Fréttir

Tíðarfar í janúar 2022

Stutt yfirlit

3.2.2022


Janúar var umhleypingasamur. Hvassviðri voru tíð og töluvert var um samgöngutruflanir og foktjón. Sjór gekk á land og olli tjóni bæði á Austur- og Suðvesturlandi í mánuðinum. Suðvestanáttir voru algengar og úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi. Einkar hlýtt var á Norður- og Austurlandi 20. og 21. dag mánaðarins.

Hiti

Meðalhiti janúarmánaðar var 1,2 stig í Reykjavík. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi bæði tímabilsins 1991 til 2020 og undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 0,3 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,9 stigum yfir meðallagi 2012 til 2021. Meðalhitinn var 0,2 stig í Stykkishólmi og 1,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik fleiri stöðva má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 1,2 0,5 31 til 32 152 0,5
Stykkishólmur 0,2 0,1 45 177 0,0
Bolungarvík -0,5 -0,4 60 125 -0,6
Grímsey 0,1 -0,4 52 149 -0,8
Akureyri 0,3 0,8 26 til 27 142 0,9
Egilsstaðir -0,1 0,9 16 68 0,5
Dalatangi 1,9 0,2 31 84 -0,1
Teigarhorn 1,2 0,2 46 150 -0,2
Höfn í Hornaf. 1,3


-0,2
Stórhöfði 2,4 0,1 39 146 0,1
Hveravellir -4,9 0,1 21 58 0,1
Árnes 0,4 0,6 34 143 0,4

Meðalhiti og vik (°C) í janúar 2022.

Að tiltölu var janúar kaldari en að meðallagi undanfarin tíu ár á Vestfjörðum og við Austurströndina, en hlýrri inn til landsins og á Norðveststur- og Suðvesturlandi. Jákvætt hitavik var mest 1,3 stig í Þykkvabæ en neikvætt hitavik var mest -1,1 stig á Raufarhöfn.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2012-2021)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,5 stig. Lægstur var meðalhitinn -6,3 stig í Sandbúðum og á Þverfjalli. Lægsti meðalhiti í byggð var -3,6 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.

Hæstur mældist hitinn í mánuðinum 17,6 stig í Bakkagerði þ. 21. Mesta frost mánaðarins mældist -22,7 stig á Brú á Jökuldal þ. 5.

Úrkoma

Mánaðarúrkoman mældist 142,0 mm í Reykjavík, en það er 63% yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðarins 39,6 mm sem eru 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 124,5 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 23, átta fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru dagarnir 8, eða þremur færri en í meðalári.

Snjór

Janúar var snjóléttur víða um land. Í Reykjavík var jörð alhvít 5 morgna mánaðarins, sjö færri en í meðalári. Á Akureyri voru alhvítir morgnar 9, 13 færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 11,5 í Reykjavík eða 11,1 klukkustund færri en í meðalári. Á Akureyri mældust 6,8 sólskinsstundir í mánuðinum, 0,3 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Janúar var umhleypingasamur. Nokkuð var um samgöngutruflanir og foktjón. Sjór gekk á land og olli tjóni, t.a.m. á Borgarfirði eystra þ. 3. og í Grindavík þ. 6.

Vindur á landsvísu var 0,8 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suðvestlægar áttir voru tíðar í mánuðinum. Hvassast var þ. 1. (norðaustanátt), þ. 6. (suðaustanátt), dagana 21. til 22. (suðvestanátt) og þ. 25. (suðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1000,9 hPa. Það er 3,6 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1033,8 hPa í Árnesi og á Hjarðarlandi þ. 19. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 954,5 hPa á Gufuskálum þ. 6.

Skjöl fyrir janúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2022
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica