Fréttir

Tíðarfar í júlí 2021

Stutt yfirlit

5.8.2021


Júlí var mjög hlýr og þurr, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Meðalhiti júlímánaðar í þeim landshlutum var víða sá hæsti frá upphafi mælinga. Sólskinsstundir hafa aldrei mælst eins margar í júlímánuði á Akureyri. Á meðan var þungbúnara suðvestanlands en tiltölulega þurrt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 11,7 stig og er það 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 14,3 stig, 3,1 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig 3,1 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri. Fyrra met var frá júlí 1933 þegar mánaðarhitinn var 13,3 stig og er bætingin því upp á heilt stig. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,6 stig og 10,9 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 11,7 0,1 31 151 -0,1
Stykkishólmur 11,6 0,9 16 176 0,8
Bolungarvík 11,8 1,9 4 124 1,9
Grímsey 10,7 2,3 2 148 1,9
Akureyri 14,3 3,1 1 141 3,1
Egilsstaðir 13,5 2,8 2 67 2,9
Dalatangi 10,4 1,7 1 83 1,6
Teigarhorn 10,8 1,4 3 149 1,2
Höfn í Hornaf. 10,9


0,2
Stórhöfði 10,2 -0,2 65 144 -0,1
Hveravellir 10,3 2,1 2 57 2,1
Árnes 12,1 0,4 29 142 0,3

Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2021

Júlí var mjög hlýr, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Meðalhiti júlímánaðar í þeim landshlutum var víða sá hæsti frá upphafi mælinga. Á landsvísu var mánuðurinn sá næsthlýjasti, hlýrra var í júlí 1933. Hiti fór yfir 20 stig einhversstaðar á landinu, alla daga mánaðarins nema einn. Að tiltölu var hlýjast á norðaustanverðu hálendinu. Þar fóru hitavik miðað við síðustu tíu ár vel yfir fjögur stig sem þykir mjög mikið í sumarmánuði. Jákvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár voru mest 4,7 stig við Upptyppinga, Biskupsháls og á Möðrudalsöræfum. Að tiltölu var kaldast suðvestanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,7 stig við Garðskagavita.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á mönnuðu stöðinni á Akureyri 14,3 stig. Meðalhitinn fór einnig yfir 14 stig á Torfum í Eyjafirði (14,3 stig), Grímsstöðum á Fjöllum (14,2 stig) og á Hallormsstað (14,1 stig). Meðalhiti eins mánaðar á Íslandi hefur aldrei áður farið yfir 14 stig á nokkurri stöð með beinum mælingum (eldra met var 13,7 stig og er frá Egilsstöðum júlí 1955, Írafoss júlí 1991 og Hjarðarlandi júlí 2019).

Meðalhámarkshiti mánaðarins var einnig hærri en áður, 20,5 stig á Hallormsstað. Eldra met var 18,7 stig (Hjarðarland í júlí 2008).

Meðalhiti mánaðarins var lægstur 7,4 stig á Þverfjalli. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 8,4 stig á Seley við Reyðarfjörð.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,5 stig á mönnuðu stöðinni á Akureyri þ. 20. Hæsti hiti mánaðarins á sjálfvirkri stöð mældist 27,3 stig á Akureyri-Krossanesbraut þ. 20.

Lægsti hiti mánaðarins mældist 0,0 stig á Grímsstöðum í Fjöllum þ. 31.

Úrkoma

Júlí var þurr um mest allt land og úrkoma yfirleitt um þriðjungur til helmingur af meðalúrkomu.

Úrkoma í Reykjavík mældist 26,5 mm sem er um 50% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 12,0 mm sem er um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 17,2 mm og 35,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 7, þremur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 4 daga mánaðarins, þremur færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Mjög sólríkt var á norðaustanverðu landinu í júlí, á meðan þungbúið var suðvestanlands.

Sólskinsstundir á Akureyri mældust 243,9 sem er 91,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aldrei mælst eins margar á Akureyri í júlímánuði. Fyrra sólskinsstundarmet júlímánaðar á Akureyri var frá 1929, 238,6 stundir.

Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 121,0, sem er 62,2 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,1 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suð- og vestlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,6 hPa og er það 2,4 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1023,7 hPa í Grundarfirði þ. 2. Lægstur mældist þrýstingurinn 992,2 hPa á Gufuskálum þ. 16.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 4,9 stig sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 37. til 38. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,4 stig. Það er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 20. sæti á lista 141 ára.

Það hefur verið þurrt í Reykjavík það sem af er ári, úrkoman hefur verið um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman verið um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.


Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica