Fréttir
Sól í hjálmaböndum 10. maí 2016.

Tíðarfar í maí 2016

Stutt yfirlit

1.6.2016

Tíðarfar telst hagstætt; þurrkur háði þó víða gróðri langt fram eftir mánuði. Í síðustu vikunni rigndi óvenjumikið á Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Hiti var ofan meðallags 1961 til 1990 en þó var að tiltölu kaldara um landið suðvestanvert heldur en í öðrum landshlutum. Þrátt fyrir þurrviðri var veður heldur þungbúið lengst af um landið sunnan- og vestanvert.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 6,6 stig, +0,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var 6,8 stig, 1,3 stig ofan meðaltals 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh. vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 6,6 0,3 67 til 68 146 -0,3
Stykkishólmur 6,2 1,2 38 171 0,4
Bolungarvík 5,6 1,6 22 119 0,9
Grímsey 4,6 1,8 19 143 1,0
Akureyri 6,8 1,3 39 135 0,9
Egilsstaðir 6,2 1,4 19 62 1,1
Dalatangi 5,0 1,7 13 78 0,9
Teigarhorn 5,6 1,1 31 144 0,4
Höfn í Hornafirði 6,8       0,2
Stórhöfði 5,8 -0,1 83 til 84 140 -0,6
Hveravellir  1,7 1,1 17 51 0,1
Árnes 6,4 0,3 62 137 -0,1

Meðalhiti og vik (°C) í maí 2016

Að tiltölu var hlýjast á útnesjum norðanlands og svo á Austurlandi, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Seyðisfirði, +1,3 stig. Kaldast að tiltölu var suðvestanlands, þar sem hiti var lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára á allstóru svæði. Mest var neikvæða vikið í Bláfjallaskála, -0,8 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita, 7,5 stig, en lægstur á Brúarjökli -0,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum, 2,2 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -13,3 stig á Brúarjökli þann 17. Mest frost í byggð mældist -7,1 stig í Svartárkoti þann 2. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 2., -6,7 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,1 stig þann 26. í Vestdal á Seyðisfirði. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 19,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann sama dag.

Úrkoma

Almennt var mánuðurinn í þurrara lagi, sérstaklega syðst á landinu, þar austan við og norður með Austfjörðum. Á þeim slóðum er mánuðurinn í hópi þurrustu maímánaða. Lengi vel var líka útlit fyrir ámóta niðurstöðu um landið vestanvert en mjög mikil úrkoma þar í síðustu vikunni rétti nokkuð úr. Á stöku stað á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi rigndi einnig mjög mikið í upphafi mánaðarins og endaði úrkoma ofan meðallags á fáeinum stöðvum á þeim slóðum.  

Úrkoman í Reykjavík mældist 28,0 mm og er það um 64 prósent meðalúrkomu 1961 til 1990 og mánuðurinn þurrasti maí frá 2012. Á Akureyri mældist úrkoman 13,3 mm og er það um 69 prósent meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 29,7 mm, eða nærri 90 prósent meðalúrkomu.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 6 í Reykjavík, 4 færri en í meðalári.  Á Akureyri voru slíkir dagar 4, einum færri en í meðalári.

Þann 27. mældist sólarhringsúrkoma á sjálfvirku stöðinni í Grundarfirði 133 mm. Þetta er meiri úrkoma en mælst hefur á sólarhring á mannaðri veðurstöð hér á landi í maímánuði, en einu sinni hefur meiri sólarhringsúrkoma mælst í maí á sjálfvirku stöðinni í Grundarfirði, 147 mm, það var 26. maí 2012.

Við Stykkishólm
Fjaran við Stykkishólm. Horft er í vesturátt hinn 12. maí 2016. Ljósmynd: Vilhjálmur Smári Þorvaldsson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 145,9, 46 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 93 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Svo fáar sólskinsstundir hafa ekki mælst í maí í Reykjavík síðan 2008. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 213,2, 39 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og 53 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,3 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,2 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára. Vindáttir voru nokkuð óráðnar en þó var eindregin norðanátt dagana 2. til 7. og eindregin sunnanátt 23. til 29. Í hvassviðri þann 26. voru stöðvavindhraðamet maímánaðar slegin á nokkrum vegagerðarstöðvum sem athugað hafa í meira en 15 ár, á Vatnaleið, Öxnadalsheiði, Mývatnsöræfum og á Mývatnsheiði.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1014,5 hPa, 2,0 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn á Reykjavíkurflugvelli þann 9., 1035,4 hPa, en lægstur 978,8 hPa á Dalatanga þann 2.

Snjór

Snjóþungt var sums staðar inn til landsins á Norðausturlandi langt fram eftir mánuði en annars var víðast hvar snjólítið eða snjólaust í byggðum. Snjórinn norðaustanlands var að mestu fyrnir vetrarins en þó gerði þar töluverða hríð snemma í mánuðinum sem nægði til að snjódýptarmet maímánaðar féllu bæði á Grímsstöðum á Fjöllum (86 cm) og í Reykjahlíð (62 cm). Alautt var allan mánuðinn bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Vorið (apríl til maí)

Tíð var fremur hagstæð lengst af. Þurrkur háði þó gróðri um hluta landsins um tíma. Hiti var yfir meðallagi; hann var miðað við 1961 til 1990 (í sviga síðustu tíu ár) +0,8 stigum yfir í Reykjavík (+0,2), +1,3 yfir á Akureyri (+0,5), +1,6 stigum yfir í Stykkishólmi (+0,6) og +0,9 stigum yfir meðallagi á Egilsstöðum (+0,3).

Í Reykjavík var úrkoma um 57 prósent meðallags áranna 1961 til 1990, sú minnsta að vori frá 2008 að telja. Í Stykkishólmi var hún um 48 prósent meðalúrkomu, sú minnsta síðan 2005, en á Akureyri var úrkoma nákvæmlega í meðallagi.

Vindhraði var undir meðallagi á landinu.

Fyrstu fimm mánuðir ársins (janúar til maí 2016)

Í Reykjavík var hiti +0,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en -0,3 undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík voru fyrstu fimm mánuðirnir í fyrra talsvert kaldari en nú. Raðast hiti þessa tíma í 32. sæti af 146 í Reykjavík. Á Akureyri var hiti nú +0,5 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990 en -0,8 undir meðallagi síðustu tíu ára og raðast í 53. sæti af 135. Fyrstu fimm mánuðir ársins hafa ekki verið kaldari á Akureyri en nú síðan 2002.

Úrkoma er um 80 prósent af meðallagi í Reykjavík en í rétt rúmu meðallagi á Akureyri. Fyrstu fimm mánuðir ársins 2010 voru ívið þurrari í Reykjavík heldur en nú.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í maí 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.

 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica