Fréttir
Katla005052023
Myndin sýnir skjálfta sem mælst hafa í hrinunni sem hófst um kl. 9:40 í gær, 4. maí. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir og eru umtalsvert minni en stærstu skjálftarnir sem eru bláir. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)

Skjálftahrina í Kötluöskju

5.5.2023

Uppfært kl. 11:40

Mælingar benda til þess að virknin í Kötluöskju teljist nú til eðlilegrar bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar. Eftir samráðsfund vísindamanna á Veðurstofunni benda gögn til þess að um hafi verið að ræða snarpa jarðskjálftahrinu, en slíkar hrinur eru þekktar í Kötlu. Rúmlega 40 skjálftar hafa mælst síðasta sólarhringinn, þar af þrír skjálftar yfir 4 af stærð. Skjálftarnir voru þó óvenju stórir og fara þarf aftur til ársins 2016 til að finna sambærilega hrinu og nú.

Fluglitakóðinn fyrir Kötlu hefur verið færður aftur niður á grænan. Óvissustig Almannavarna er áfram í gildi og náið verður fylgst með þróun mála í Mýrdalsjökli.


Uppfært 5.5. kl. 9:15

Verulega hefur dregið úr skjálftavirkni í Kötluöskju frá því í gærmorgun. Fimm skjálftar hafa mælst frá því á miðnætti. Skjálftarnir sem mælst hafa eru á þeim stað í Kötluöskjunni sem tilheyrir vatnasviði Múlakvíslar. Engar mælingar benda til þess að hlaup sé yfirvofandi. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi í gær eftir að hrinan hófst, ekki síst vegna þess að virkni í Mýrdalsjökli getur fylgt gasmengun og ekki ráðlegt að vera við rætur jökulsins.

Veðurstofan heldur áfram að vakta Kötluöskju og er verið að yfirfara gögn til að sjá hvort hægt er að leggja mat á hver þróun virkninnar verði.

Katla005052023

Myndin sýnir skjálfta sem mælst hafa í hrinunni sem hófst um kl. 9:40 í gær, 4. maí. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir og eru umtalsvert minni en stærstu skjálftarnir sem eru bláir. (Mynd úr skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands)


Uppfært kl. 17:15

Eftir hádegi í dag hefur ákefð skjálftahrinunnar í Kötluöskju minnkað. Minni skjálftar eru þó enn að mælast með reglulegu millibili eins og sést á grafinu hér fyrir neðan. Engin breyting mælist á rennsli Múlakvíslar. Ekkert er þó hægt að fullyrða um hver þróun hrinunnar verður og fylgist sólarhringsvakt Veðurstofunnar áfram náið með virkninni.


Grafið sýnir skjálftavirkni í Kötluöskjunni, stærð yfirfarinna skjálfta og tímasetning þeirra, milli kl. 9-17, í dag, 4. maí. (Skjáskot úr skjálftavefsjá Veðurstofunnar) Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

Færsla sett inn kl. 12:30

Í dag kl 09:41 byrjaði jarðskjálftahrina Í Mýrdalsjökli. Stærsti skjálftinn varð kl 09:52 og var um 4.5 að stærð, en niðurstöður eru óyfirfarnar. Skjálftahrinan er staðsett norðaustarlega í  Kötluöskju og hafa skjálftar fundist í Þórsmörk.  Fluglitakóði fyrir Kötlu hefur verið færður yfir á gult sem gert er þegar gosstöð sýnir merki umfram það sem er kallað bakgrunnsvirkni.

Enginn gosórói mælist og engar vísbendingar eru um að hlaup sé hafið undan jöklinum.  Ekki er þó talið ráðlegt að vera við rætur Kötlujökuls vegna mögulegs gasútstreymis og hlaupvatns í farvegi Múlakvíslar.  Sambærileg skjálftahrina varð í Kötluöskju árið í ágúst 2016.  Ekkert hlaup varð í jöklinum í tengslum við þá hrinu. Stórt hlaup varð síðast í Múlakvísl í júlí 2011.

Í kringum Kötlu er mælanet sem samanstendur m.a. annars af jarðskjálfta-, aflögunar- og vatnamælum. Þessir mælar eru vaktaðir allan sólarhringinn af náttúruvársérfræðingum Veðurstofunnar og gefnar út tilkynningar ef snöggar breytingar verða á þeim sem mætti túlka sem skammtímafyrirboða að eldgosi eða jökulhlaupi, t.d. órói á jarðskjálftamælum. Engin slíkur órói sést á mælum núna. Ekki er hægt fullyrða neitt um það hvernig þróun virkninnar verður og fylgist náttúruvárvöktun Veðurstofunnar áfram náið með málum.

Nánar má lesa um eldstöðina Kötlu í Íslensku eldfjallavefsjánni en þar er t.d. fjallað sérstaklega um hegðun milli gosa og fyrirboða eldgosa, bæði til lengri og skemmri tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica