjálpa ekki aðeins vísindamönnum, heldur einnig veitir innlendum stjórnvöldum verkfæri til mótvægis við náttúruvá, auk þess að efla fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun í jarðvísindum“.

Með því að veita aðgengi að áður óaðgengilegum gögnum, afurðum eða þjónustum frá rannsóknarstofum víðs vegar um álfuna, skapast nýir möguleikar á þverfaglegum vísindarannsóknum sem taka til allra fagsviða innan jarðvísindanna, jafnt grunnrannsókna sem hagnýtra rannsókna, verkefna háskólanema og innlendra sem alþjóðlegra samstarfsverkefna. Um leið er veittur möguleiki á úrvinnslu og samtúlkun jarðvísindagagna frá ólíkum löndum og stofnunum. Síðustu 20 ár hefur alþjóðlegt teymi um 600 sérfræðinga unnið að því að samræma og samþætta yfir 60 tengundir lýsigagna, þ.e.a.s. „gögn um gögn“, frá hinum ýmsu greinum til að efla jarðvísindi og fá betri skilning á eðlis- og efnaferlum sem stjórna náttúrufyrirbærum jarðkerfisins, eins og jarðskjálftum, eldgosum og flóðbylgjum. 

Vísindamenn Veðurstofu Íslands að störfum við mælingar

Vísindamenn Veðurstofu Íslands að störfum við mælingar. (Ljósmynd Bergur H. Bergsson/Veðurstofa Íslands).

Ítarlegri upplýsingar um EPOS Ísland

EPOS ÍSLAND hlaut sess á Íslenska Vegvísinum um uppbyggingu rannsóknarinnviða í júní 2021.

Verkefnið er leitt af Veðurstofu Íslands og samstarfsaðilar eru Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og ÍSOR-Íslenskar Orkurannsóknir.

EPOS Ísland er samstarfsverkefni stofnananna um uppbyggingu innviða í jarðvísindum og er uppbyggingin í formi öflugra gagnaþjónusta sem veita opið aðgengi að mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum frá Íslandi. Gagnaþjónustan er beintengd sam-evrópskri gagnaþjónustu EPOS sem opnar í dag. Útgáfa vegvísis um rannsóknarinnviði er samvinnuverkefni stjórnar Innviðasjóðs, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Á Vegvísi eru tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs. Er þetta fyrsti Vegvísir um rannsóknarinnviði á Íslandi og njóta þau verkefni sem tilgreind eru á vegvísi forgangs við úthlutun stórra styrkja úr Innviðasjóði.

Gagnaþjónusta EPOS Íslands mun nýtast hagsmunaaðilum, eins og orkuveitum og verkfræðistofum, við hagnýtar rannsóknir sem miða að nýtingu og umsjón auðlinda landsins og sem mögulegur dreifingaraðili fyrir þeirra eigin gögn. Enn fremur eru eldfjallaþjónustur verkefnisins mikilvægar fyrir alþjóðlegu og íslensku flugmálastofnanirnar, ICAO og ISAVIA við að meta og stýra flugöryggi í nálægð eldgosa. Þetta aukna aðgengi mun einnig auðvelda íslenskum háskólum að nýta þau mikilvægu jarðvísindagögn sem safnast hafa á Íslandi um helstu íslensku eldgos og jarðskjálfta seinustu áratuga, til að mennta nýjar kynslóðir jarðvísindafólks. Uppbygging rannsóknarinnviða EPOS Íslands munu auðvelda aðgengi íslensks vísindafólks að fjölþátta jarðvísindagögnum og -afurðum frá Íslandi sem og öðrum Evrópulöndum, og styrkja samkeppnishæfni þeirra til alþjóðlegra styrkja. Einnig myndast nýir möguleikar á þverfaglegum tengingum við önnur fræðasvið eins og líffræði, landafræði, veðurfræði, félagsfræði o.fl. og þar með á þverfaglegum rannsóknum á náttúruvá eins og t.d. jarðskjálfta- og eldfjallavá. Það má alveg gera samanburð við það sem þekkist sem „hakkaþon“, þar sem hópur fólks fær aðgengi að gögnum og verkefnið er að hagnýta gögnin á einhvern hátt í einhverskonar nýsköpun. EPOS Ísland er einmitt þetta en á miklu stærri skala. Hagnýting á gögnum til handa samfélaginu. Markmið EPOS Ísland er því gífurlega mikilvægt þegar til lengri tíma er litið og skiptir verulega máli hvað varðar framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica