Fréttir
Norðurljós á Jökuldal
Aurora Borealis, Jökuldal 27. september 2016.

Tíðarfar ársins 2016

Yfirlit

20.1.2017

Árið 2016 var sérlega hlýtt hér á landi. Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var það hlýjasta ár frá því að mælingar hófust og í hópi þeirra hlýjustu í öðrum landshlutum. Hiti fyrstu tvo mánuðina var þó nærri meðallagi en haustið sérlega hlýtt. Vindar voru með hægara móti. Fremur þurrt var um tíma, frá því síðla vetrar og fram á sumar, en haustið óvenjuúrkomusamt, sérstaklega um landið sunnanvert.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig og er það 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Er þetta 21. árið í röð með hita yfir meðallagi og næsthlýjast þeirra 146 ára sem samfelldar mælingar ná til ásamt 2014. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 5,5 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi. Þetta er hlýjasta ár frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1846. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig, 1,7 stigi ofan meðallags. Þar var nokkru hlýrra árið 2014. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 6,0 stig, 1,2 stigum ofan meðallags. Á landsvísu var hitinn 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, og en 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik ársins 2016 á nokkrum stöðvum

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 6,0 1,7 2 til 3 146 0,6
Stafholtsey 4,7 1 29 0,7
Bláfeldur 5,8 2 19 0,8
Stykkishólmur 5,5 2,0 1 171 0,8
Bolungarvík 5,0 2,1 1 120 1,0
Litla-Ávík 4,8 1 22 0,9
Bergstaðir 4,5 3 38 0,7
Grímsey 4,8 2,5 2 144 1,1
Akureyri 4,9 1,7 5 135 0,6
Grímsstaðir 2,2 1,9 5 110 0,7
Miðfjarðarnes 4,1 2 18 0,8
Skjaldþingsstaðir 4,7 3 23 0,7
Egilsstaðir 4,7 1,8 2 63 0,8
Dalatangi 5,3 1,8 2 79 0,7
Teigarhorn 5,3 1,6 2 143 0,5
Höfn í Hornaf. 6,0 0,6
Fagurhólsmýri 6,0 1,4 2 104 0,5
Vatnsskarðshólar 6,5 1,4 2 39 0,6
Stórhöfði 6,0 1,2 11 140 0,3
Árnes 5,2 1,6 4 137 0,6
Hjarðarland 3,4 3 27 0,6
Hveravellir 1,0 2 51 0,8
Eyrarbakki 5,7 1,7 2 124 0,7
Keflavíkurflugvöllur 5,9 1,5 3 65 0,5


Ársmeðalhitinn var hæstur á Steinum undir Eyjafjöllum 7,1 stig, en næsthæstur í Surtsey, 7,0 stig.  Lægstur var ársmeðalhitinn á Þverfjalli, -0,1 stig, og lægstur í byggð í Möðrudal 1,8 stig.

Sé miðað við 1961 til 1990 var að tiltölu kaldast á Stórhöfða en hlýjast í Grímsey. Meðaltal síðustu tíu ára er til fyrir mjög margar sjálfvirkar stöðvar og miðað við það tímabil var að tiltölu hlýjast á Þverfjalli, +1,2 stig ofan meðallags og +1,1 ofan þess í Grímsey og í Sandbúðum, en kaldast var að tiltölu á Stórhöfða, +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í Vestmannaeyjabæ, +0,4 stigum ofan meðallags.


Í Reykjavík var hiti ofan meðallags í öllum mánuðum nema febrúar, en hiti var neðan meðallags á Akureyri í janúar, febrúar og svo lítillega í júlí. Mjög hlýtt var í mars og júní og síðan voru síðustu þrír mánuðir ársins sérlega hlýir og október sá hlýjasti sem vitað er um víða um land.

Hæsti hiti ársins á landinu mældist á Egilsstöðum 3. júní, 24,9 stig, en mest mældist frostið -25,3 stig í Svartárkoti 30. mars. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 21,6 stig á Eyrarbakka 27. júlí en mest frost, -22,7 stig, á Grímsstöðum á Fjöllum þann 30. mars.

Hæsti hiti í Reykjavík mældist 21,3 stig þann 28. júlí (reyndar að kvöldi þ.27.), en mest 20,0 stig á mönnuðu stöðinni á Akureyri hinn 23. ágúst. Svo lágt hefur árshámarkið ekki orðið á Akureyri síðan 1993, en þá var það hið sama og nú. Þann 19. júní mældist hitinn 20,5 stig á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbrautina á Akureyri. Lægsti hiti í Reykjavík mældist -10,3 stig þann 31. janúar, en á Akureyri var lægsta lágmarkið -15,0 stig þann 25. febrúar. Sama dag mældist hiti -22 stig á Akureyrarflugvelli.

Hitarod-2016-kort

Árið var það hlýjasta frá upphafi mælinga um landið norðvestanvert. Kortið sýnir stöðu ársmeðalhitans meðal hlýjustu ára á fáeinum stöðvum. Stóra feitritaða talan sýnir röðina, rauðar tölur vik frá meðallagi 1961 til 1990 í °C, rauðar tölur í hornklofa sýna hvaða ár er hlýjast á hverri stöð (þar sem 2016 var ekki það hlýjasta), en svartar tölur í hornklofa sýna hversu lengi hefur verið athugað á hverri stöð.

Úrkoma

Úrkoma var ofan meðallags áranna 1971 til 2000 um meginhluta landsins, en mjög nærri meðallagi síðustu tíu ára (sjá annars töflu).

 

stöð ársúr hlut f7100 % hlutf 0615 % mest d. úrkd úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 933,9 113,6 104,5 31,1 227 153 51 286
Korpa 1115,3 112,8 99,4 43,8 229 165 70 260
Stafholtsey 750,7 99,0 87,5 17,7 200 147 43 282
Stykkishólmur 806,2 113,7 103,2 35,6 212 131 48 302
Brjánslækur 1078,4 92,1 96,3 34,0 168 127 61 255
Lambavatn 1068,0 109,9 115,5 53,0 206 149 # #
Hólar í Dýrafirði 1336,0 107,3 # 53,0 229 152 65 219
Litla-Ávík 943,3 # 105,2 63,0 229 151 81 238
Hraun á Skaga 450,1 87,4 82,8 25,4 173 96 80 242
Bergstaðir 534,9 115,0 116,0 109,1 186 90 80 254
Litla-Hlíð 356,2 93,6 93,0 14,5 170 88 88 248
Skeiðsfoss 953,9 99,8 103,5 37,7 178 114 142 171
Sauðanesviti 844,1 97,9 91,0 51,6 219 129 67 220
Akureyri 629,2 121,4 107,1 32,5 191 109 94 251
Lerkihlíð 658,3 84,2 77,8 30,0 196 110 120 175
Mýri 464,9 106,3 92,0 44,1 157 92 109 203
Reykjahlíð 484,2 107,5 71,6 24,6 176 110 # #
Grímsstaðir 444,3 126,5 107,1 61,4 194 123 39 267
Dalatangi 1649,0 110,0 98,4 62,3 257 162 57 289
Höfn í Hornafirði 1718,6 128,1 # 77,6 225 166 48 316
Vatnsskarðshólar 1851,3 113,7 107,7 62,3 247 181 48 266
Hjarðarland 1349,8 100,7 99,6 67,3 209 157 59 267
Írafoss 2159,5 119,0 109,1 102,8 168 161 74 242
Keflavíkurflugvöllur 1147,3 102,9 107,2 48,8 243 176 31 297

Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971-2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961-1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2006 til 2015 (nýliðinn áratug).(4) Sólarhringshámarksúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

Úrkoman í Reykjavík mældist 933,9 mm, 14 prósent ofan meðallags áranna 1971 til 2000, en 5 prósent ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist úrkoman 629,2 mm, 21 prósent ofan meðallags 1971 til 2000, og 7 prósent ofan meðallag síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist úrkoman 1649,0 mm, um 10 prósent umfram meðallag áranna 1971 til 2000.

A2016-urkvik-rvk-ak

Í Reykjavík var úrkoma ýmist rétt við meðallag eða undir því fyrstu átta mánuði ársins, en langt umfram meðallag síðustu þrjá mánuðina. Á Akureyri (rauðar súlur) var úrkoma mikil í febrúar, nóvember og desember, en sérlega mikil í september. Október var þar fremur þurr.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri í Reykjavík voru 153, þ.e.a.s. 5 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990, og hafa ekki verið færri síðan 2010 (þá aðeins 109). Á Akureyri voru slíkir dagar 109 nú, sex fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri stöð mældist 157,3 mm á Nesjavöllum þann 12. október – að vísu óstaðfest mæling, en daginn eftir mældust þar 149,2 mm. Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 31,1 mm, 6. október, en mest 32,5 mm á Akureyri þann 25. september.

Snjór

Veturinn 2015 til 2016 var snjóþungur framan af í Reykjavík, snjór var óvenjumikill í desember 2015 og einnig í febrúar 2016, janúar var í ríflegu meðallagi hvað þetta varðar, en mars var aftur á móti mjög snjóéttur. Haustið var svo með snjóléttasta móti. Alhvítir dagar í mánuðunum desember til mars voru 6 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítir dagar árið í heild voru 14 færri en í meðalári.

Snjóalög voru einnig undir meðallagi á Akureyri. Alhvítir dagar ársins 2016á Akureyri urðu 94 og er það 24 færri en í meðalári 1971 til 2000, munar þar mest um snjólétta nóvember og desember. Mest snjódýpt á árinu mældist 160 cm við Skeiðsfossvirkjun þann 10. og 11. febrúar.

A2016-alhvitir-dagar-fjoldi-vik-rvk-ak

Myndin sýnir hversu fjöldi alhvítra daga vék frá meðallagi á Reykjavík og Akureyri mánuði ársins. Sumarið er snjólaust að vanda. Alhvítu dagarnir voru mun fleiri en að meðallagi í febrúar á báðum stöðvum, og í mars á Akureyri. Mars var hins vegar snjóléttur í Reykjavík. Síðustu mánuði ársins var snjór mun minni en venja er á stöðvunum báðum.  

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 1302,2 í Reykjavík, 34 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en aftur á móti 142 færri en að meðallagi síðustu tíu ár. Á Akureyri var árið sólríkt, sólskinsstundirnar mældust 1150,0 eða 105 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og 94 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Var þetta næstsólríkasta ár aldarinnar á Akureyri.

A2016-solskinsvik-rvk-ak

Mjög sólríkt var í Reykjavík í apríl og júlí (bláar súlur), en fremur sólarrýrt í maí, júní og október. Sólarlítið var í  júlí á Akureyri (rautt) en annars var sólskinsstundafjöldi þar yfirleitt yfir meðallagi eða nærri því.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,5 hPa og er það 0,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

A2016-thrystivik-rvk

Þrýstingur vék ekki svo mjög frá meðallagi í einstökum mánuðum ársins 2016. Var þó óvenjulágur í september.

Hæsti þrýstingur ársins mældist 1040,1 hPa á Reykjavíkurflugvelli 31. desember en lægstur á Gufuskálum 20. desember, 944,1 hPa.

Vindhraði og vindáttir

Vindhraði var undir meðallagi og stormdagar færri en í meðalári á landsvísu.

A2016-vindhradavik-landid-allt

Vindhraði var undir meðallagi áranna 1961 til 1990 fyrstu sex mánuði ársins, og einnig í águst og september. Hann var lítillega yfir því í júlí og október og nokkuð yfir í desember. Árið í heild telst hægviðrasamt.

A2016-vigurvik-allt-landid

Allar vindathuganir á skeytastöðvum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðameðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra áranna 1961 til 1990. Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Norðlægar áttir (rauðar súlur) voru ríkjandi í febrúar, apríl og júlí, en suðlægar í mars og svo aftur síðustu þrjá mánuði ársins. Vestanáttir voru tíðari en í meðalári í maí, nóvember og desember, en austlægar fyrstu tvo mánuðina og einnig í júlí.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Tíð telst fremur hagstæð; hiti var víðast hvar rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en neðan meðallags síðustu tíu ára. Kalt var í veðri inn til landsins á landinu norðanverðu. Úrkoma var undir meðallagi um meginhluta landsins, og á fáeinum stöðvum um landið norðvestanvert var þetta þurrasti janúar um langt skeið.

Febrúar

Kalt var í veðri, sérstaklega inn til landsins. Víða var snjóþungt, en vindar voru oftast hægir þannig að samgöngur gengu lengst af greiðlega. Úrkoma var yfir meðallagi um landið norðaustan- og austanvert en nærri meðallagi eða lítillega undir því um landið suðvestan- og vestanvert. Þó almennt væri með hægviðrasamara móti í mánuðinum gerði samt tvö umtalsverð illviðri, af austri þann 4. og 5. og af suðaustri og síðar suðvestri og vestri þann 15. til 16. Í veðrinu þann 15. til 16. féllu ársvindhraðamet á sjálfvirku stöðvunum á Skjaldþingsstöðum (athugað frá 2006), á Bíldudal (athugað frá 1998) og á Gjögurflugvelli (athugað frá 1994). Febrúarvindhraðamet féllu að auki á allmörgum stöðvum í sama veðri, m.a á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem athugað hefur verið í nær 20 ár. Einnig féllu mánaðarmet í veðrinu þann 4. til 5., þar á meðal í Skaftafelli, á Siglunesi og á Gagnheiði, en á báðum fyrrnefndu stöðvunum hefur verið athugað sjálfvirkt síðan 1995, en ríflega ári lengur á Gagnheiði.

Mars

Tíðarfar var hagstætt að mestu; lengst af var hlýtt í veðri – að slepptum fáeinum dögum í upphafi mánaðarins og enda hans. Nokkuð illviðrasamt var í fáeina daga um miðjan mánuð en tjón varð ekki víða. Þó almennt væri með hægviðrasamara móti í mánuðinum gerði mikil illviðri dagana 12. til 14. samfara því að tvær lægðir gengu til norðurs skammt fyrir vestan land. Í fyrri lægðinni var suðvestanáttin hörðust en sunnanátt í þeirri síðari. Tjón varð mest á Vestfjörðum.

Apríl

Tíðarfar var hagstætt að mestu, hiti var vel ofan meðallags 1961 til 1990, en þó var að tiltölu kaldara um landið austanvert heldur en í öðrum landshlutum. Úrkoma var mikil austast á landinu en þurrviðrasamt og sólríkt um landið vestanvert. Snjór var víðast hvar minni en í meðalári nema inn til landsins á Norðausturlandi.

Maí

Tíðarfar telst hagstætt; þurrkur háði þó víða gróðri langt fram eftir mánuði. Í síðustu vikunni rigndi óvenjumikið á Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Hiti var ofan meðallags 1961 til 1990 en þó var að tiltölu kaldara um landið suðvestanvert heldur en í öðrum landshlutum. Þrátt fyrir þurrviðri var veður heldur þungbúið lengst af um landið sunnan- og vestanvert. Snjóþungt var sums staðar inn til landsins á Norðausturlandi langt fram eftir mánuði en annars var víðast hvar snjólítið eða snjólaust í byggðum. Snjórinn norðaustanlands var að mestu fyrningar vetrarins en þó gerði þar töluverða hríð snemma í mánuðinum sem nægði til að snjódýptarmet maímánaðar féllu bæði á Grímsstöðum á Fjöllum (86 cm) og í Reykjahlíð (62 cm).

Júní

Tíð var hagstæð, þurrkur háði sums staðar gróðri fram eftir mánuði – en þegar upp var staðið varð úrkoma nærri meðallagi. Mjög hlýtt var í mánuðinum um nær allt land, á hálendinu er þetta hlýjasti júní síðan mælingar hófust þar fyrir rúmri hálfri öld og um meginhluta landsins er mánuðurinn í hópi þriggja til sjö hlýjustu júnímánaða frá upphafi mælinga. Sólskinsstundir voru venju fremur fáar suðvestanlands.

Oddur_sigurdsson

Dyrfjöll og Stórurð. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Júlí

Tíð var talin sérlega hagstæð um landið sunnan- og vestanvert en nyrðra var hún daufari og jafnvel talin óhagstæð á stöku stað. Mánuðurinn telst þó veðragóður um land allt og lítið var um illviðri. Úrkoma var með allra mesta móti sums staðar austast á landinu en víðast hvar nokkuð eða talsvert undir meðallagi vestanlands. Sólskinsstundir voru vel yfir meðallagi suðvestanlands. Úrkoma var óvenjumikil allra nyrst á Austfjörðum, sums staðar á Héraði og í Vopnafirði; hefur t.d. ekki mælst meiri í júlí á Desjarmýri og á Skjaldþingsstöðum.

Ágúst

Tíð var talin hlý og hagstæð um mikinn hluta landsins og úrkoma var víðast hvar undir meðallagi að magni til. Sólskinsstundir voru í ríflegu meðallagi suðvestanlands. Fyrsta vika mánaðarins var fremur svöl en síðan gerði mjög góðan hlýindakafla sem stóð nærri því til mánaðamóta.

September

Úrkomusamt var víða norðaustan- og austanlands og sömuleiðis norðantil á Vestfjörðum en að öðru leyti var tíð talin hagstæð. Óvenjuhægviðrasamt var lengst af. Nokkrar frostnætur komu inn til landsins en víðast hvar var alveg frostlaust allan mánuðinn og ber óskemmd til mánaðamóta. Uppskera úr görðum var víðast góð. 

Október

Októbermánuður var sérlega hlýr og víða á landinu sá hlýjasti síðan mælingar hófust. Tíð var mjög hagstæð um mestallt land, en rigningar þóttu ganga úr hófi sums staðar á Suður- og Vesturlandi. Á nokkrum stöðvum var þetta úrkomusamasti októbermánuður sem vitað er um. Mánuðurinn var alveg frostlaus víða við strendur landsins og telst það óvenjulegt. Þetta er næsthlýjasti október sem vitað er um í Reykjavík, lítillega hlýrra var 1915, en munurinn í raun ómarktækur. Á Akureyri var meðalhitinn 7,5 stig, 4,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.  Þetta er einnig næsthlýjasti október á Akureyri, heldur hlýrra var í október 1946. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 7,9 stig, sá hæsti nokkru sinni í október, mælingar í október ná aftur til ársins 1846. Úrkoman í Reykjavík mældist 206,9 mm, það langmesta sem vitað er um í október og ríflega tvöföld meðalúrkoma, næstmest mældist 1936, 180,8 mm. Úrkoma hefur aðeins þrisvar sinnum mælst meiri í einum mánuði í Reykjavík. Það var í nóvember 1993 (259,7 mm), febrúar 1921 (242,3 mm) og í nóvember 1958 (212,1 mm).

Nóvember

Hlýtt var á landinu í nóvember. Mjög úrkomusamt var sunnanlands og nyrðra var úrkoma einnig ofan meðallags víða. Tíð var talin mjög hagstæð og veðragóð um mikinn hluta landsins, en veður var samt harla þungbúið og drungalegt lengst af.

Desember

Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar nema fáeina daga undir lok mánaðar. Óvenjuhlýtt var í veðri og um austanvert landið var mánuðurinn sums staðar sá hlýjasti frá upphafi mælinga og í hópi þeirra hlýjustu um land allt. Úrkomusamt var og dimmt. Ekki var mikið um illviðri að undanskildum fáeinum hvössum dögum undir lok mánaðarins og urðu þá nokkrar samgöngutruflanir. Þá kólnaði nokkuð og var snjór á jörðu um allt land að kalla yfir jólahátíðina. Þann snjó tók þó fljótt upp aftur.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2016 (textaskjal) .

Tíðarfar ársins 2016 verður einnig hægt að sækja sem pdf-skjal.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica