Stutt og óvenjuleg skjálftahrina í Eyjafirði
Lítil jarðskjálftahrina hófst þann 31. október um 1 km norðan við Hrísey. Veðurstofan mældi um 30 jarðskjálfta í hrinunni sem lauk 4. nóvember. Skjálftarnir voru allir litlir eða innan við M1.5 og flestir innan við M1 að stærð. Fólk verður að öllu jafna ekki vart við skjálfta að þessari stærð, en þeir hafa vakið athygli þar sem óvanalegt er að svo margir skjálftar mælist á þessum slóðum. Við nánari athuganir á upptökum skjálftanna kemur í ljós að þeir eru á mjög afmörkuð svæði og litlu dýpi, um 2-4 km. Til samanburðar eru skjálftar sem tilheyra hrinunni á Tjörnnesbrotabeltinu að mælast á 10 km dýpi.
Ekki er óhugsandi að skjálftarnir tengist óróleika vegna jarðskorpuhreyfinga úti fyrir mynni Eyjafjarðar, en líklegra þykir m.v. staðsetningu og lítið dýpi skjálftanna, að þeir tengist jarðhitavirkni sem finnst víða í Eyjafirðinum. Náttúruváreftirlit Veðurstofunnar fylgist áfram vel með svæðinu í samvinnu við félaga á Jarðvísindastofnun, ÍSOR og Almannavarnadeild Lögreglunnar.
Almannavarnir lýstu yfir óvissuástandi vegna jarðskjálftavirkni úti fyrir Norðurland þegar öflug hrina hófst í Eyjafjarðarálnum í lok júní. Síðan þá hefur sérstaklega verið fylgjst með svæðinu. Óvenju mikil jarðskjálftavirkni hefur verið fyrir norðan síðan í sumar, sér í lagi fyrir mynni Eyjarfjarðar þar sem gliðnunarbelti í Eyjafjarðarál mætir Húsavíkur- og Flateyjarmisgenginu.