Fréttir
Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar og rennslisleið hlaupvatns frá Skaftárkötlum.

Skaftárhlaup í hægum vexti

Töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess

21.8.2024

  • Rennsli í Skaftá við Sveinstind heldur áfram að vaxa en hefur verið í hægum vexti það sem af er degi og mælist nú tæplega 180 m3/s 

  • Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu 

  • Um þrjú ár frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli sem er óvenju langur tími milli hlaupa  

  • Töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess. 

  • Ekki enn staðfest að hlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli

Rennsli í Skaftá við Sveinstind hélt áfram að vaxa fram eftir gærkvöldi en hefur verið í hægum vexti það sem af er degi. Rennslið þar mælist nú tæplega 180 m3/s sem er sambærilegt við mikið sumarrennsli en í lægri kantinum miðað við hámarksrennsli síðustu Skaftárhlaupa. Rennsli í Eldvatni, nærri þjóðvegi 1, er einnig farið að vaxa jafnt og þétt. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu, en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins. 

Graf21082024

Rennsli í Skaftá frá því síðdegis í gær 20. ágúst. Blá lína sýnir rennsli í Skaftá við Sveinstind en rauðlína rennsli í Eldvatni.

Þekkt eru hlaup úr Vestari-Skaftárkatlinum sem ekki ná miklu hámarksrennsli en vara lengi (1-2 vikur). Mögulegt er að slíkt hlaup sé í gangi núna en það er þó enn of snemmt að fullyrða til um það. 

Nú eru um þrjú ár frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli sem er óvenju langur tími milli hlaupa. Því er líklegt að þetta hlaup eigi upptök sín þar en það hefur þó ekki enn fengist staðfest. Vegna þessa er töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna Skaftárhlaups.  

Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.


Möguleg vá

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:  

  • Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.  
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.  
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica