Fréttir
Höfuðborgarbúar fengu að njóta mikillar litasinfóníu að morgni 27. október.

Tíðarfar í október 2020

Stutt yfirlit

3.11.2020


Tíðarfar í október var hagstætt. Mánuðurinn var fremur hlýr og hægviðrasamur. Austlægar áttir voru tíðar í mánuðinum. Þurrt var á vestanverðu landinu en blautara austanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,8 stig og er það 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2 stig, 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,6 stig og 5,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 5,8 1,4 24 150 0,5
Stykkishólmur 5,6 1,7 23 175 0,6
Bolungarvík 5,1 1,7 20 123 0,7
Grímsey 4,9 1,9 16 148 0,3
Akureyri 4,2 1,2 34 140 0,2
Egilsstaðir 4,0 1,0 20 til 21 66 -0,4
Dalatangi 5,7 1,2 20 83 0,0
Teigarhorn 5,5 1,0 34 148 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,8


0,1
Stórhöfði 5,9 0,9 34 144 0,0
Hveravellir -0,2 1,1 15 til 16 56 -0,1
Árnes 4,2 0,7 50 141 -0,1

Meðalhiti og vik (°C) í október 2020

Að tiltölu var hlýjast um landið vestanvert en kaldast á Austurlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,2 stig í Bíldudal. Neikvætt hitavik var mest -0,4 stig á Fáskrúðsfirði.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,0 stig í Surtsey og á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -1,3 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur 1,1 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,9 stig á Seyðisfirði þ. 14. Mesta frost í mánuðinum mældist -14,1 stig á Setri þ. 2. Í byggð mældist mesta frostið -10,6 stig í Möðrudal þ. 21.

Úrkoma

Það var þurrt vestantil á landinu en blautara austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 42,1 mm sem er um helmingur af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 77,6 mm sem er um 30% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 38,6 mm sem er helmingi minna en meðallag áranna 1961 til 1990. Á Höfn mældist úrkoman 193,0 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10, fimm færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 14 daga sem er þremur fleiri en í meðalári.

Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn. Jörð var flekkótt einn dag á Akureyri, en alauð alla aðra daga.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 97,4 sem er 13,9 stundum fleiri en í meðallagi í október. Á Akureyri mældust 56,6 sólskinsstundir sem er 5,1 stund fleiri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,1 hPa og er það 2,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,2 hPa á Egilstaðaflugvelli þ. 17. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 971,2 hPa í Surtsey þ. 30. og á Dalatanga þ. 31.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins var 5,7 stig sem er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 36. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tíu 5,2 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 25. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur verið 13% umfram meðallag í Reykjavík, en 30% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2020 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica