Fréttir
Blíða yfir Bessastöðum á árinu 2022. Tignarlegt ský myndaðist yfir gosstöðvunum.

Tíðarfar ársins 2022

Yfirlit

1.2.2023


Veðurfar ársins 2022 var mjög breytilegt, en ársmeðaltöl hita, vinds og loftþrýstings enduðu mikið til í meðallagi. Ársmeðalhiti í byggðum landsins var jafn meðalhita áranna 1991 til 2020 en 0,3 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýjast við suðurströndina. Ársúrkoma var víðast hvar rétt undir eða yfir meðallagi. Þó var úrkomusamt á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á Norðausturlandi. Loftþrýstingur og vindhraði voru í meðallagi þegar litið er á árið í heild.

Það var illviðrasamt á landinu frá upphafi árs og fram í miðjan mars. Janúar var umhleypingasamur en snjóléttur. Í febrúar var tiltölulega kalt og snjóþungt á landinu og riðluðust samgöngur margoft bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla. Febrúar var með snjóþyngri mánuðum í Reykjavík um árabil. Fram eftir marsmánuði var umhleypinga- og illviðrasamt. Mars var óvenjuúrkomusamur, þá sérstaklega á sunnan- og vestanverðu landinu og mældist úrkoman þar sums staðar sú mesta sem vitað er um í marsmánuði.

Vorið var hlýtt og hægviðrasamt og tíð almennt góð.

Sumarið (júní til ágúst) var tiltölulega kalt og mjög hlýir dagar voru fáir. September var þó hlýr og hægviðrasamur um land allt.

Árið endaði svo á tveimur óvenjulegum, en afar ólíkum mánuðum.

Nóvember var mjög hlýr. Þetta var hlýjasti nóvembermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga. Hlýjar austlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn, með óvenjumikilli vætutíð á Austurlandi. Að tiltölu var hlýjast uppi á hálendi, og landið var nánast alautt allan mánuðinn.

Desember var aftur á móti sérlega kaldur. Þetta var kaldasti desembermánuður á landsvísu síðan 1973. Í Reykjavík hefur ekki verið eins kalt í desembermánuði í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Þrýstingur var sérlega hár á landinu í desember, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Desemberúrkoman var víða sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.

Hiti

Meðalhiti ársins í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,5 stig sem er jafnt meðalhita áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,6 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn jafn meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti °C vik 1991-2020 röð af vik 2012-2021
Reykjavík 5,1 -0,1 35 152 -0,3
Hvanneyri 4,0 # 21 25 -0,6
Bláfeldur 5,0 # 13 25 -0,1
Stykkishólmur 4,5 0 27 177 -0,3
Bolungarvík 3,9 0,2 27 125 -0,2
Litla-Ávík 3,6 # 19 27 -0,4
Blönduós 3,5 # 17 19 -0,4
Grímsey 3,4 -0,1 32 149 -0,6
Akureyri 4,3 0,1 29 142 -0,3
Grímsstaðir 1,4 0,0 36 til 37 116 -0,4
Miðfjarðarnes 3,2 # 13 23 -0,4
Skjaldþingsstaðir 3,8 # 13 29 -0,3
Egilsstaðir 4,0 0,1 19 til 20 68 -0,2
Dalatangi 4,5 0,1 24 84 -0,3
Teigarhorn 4,7 0,1 23 149 -0,2
Höfn í Hornaf. 5,4 #

-0,1
Fagurhólsmýri 5,6 0,3 18 til 19 120 0,1
Vatnsskarðshólar 6,2 0,5 8 til 9 83 0,3
Stórhöfði 5,6 0,2 24 til 25 146 0,1
Árnes 4,5 0,1 26 143 -0,1
Hjarðarland 4,2 0,1 15 til 16 33 -0,1
Hveravellir 0,0 0,0 18 58 -0,3
Keflavíkurflugvöllur 5,2 0,0 22 70 -0,1

Tafla 1: Meðalhiti og vik ársins 2022 á nokkrum stöðum

Ársmeðalhitinn var hæstur 6,8 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,5 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 1,1 stig.

Ársmeðalhitinn var rétt um meðallagi áranna 1991 til 2020 á mestöllu landinu. Á mynd 1 má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár, en hitinn var undir meðallagi síðustu tíu ára á langflestum stöðum nema við suðurströndina. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,1 stig á Vatnskarðshólum og Ölkelduhálsi, en neikvætt hitavik var mest -0,7 stig á Raufarhöfn.


Mynd 1: Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2022 miðað við síðustu tíu ár.

Hæsti hiti ársins mældist 25,0 stig á Mánárbakka þ. 30. ágúst. Mest frost ársins mældist -27,4 stig við Kolku þ. 30.desember. Mest frost í byggð mældist -27,1 stig í Möðrudal þ. 24. desember.

Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 17,9 stig þ. 10. júní en mesta frostið mældist -15,2 stig þ. 31. desember. Svo mikið frost hefur ekki mælst í Reykjavík síðan í janúar 1981. Af öllum stöðvum höfuðborgarsvæðisins mældist hitinn hæstur 19,3 stig í Korpu þ. 29. júní en mesta frostið -25,3 stig í Víðidal þ. 30. desember. Á Akureyri mældist hæsti hitinn á árinu 23,3 stig þ. 4. september en mesta frostið -15,6 stig þ. 24. desember.


Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2022, ásamt landsmeðalhita síðustu 10 ára (2012-2021). Hitasveiflur eru alltaf meiri yfir vetrarmánuðina. Janúar var umhleypingasamur með töluverðum hitasveiflum, en febrúar var kaldur. Mars og apríl voru tiltölulega hlýir ef frá eru taldir kaldir dagar frá 4. til 12. apríl. Maí var hlýr á sunnanverðu landinu en kaldari fyrir norðan. Sumarið (júní til ágúst) var tiltölulega kalt og mjög hlýir dagar voru fáir. Nokkuð hlýtt var í september og fram í byrjun október. Nóvember var óvenjuhlýr, sá hlýjasti á landsvísu frá upphafi mælinga. Við tók óvenjulöng og samfelld kuldatíð í desember.

Síðustu tveir mánuðir ársins voru mjög ólíkir í hitafari. Sérlega hlýtt var í nóvember en óvenjulöng og samfelld kuldatíð einkenndi desembermánuð. Munur á milli meðalhita mánaðanna tveggja var allvíða um og yfir 10 stig.

Nóvember var óvenjuhlýr á landinu öllu. Á landsvísu var nóvembermánuður sá hlýjasti frá upphafi mælinga. Mánuðurinn var með hlýjustu nóvembermánuðum á allmörgum veðurstöðvum, t.a.m. sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Grímsey, á Teigarhorni og á Hveravöllum, sá næsthlýjasti í Stykkishólmi, Bolungarvík og Egilsstöðum og sá þriðji hlýjasti í Reykjavík og á Akureyri. Dagarnir 13. og 30. nóvember voru sérlega hlýir og þá voru slegin ný mánaðarhámarkshitamet á nokkrum veðurstöðvum.

Desember var aftur á móti óvenjulega kaldur. Þetta var kaldasti desembermánuður á landinu síðan 1973. Mánuðurinn var áttundi kaldasti desmbermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga. Í Reykjavík hefur ekki verið eins kalt í desembermánuði í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Kaldast var þ. 30. desember og þá voru slegin ný mánaðarlágmarkshitamet á allmörgum stöðvum.


Mynd 3: Hiti var yfir meðallagi í janúar í Reykjavík og á Akureyri, en febrúar var kaldur. Mars, apríl og maí voru hlýir í Reykjavík, en sumarmánuðirnir júní til ágúst fremur svalir. Hiti var rétt um meðallag á Akureyri í maí, júní og júlí en undir meðallagi í ágúst og október. September var tiltölulega hlýr á báðum stöðum. Nóvember var óvenjulega hlýr, sá þriðji hlýjasti frá upphafi mælinga bæði í Reykjavík og á Akureyri. Desember var sérlega kaldur og hiti var tæpum fimm stigum undir meðallagi á báðum stöðum. Ekki hefur verið kaldara í Reykjavík í rúm 100 ár.

Úrkoma

Árið var óvenjublautt á höfuðborgarsvæðinu. Mars var t.a.m. úrkomusamasti marsmánuður sem vitað er um í Reykjavík, og í lok nóvember stefndi árið í að verða eitt það úrkomusamasta þar frá upphafi mælinga. En desember var svo óvenjulega þurr og árið endaði sem 8. blautasta ár í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1921.

Ársúrkoma er einnig vel yfir meðallagi sums staðar á Norðausturlandi, t.d. við Sauðanesvita, á Grímsstöðum á Fjöllum og Miðfjarðarnesi. Ársúrkoman hefur aldrei mælst meiri á Grímsstöðum á Fjöllum, en þar hefur úrkoma verið mæld samfellt frá árinu 1936.

Mars var óvenjuúrkomusamur, þá sérstaklega á Suður-, Vestur- og Norðvesturlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í marsmánuði. Mánuðurinn var t.d. sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga í Reykjavík, á Augastöðum, Írafossi, Litlu-Ávík, Hjarðarlandi, Snæbýli og Skaftafelli.

Nóvember mjög úrkomusamur á Austurlandi. Úrkoma á Austfjörðum mældist sums staðar vel yfir 600 mm í mánuðinum. Álíka úrkomusamt var á Austfjörðum í nóvember 2014, en árið 2002 mældist töluvert meiri úrkoma í nóvember.

Desember var óvenju þurr á landinu öllu og var desemberúrkoman víða sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.


stöð ársúr hlutf9120 % hlutf1221 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 1062,4 121 116 46,4 221 156 59 286
Stykkishólmur 794,1 108 107 29,8 211 136 72 283
Hólar í Dýrafirði 940,9 # 79 62,5 236 132 80 188
Litla-Ávík 874,1 # 100 30,2 245 149 100 210
Sauðanesviti 1252,5 142 133 57,9 234 153 96 229
Akureyri 600,9 105 92 33,2 203 115 68 255
Grímsstaðir 551,4 141 123 23,9 234 124 140 160
Miðfjarðarnes 765,4 # 124 60,2 214 104 4 271
Skjaldþingsstaðir 1199,6 # 93 43,4 226 131 47 246
Dalatangi 1610,3 97 94 55,1 264 161 76 268
Höfn í Hornafirði 1642,9 # 105 52,2 199 163 25 307
Vatnsskarðshólar 1639,8 95 90 37,2 251 178 33 290
Hjarðarland 1377,6 103 104 47,5 194 164 68 279
Keflavíkurflugvöllur 1081,6 98 99 41,9 226 157 47 293

Tafla 2: Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1991 til 2020. (3) Hlutfall miðað við árin 2012 til 2021 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Ársúrkoma í Reykjavík mældist 1062,4 mm sem er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en um 15% umfram meðalúrkomu síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist ársúrkoman 600,9 mm, 5% umfram meðallag áranna 1961 til 2020, en um 90% af heildarúrkomu síðustu tíu ára.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 156, sjö fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru slíkir dagar 115, þrettán fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins mældist 161,4 mm á sjálfvirkri stöð á Kvískerjum þ. 30. nóvember.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 46,4 mm þ. 3. apríl. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 33,2 mm þ. 11. nóvember.


Mynd 4: Árið var óvenju blautt í Reykjavík, sérstaklega fyrri hlutinn og lengi stefndi árið í að verða eitt það úrkomusamasta þar frá upphafi mælinga. Þar var úrkoma yfir meðallagi í janúar og febrúar, mars, apríl, júní, júlí og september. Í mars mældist úrkoman þrefalt meiri en meðalári og sú mesta sem mælst hefur í Reykjavík í marsmánuði. Úrkoma var undir meðallagi í maí, ágúst, nóvember og langt undir meðalagi í desember. Á Akureyri voru febrúar og maí óvenjulega úrkomusamir. Úrkoma var einnig yfir meðallagi í júlí og október. Þurrt var á Akureyri í janúar, apríl, ágúst, september og desember. Úrkoma var í meðallagi aðra mánuði ársins.

Snjór

Alhvítir dagar ársins í Reykjavík voru 59 sem eru 4 fleiri en að meðaltali áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 68, sem er 27 dögum færri en í meðalári. Það var óvenjusnjólétt á Akureyri í janúar, og nóvember var alveg alauður sem hefur ekki gerst áratugum saman.

Janúar var snjóléttur um land allt en í febrúar og fram í mars var mjög snjóþungt á landinu. Þá riðluðust  samgöngur margoft bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla. Febrúar var með snjóþyngri mánuðum í Reykjavík um árabil.

Snjór kom óvenju seint um haustið 2022. Nóvember var óvenjulega snjóléttur á hálendinu og að mestu snjólaus á láglendi, vegna mikilla hlýinda. Fyrsti alhvíti dagurinn á Akureyri var skráður þ. 11. desember, og er það í fyrsta sinn frá upphafi athugana sem ekki verður alhvítt þar fyrr en í desember. Í Reykjavík var fyrsti alhvíti dagurinn þ. 17. desember. Þetta er í áttunda sinn síðustu 100 árin að ekki verður alhvítt í Reykjavík fyrr en í desember. Eftir að snjórinn kom hélst hann út árið og olli talsverðum samgöngutruflunum.


Mynd 5: Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi 1991 til 2020 í Reykjavík og á Akureyri. Janúar var snjóléttur bæði í Reykjavík og á Akureyri. Febrúar var snjóþungur á báðum stöðum, þetta var með snjóþyngri mánuðum í Reykjavík um árabil. Í mars voru alhvítir dagar 5 fleiri en í meðalári í Reykjavík, en 5 færri en í meðalári á Akureyri. Október og nóvember voru alauðir í Reyjavík og á Akureyri, en þónokkur snjór var í desember.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1421,3, sem er 53 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 80 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Óvenju sólríkt var í Reykjavík í desember og hafa sólskinsstundirnar aldrei mælst fleiri þar í desembermánuði frá upphafi mælinga.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1191,2 eða 140 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 90 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára. September og október voru mjög sólríkir á Akureyri. Aðeins einu sinni hafa sólskinsstundirnar mælst fleiri í september frá upphafi mælinga þar og október hefur ekki verið eins sólríkur á Akureyri síðan 1986.


Mynd 6: Sólskinsstundir voru í meðallagi í Reykjavík og á Akureyri í janúar og febrúar. Mars og apríl voru þungbúnir í Reykjavík en sólríkir á Akureyri. Maí var mjög sólríkur í Reykjavík. Júní var þungbúinn á Akureyri og júlí þungbúinn í Reykjavík. Ágúst, september og október voru sólríkir bæði í Reykjavík og á Akureyri (september og október sérlega sólríkir á Akureyri). Desember var óvenju sólríkur í Reykjavík og hafa sólskinsstundir aldrei mælst eins margar þar í desembermánuði.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,0 hPa sem er rétt undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalloftþrýstingur var óvenjulega hár í desember. Aðeins einu sinni hefur þrýstingur mælst eins hár í Reykjavík í desember.

Hæsti loftþrýstingur ársins á landinu mældist í 1046,9 hPa í Víðidal í Reykjavík þ. 6. desember. Lægsti loftþrýstingur árins mældist 945,5 hPa á Seltjarnarnesi þ. 22. febrúar.


Mynd 7: Þrýstingur í Reykjavík var yfir meðallagi í janúar, apríl, september og langt yfir meðallagi í desember. Mánaðarvikin voru neikvæð í febrúar, maí, júní, október og nóvember.

Vindhraði og vindáttir

Meðalvindhraði á landinu var 0,1 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Það var illviðrasamt á landinu frá janúar og fram í miðjan mars. Samgöngur riðluðust margoft bæði vegna illviðra og snjóþyngsla. Nokkur slæm óveður gengu yfir landið og ollu töluverðu tjóni víða um land, þau verstu þ. 7. febrúar og dagana 21. til 22. febrúar.

Vorið var hægviðrasamt.

Seinni hluti ársins var tiltölulega hægviðrasamur og var vindhraði undir meðallagi frá september og út árið.

Slæmt óveður gekk yfir landið dagana 24. og 25. september. Veðrið var í flokki þeirra verri í septembermánuði. Mjög hvasst  var á Norðuaustur- og Austurlandi og olli hvassviðrið talsverðum usla þar. Mikið foktjón varð, sérstaklega á Austfjörðum. Auk þess voru töluverðar samgöngutruflanir og rafmagnsleysi í þessum landshlutum. Sjór gekk á land á Akureyri og olli miklu tjóni.Mynd 8: Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi í janúar, febrúar, mars og ágúst. Aðra mánuði ársins var vindur undir eða í meðallagi. Apríl og september voru sérlega hægviðrasamir.Mynd 9: Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2002-2021). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Suðvestlægar áttir voru ríkjandi í janúar en norðaustlægar í febrúar. Sunnanáttir voru ríkjandi í mars. Vestlægar áttir voru ríkjandi frá júní til október. Austlægar áttir voru allsráðandi í nóvember en í desember voru norðlægar og norðaustlægar áttir ríkjandi allan mánuðinn.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Janúar var umhleypingasamur. Hvassviðri voru tíð og töluvert var um samgöngutruflanir og foktjón. Sjór gekk á land og olli tjóni bæði á Austur- og Suðvesturlandi í mánuðinum. Suðvestanáttir voru algengar og úrkomusamt var á Suður- og Vesturlandi. Einkar hlýtt var á Norður- og Austurlandi 20. og 21. dag mánaðarins.

Febrúar

Febrúar var kaldur, snjóþungur og óvenju illviðrasamur um land allt. Nokkur slæm óveður gengu yfir landið, þau verstu þ. 7. og aftur dagana 21. til 22. og ollu töluverðu tjóni. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla. Mánuðurinn var með snjóþyngri mánuðum í Reykavík um árabil.

Mars

Mars var hlýr um mestallt land. Það var óvenju úrkomusamt á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi og mældist úrkoman þar víða með því mesta sem vitað er um í mars. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Það var umhleypinga- og illviðrasamt fram eftir mánuðinum. Víða myndaðist mikill vatnselgur í kjölfar leysinga eftir kaldar og snjóþungar vikur.

Apríl

Tíðarfar var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr um allt land. Ekki hefur verið jafn hægviðrasamt í apríl síðan árið 1989.

Maí

Maímánuður var hægviðrasamur og að tiltölu hlýr á sunnanverðu landinu en kaldur á því norðanverðu. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Á Akureyri var úrkomusamt þennan mánuðinn en í Reykjavík var hlýtt og sólríkt.

Júní

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í júní, vindur var nærri meðallagi og það var hlýtt fram eftir mánuðinum. Það var þó óvenju kalt á landinu dagana 23. til 27., þá sérstaklega á norðurhluta landsins. Þá daga var hiti vel undir meðallagi og frost mældist víða í byggð.

Júlí

Júlí var fremur kaldur um land allt, miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Að tiltölu var hlýjast á Suðausturlandi og á Ströndum, en kaldast á Norðausturlandi og við Faxaflóa. Úrkoma var yfir meðallagi víðast hvar. Vestanáttir voru óvenjutíðar í mánuðinum.

Ágúst

Ágústmánuður var að tiltölu kaldur um allt land. Þó voru hlýindi um norðaustanvert landið undir lok mánaðar og hæsti hiti sumarsins mældist á Mánárbakka þ.30. Fremur sjaldgæft er að hæsti hiti ársins mælist svo síðla árs. Mánuðurinn var almennt þurrari og sólríkari en í meðalári bæði í Reykjavík og á Akureyri.

September

September var hægviðrasamur og hlýr um nánast allt land. Á Akureyri var mánuðurinn bæði þurr og sólríkur, en aðeins einu sinni hafa mælst fleiri sólskinsstundir í september á Akureyri. Mjög slæmt óveður gekk yfir landið dagana 24. og 25., í flokki þeirra verri í septembermánuði. Veðrið var verst á Norðaustur- og Austurlandi og olli talsverðum usla þar. Mikið foktjón varð, sérstaklega á Austfjörðum. Auk þess voru töluverðar samgöngutruflanir og rafmagnsleysi í þessum landshlutum. Sjór gekk á land á Akureyri og olli miklu tjóni.

Október

Október var tiltölulega kaldur um mest allt land, þó var hlýtt í byrjun og lok mánaðar. Fyrri hluti mánaðarins var úrkomusamur, sérstaklega á norðan- og austanverðu landinu. Töluverð úrkoma féll á norðaustanverðu landinu í óveðri sem gekk yfir landið þ. 9. og þar snjóaði víða í byggð. Seinni hluti mánaðarins var hægviðrasamur og tíð almennt góð.


Nóvember

Mánuðurinn var hlýr um allt land og víða á meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Á landsvísu var meðalhitinn sá hæsti sem mælst hefur í nóvember. Mjög úrkomusamt var á Austurlandi.

Desember

Desember var óvenjulega kaldur. Þetta var kaldasti desembermánuður á landinu síðan 1973. Í Reykjavík hefur desembermánuður ekki verið eins kaldur í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Það var þurrt um mest allt land, og víða mældist desemberúrkoman sú minnsta sem mælst hefur í áratugi. Snjór og hvassviðri ollu talsverðum samgöngutruflunum seinni hluta mánaðarins. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2022 (textaskjal)


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica