Fréttir
mælir og landslag
Uppsetning jarðskjálftamælis við Háöxl nálægt Hvannadalshnjúk 24. október 2017.

Tíðarfar í október 2017

Stutt yfirlit

2.11.2017

Tíðarfar var hagstætt í október. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 6,9 stig, 2,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 6,1 stig, 3,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 og 2,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6,7 stig. 

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016 °C
Reykjavík 6,9 2,5 10 147 1,8
Stykkishólmur 6,7 2,8 8 til 9 172 1,9
Bolungarvík 6,5 3,0 8 120 2,3
Grímsey 6,0 3,0 5 144 1,8
Akureyri 6,1 3,1 8 136 2,4
Egilsstaðir 5,7 2,6 5 63 1,5
Dalatangi 7,1 2,6 4 80 1,6
Teigarhorn 6,9 2,4 6 145 1,6
Höfn í Hornaf. 6,7


1,2
Stórhöfði 7,1 2,0 12 141 1,4
Hveravellir 2,0 3,2 3 53 2,4
Árnes 5,4 1,9 16 til 17 138 1,3

Meðalhiti og vik (°C) í október 2017

Október var óvenju hlýr á öllu landinu, þó ekki eins hlýr og október í fyrra. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest í Svartárkoti, +2,6 stig. Hitavikin voru einna minnst á Suðurlandi. Kaldast var í Skaftafelli þar sem hiti var +0.8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 8,1 stig. Lægstur var hann í Sandbúðum, 0,2 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var á Grímsstöðum á Fjöllum, 3,1 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist þ. 27. á Kvískerjum í Öræfum, 21,3 stig og 22,1 stig á stöð vegagerðarinnar á svipuðum slóðum. Það er hæsti hiti ársins á þessum stöðvum og landsdægurhámark þess 27. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Dalatanga þ. 27., 15,6 stig.

Mesta frost í mánuðinum mældist -10,5 stig á Brúarjökli þ. 17. Mesta frost í byggð mældist -10,0 í Möðrudal þ. 17.

Úrkoma

Úrkoma var fremur lítil í október, sér í lagi á vestanverðu landinu sem er nokkuð óvenjulegt miðað við hlýindin. Úrkomumest var á Austfjörðum og á Suðausturlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 42,1 mm sem er tæpur helmingur af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman í október 54,1 mm sem er rétt um meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 22,7 mm. Aðeins sex sinnum áður hefur mælst eins lítil úrkoma á Stykkishólmi í október.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 12 í Reykjavík, 3 dögum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins, 3 dögum færri en í meðalári.

Alautt var var allan mánuðinn bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 82,6 sem er um meðallag í október. Á Akureyri mældust 22,5 sólskinsstundir sem er 29 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Hægviðrasamt var í október. Vindhraði á landsvísu var 0,9 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára á sjálfvirku stöðvunum. Hvassast var á landinu dagana 18. til 19. (suðaustanátt) og þ. 27. (suðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,6 hPa sem er 0,8 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1034,2 hPa á Akureyri þ. 29. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 961,8 hPa á Rauðanúpi þ. 10.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar, maí, september og október voru sérlega hlýir. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins var 6,7 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðirnir tíu eru í 5. hlýjasta sæti í Reykjavík frá upphafi mælinga. Á Akureyri var meðalhiti fyrstu tíu mánaða ársins 6,2 stig sem er 2,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Aðeins einu sinni áður hafa fyrstu tíu mánuðir ársins verði hlýrri á Akureyri en það var árið 1939. Úrkoma í Reykjavík hefur verið um 20 % umfram meðallag og 19% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2017 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica