Tíðarfar í júlí 2024
Stutt yfirlit
Júlí var tiltölulega hlýr á norðanverðu landinu, en það var svalara sunnanlands. Loftþrýstingur var óvenju lágur í mánuðinum, vindhraði var yfir meðallagi og tíð var nokkuð óhagstæð miðað við árstíma. Það var óvenju blautt og þungbúið á suðvestan- og vestanverðu landinu. Á nokkrum veðurstöðvum á Vesturlandi var júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur. Það var þurrara og sólríkara á Norður- og Austurlandi.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 11,0 stig. Það er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,7 stig, 1,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 11,0 stig og 10,6 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2014-2023 °C |
Reykjavík | 11,0 | -0,7 | 73 til 75 | 154 | -0,6 |
Stykkishólmur | 11,0 | 0,3 | 41 til 42 | 179 | 0,3 |
Bolungarvík | 10,7 | 0,7 | 25 | 127 | 1,0 |
Grímsey | 9,3 | 0,9 | 16 | 151 | 0,7 |
Akureyri | 12,7 | 1,5 | 12 | 144 | 1,3 |
Egilsstaðir | 11,6 | 0,9 | 15 til 16 | 70 | 1,0 |
Dalatangi | 9,3 | 0,6 | 17 | 86 | 0,4 |
Teigarhorn | 9,7 | 0,2 | 24 | 152 | 0,0 |
Höfn í Hornaf. | 10,6 | -0,2 | |||
Stórhöfði | 10,1 | -0,3 | 77 | 148 | -0,1 |
Hveravellir | 7,9 | -0,4 | 29 | 60 | -0,3 |
Árnes | 11,4 | -0,4 | 65 til 67 | 145 | -0,4 |
Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2024
Júlí var tiltölulega hlýr á norðanverðu landinu en það var svalara sunnanlands. Að tiltölu var hlýjast á Norðausturlandi en kaldast á Suðvesturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,7 stig á Staðarhól í Aðaldal. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig á Þingvöllum.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,7 stig á Akureyri, en lægstur 5,7 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,8 stig í Seley.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 14. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Gagnheiði þ. 6. Mest frost í byggð mældist -1,6 stig í Svartárkoti þ. 8.
Úrkoma
Það var óvenju blautt á vestanverðu landinu í júlí. Á nokkrum úrkomustöðvum á Vesturlandi er júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur, t.d. á Ásgarði, Lambavatni og Hjarðarfelli.
Mikið vatnsveður gerði á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum. Úrkoman mældist langmest í Grundarfirði þessa daga. Sólarhringsúrkoman að morgni þess 14. mældist 227 mm sem er mesta úrkoma mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu.
Einnig var mjög úrkomusamt á Tröllaskaga og í Skagafirði dagana 21. og 22. júlí. Mest mældist úrkoman á Siglufirði og Ólafsfirði. Nokkrar aurskriður féllu í kjölfarið á þessu svæði.
Mánuðurinn var mjög úrkomusamur í Reykjavík. Úrkoman mældist 89,7 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman í Reykjavík hefur ekki mælst meiri í júlí síðan 1984 (júlí 2014 var þó álíka blautur og nú). Á Akureyri mældist úrkoman 24,4 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,7 mm og 61,5 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13 sem er 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 8 daga sem eru 1 fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Það var þungbúið í Reykjavík í júlí. Sólskinsstundir mældust 110,9 sem er 72,3 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 175,0 sem er 22,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suð- og suðvestlægar áttir voru tíðastar í mánuðinum. Hvassast var dagana 11. til 13. (sunnanátt), 22. (suðvestanátt) og 31. (suðaustanátt).
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1004,2 hPa og er það 5,0 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er lægsti meðalloftþrýstingur í júlí síðan 1964.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1018,1 hPa á Kirkjubæjarklaustri-Stjórnarsandi og í Skaftafelli þ. 13. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 983,3 hPa á Raufarhöfn þ. 22.
Fyrstu sjö mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 4,3 stig sem er 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins raðast í 62. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 3,5 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 61. hlýjasta sæti á lista 144 ára.
Heildarúrkoma í Reykjavík
fyrstu sjö mánuði ársins mældist 443,3 mm sem er um 95% af meðalúrkomu áranna 1991
til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna sjö 321,1 mm sem er um 20%
umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir júlí
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2024
(textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.