Tíðarfar ársins 2020
Yfirlit
Árið 2020 var illviðrasamt. Meðalvindhraði var óvenju hár og óveðursdagar margir.
Ársmeðalhiti var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðaltali síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýrra á austan- og norðaustanverðu landinu en kaldara suðvestan- og vestanlands.
Árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands. Ársúrkoman á Akureyri er sú mesta sem mælst hefur á Akureyri frá upphafi mælinga.
Tíð var óhagstæð og illviðrasöm í byrjun árs og að mestu leyti fram að páskum. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis. Snjóþungt var norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14. janúar. Mikið austanveður gekk yfir landið þ. 14. febrúar og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára.
Maí og júní voru hagstæðir. En júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Framan af ágúst rigndi mjög um landið sunnan- og vestanvert en hlý og hagstæð tíð var þá norðaustanlands. September var fremur svalur en október hlýr og hægviðrasamur.
Mjög snjólétt var á landinu í nóvember og desember miðað við árstíma. Illviðri voru tíð en samgöngur röskuðust þó lítið vegna snjóleysis. Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,5 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var ársmeðalhitinn 3,9 stig, 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,4 stig, 0,5 stigum yfir meðallagi. Á landsvísu var hitinn 0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
Meðalhiti og vik ársins 2020 á nokkrum stöðum
stöð | hiti °C | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2010-2019 |
Reykjavík | 5,1 | 0,7 | 33 | 150 | -0,4 |
Hvanneyri | 4,3 | # | 16 | 23 | -0,4 |
Bláfeldur | 4,7 | # | 16 | 23 | -0,5 |
Stykkishólmur | 4,5 | 1,0 | 26 til 27 | 175 | -0,4 |
Bolungarvík | 3,8 | 0,9 | 32 | 123 | -0,4 |
Litla-Ávík | 3,9 | # | 12 | 25 | -0,2 |
Blönduós | 3,7 | # | 10 | 17 | -0,2 |
Grímsey | 3,8 | 1,4 | 15 | 147 | -0,3 |
Akureyri | 4,3 | 1,1 | 22 til 23 | 140 | -0,1 |
Grímsstaðir | 1,5 | 1,1 | 29 til 30 | 114 | -0,2 |
Miðfjarðarnes | 3,4 | # | 8 | 21 | -0,1 |
Skjaldþingsstaðir | 3,9 | # | 10 | 26 | -0,2 |
Egilsstaðir | 3,9 | 1,0 | 20 | 66 | -0,2 |
Dalatangi | 4,8 | 1,3 | 10 til 11 | 83 | 0,0 |
Teigarhorn | 4,8 | 1,1 | 18 til 20 | 148 | -0,1 |
Höfn í Hornaf. | 5,3 | # | -0,2 | ||
Fagurhólsmýri | 5,3 | 0,7 | 34 | 118 | -0,4 |
Vatnsskarðshólar | 5,8 | 0,7 | 26 | 81 | -0,2 |
Stórhöfði | 5,4 | 0,5 | 41 til 42 | 144 | -0,3 |
Árnes | 4,2 | 0,6 | 41 | 141 | -0,5 |
Hjarðarland | 3,9 | # | 21 | 30 | -0,6 |
Hveravellir | -0,2 | 0,9 | 25 | 56 | -0,5 |
Eyrarbakki | 4,8 | 0,8 | 34 | 128 | -0,3 |
Keflavíkurflugvöllur | 4,9 | 0,5 | 32 | 68 | -0,5 |
Ársmeðalhitinn var hæstur 6,3 stig í Surtsey og á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,7 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 1,1 stig.
Ársmeðalhitinn var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu en undir meðaltali síðustu tíu ára. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Að tiltölu var hlýrra á austan- og norðaustanverðu landinu en að tiltölu kaldara suðvestan- og vestanlands. Meðalhitinn í Papey var jafn meðaltali síðustu tíu ára, annars staðar voru hitavikin neikvæð. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,9 á Garðskagavita.
Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2020 miðað við síðustu tíu ár.
Hæsti hiti ársins mældist 26,3 stig á Neskaupsstað þ. 13. ágúst. Mesta frost ársins mældist -28,3 stig á Setri þ. 7. mars. Mesta frost ársins í byggð mældist -28,1 stig við Mývatn þ. 13. febrúar.
Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 21,4 stig þ. 21.júní og aftur þ. 29. júní. Mesta frost ársins í Reykjavík mældist -10,0 stig þ. 19. nóvember. Þegar allar stöðvar höfuðborgarsvæðisins eru skoðaðar þá mældist hæsti hiti ársins 22,6 stig í Geldinganesi þ. 29.júní en mesta frostið -20,5 stig í Víðidal þ. 3. janúar. Á Akureyri mældist hæsti hitinn á árinu 23,5 stig þ. 11. ágúst en mesta frostið -15,6 stig þ. 6. desember.
Í Reykjavík var hiti ofan meðallags 1961 til 1990 í öllum mánuðum ársins nema í febrúar og mars. Júlí og september voru einnig fremur svalir í Reykjavík miðað við síðustu ár þó hiti hafi verið lítillega yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var hiti ofan meðallags 1961 til 1990 í öllum mánuðum ársins nema í febrúar og júlí.
Úrkoma
Árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Ársúrkoman á Akureyri er sú mesta sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga.
Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í þeim almanaksmánuði. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Mest var úrkoman á Seyðisfirði þar sem heildarúrkoma þessara 5 daga, mældist 577,5 mm. Það er mesta úrkoma sem mælst hefur á fimm dögum á Íslandi. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18. desember.
stöð | ársúr | hlut f7100 % | Hlutf 1019 % | mest d. | úrkd | Úrkd>=1 | alhv | alautt |
Reykjavík | 871,6 | 106 | 97 | 25,2 | 231 | 162 | 44 | 263 |
Stykkishólmur | 771,5 | 109 | 105 | 30,2 | 220 | 131 | 38 | 290 |
Brjánslækur | 1293,6 | # | 122 | 69,0 | 186 | 144 | 84 | 212 |
Litla-Ávík | 1033,2 | # | 119 | 35,6 | 250 | 164 | 111 | 209 |
Litla-Hlíð | 472,2 | # | 123 | 19,1 | 204 | 111 | 116 | 205 |
Sauðanesviti | 1028,7 | # | 114 | 28,8 | 251 | 154 | 62 | 211 |
Akureyri | 762,1 | 147 | 121 | 50,2 | 212 | 132 | 107 | 219 |
Grímsstaðir | 482,4 | 137 | 111 | 33,7 | 204 | 105 | 154 | 162 |
Skjaldþingsstaðir | 1522,3 | # | 119 | 83,6 | 196 | 133 | 49 | 243 |
Dalatangi | 1470,6 | 98 | 82 | 66,4 | 238 | 150 | 73 | 254 |
Höfn í Hornafirði | 1625,2 | 121 | 104 | 92,9 | 189 | 134 | 26 | 303 |
Vatnsskarðshólar | 1832,6 | 113 | 101 | 51,6 | 256 | 185 | 49 | 277 |
Hjarðarland | 1395,2 | # | 111 | 70,0 | 194 | 164 | 60 | 255 |
Keflavíkurflugvöllur | 1045,2 | 94 | 99 | 27,8 | 248 | 162 | 46 | 264 |
Úrkoma í Reykjavík mældist 871,6 mm, 6% umfram meðallag áranna 1971 til 2000, en 97% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist ársúrkoman 762,1 mm, 47% umfram meðallag áranna 1971 til 2000, en 21% yfir meðallagi síðustu tíu ára. Árið er það úrkomumesta þar frá upphafi mælinga, 1928. Þar munar mest um mjög úrkomusaman desembermánuð þegar úrkoman mældist fjórfalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri í Reykjavík voru 162, 14 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar 132, 29 fleiri en í meðalári og hafa aðeins einu sinni verið fleiri (árið 2014).
Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 178,2 mm á Seyðisfirði þ. 15. desember. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 159,5 mm á Kálfafelli þ. 10. ágúst.
Mest mældist
sólarhringsúrkoman í Reykjavík 25,2 mm þ. 26. nóvember. Á
Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 50,2 mm þ. 3. desember.
Það er mesta sólarhringsúrkoma sem hefur verið mæld á Akureyri
í desember.
Úrkomuvik árið 2020 miðað við síðustu tíu ár (hlutfall miðað við árin 2010 til 2019).
Í Reykjavík var úrkoma yfir meðallagi í janúar, apríl, maí, ágúst og september en þurrt var í febrúar, júlí, október og desember. Á Akureyri var úrkoma yfir meðallagi fyrstu 4 mánuði ársins. Maí var mjög þurr á Akureyri en úrkoma yfir sumarmánuðina var í meðallagi. Úrkoma var yfir meðallagi í september og október og í desember mældist úrkoman fjórfalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga.
Snjór
Veturinn 2019 til 2020 var mjög snjóþungur norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14. janúar. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis.
Haustið var með snjóléttasta móti og desember var óvenju snjóléttur um land allt.
Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi í Reykjavík og á Akureyri. Snjóþungt var á Akureyri í janúar til mars og fjöldi alhvítra daga var yfir meðallagi. Í mars var alhvítt alla daga á Akureyri nema þann síðasta. Mjög snjólétt hefur verið bæði á Akureyri og Reykjavík í haust og í desember.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 44 sem er 20 færri en meðaltal áranna 1971 til 2000. Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 107, einum færri en að meðaltali 1971 til 2000. Snjóþungt var á Akureyri í janúar til mars. En það var snjólétt um haustið og í desember á Akureyri og í Reykjavík.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1313,7 sem er 45 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en 73 færri en að meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1278,8 eða 234 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 en 227 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.
Í Reykjavík var sólríkt í júlí, en sólskinsstundafjöldi var nálægt meðallagi aðra mánuði. Sólskinsstundafjöldi á Akureyri var vel yfir meðallagi frá mars til ágúst. Sólarlítið var á Akureyri í febrúar.
Loftþrýstingur
Meðalþrýstingur í Reykjavík var 1002,5 hPa og er það -3,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalþrýstingur í janúar og febrúar var óvenjulágur. Mánaðarþrýstimeðaltalið í janúar er það lægsta í nokkrum mánuði í Reykjavík síðan í febrúar 1997.
Hæsti loftþrýstingur ársins mældist 1050,5 hPa á Hjarðarlandi þ. 28. mars. Þetta er hæsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 16.apríl 1991, en þá mældist hann 1050,8 hPa á Egilsstöðum. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 932,3 hPa í Surtsey þ. 15. febrúar.
Þrýstingur var óvenju lágur í janúar og febrúar og neikvæð mánaðarvik voru lang mest í þeim mánuðum. Þrýstingur var yfir meðallagi í apríl, maí, júní og október.
Vindhraði og vindáttir
Meðalvindhraði á landinu var óvenju hár á árinu, eða 0,6 m/s yfir meðallagi.
Fyrstu þrír mánuðir ársins voru óvenju illviðrasamir. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis.
Illviðradagar í janúar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið.
Í febrúar gekk mikið austanveður yfir landið þ. 14. og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.
Meðalvindhraði í mars var mikill og hefur ekki verið eins hár í marsmánuði síðan í mars árið 2000.
Í apríl gekk mikið illviðri (norðaustan) yfir landið dagana 4. til 5. og er það í flokki hinna verstu í apríl.
Desemeber var óvenju vindasamur. Meðalvindhraði í desember hefur ekki verið eins hár síðan í desember árið 1992 (en þá var hann töluvert hærri).
Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í ágúst og október. Meðalvindhraði var óvenjumikill í janúar, mars og desember.
Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2000 til 2019). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir (appelsínugular súlur) voru tíðar í febrúar, júlí og óvenju tíðar í desember. Sunnanáttir voru ríkjandi í maí, júní, ágúst og nóvember. Vestanáttir voru óvenju tíðar í janúar og nóvember auk þess að vera ríkjandi í maí, júlí, ágúst og september. Austlægar áttir voru ríkjandi í febrúar, október og desember.
Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði
Janúar
Janúar var mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðradagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mest allt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum og féllu tvö stór snjóflóð á Flateyri og það þriðja í Súgandafirði þ. 14. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum vegna óveðurs.
Febrúar
Febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst. Loftþrýstingur var óvenju lágur yfir landinu í febrúar.
Mars
Mars var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illlviðri tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum. Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.
Apríl
Apríl var mjög kaldur framan af en síðustu tíu dagarnir voru fremur hlýir og sólríkir. Sólskinsstundirnar voru óvenju margar á Akureyri. Mikið norðaustan illviðri gekk yfir landið dagana 4. til 5. apríl og er það í flokki hinna verstu í apríl.
Maí
Maí var óvenju þurr og sólríkur norðaustanlands. Hiti var alls staðar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en um og yfir meðaltali síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýjast við strendur en kaldara inn til landsins. Þó nokkur snjór var á hálendinu.
Júní
Hlýtt var á landinu í júní og tíð hagstæð. Hlýjast var á Norðausturlandi en tiltölulega svalara suðvestanlands. Vindur og úrkoma voru víðast hvar nærri meðallagi.
Júlí
Júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Hiti var hins vegar nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var einna hlýjast um landið suðaustanvert, en hvað kaldast um landið norðanvert og norðaustanvert þar sem mánuðurinn var allvíða kaldari en júní. Þrátt fyrir þetta var tíð í aðalatriðum hagstæð. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi.
Ágúst
Ágúst var fremur hlýr, sérstaklega á Norðausturlandi. Meðalhitinn í ágúst var víðast hvar hærri en meðalhiti júlímánaðar. Fyrri hluti mánaðarins var mjög úrkomusamur sunnan- og vestanlands. Á meðan var hlýtt á Norður- og Austurlandi. Mjög hlýtt var á Austurlandi um miðjan mánuðinn og mældist hitinn víða vel yfir 20 stig.
September
September var fremur svalur og hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Úrkoma var í meira lagi og fyrsti snjór vetrarins féll víða norðanlands.
Október
Tíðarfar í október var hagstætt. Mánuðurinn var fremur hlýr og hægviðrasamur. Austlægar áttir voru tíðar í mánuðinum. Þurrt var á vestanverðu landinu en blautara austanlands.
Nóvember
Tíð var nokkuð hagstæð í nóvember og samgöngur greiðar. Að tiltölu var hlýjast austanlands en að tiltölu kaldast sunnan- og vestanlands. Mjög kalt var á landinu dagana 18. til 19. Óveðrasamt var á landinu dagana 4. og 5. og aftur dagana 26. og 27.
Desember
Desember var óvenju úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Mikil úrkomuákefð var á Austfjörðum dagana 14. til 18. og féllu miklar aurskriður á Seyðisfirði, sú stærsta þ.18. Meðalvindhraði á landsvísu var óvenju mikill í mánuðinum. Hvöss norðanátt gekk yfir landið dagana 2. til 4. með hríðarveðri norðan- og austanlands og olli þónokkrum samgöngutruflunum. Mánuðurinn var þó með snóléttasta móti miðað við árstíma. Kalt var á landinu í byrjun mánaðar en þónokkur hlýindi voru á landinu um hann miðjan.