Fréttir
Forsidumynd

Síðustu átta ár þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga.

Þessi ár bera öll merki um aukin áhrif loftslagsbreytinga. Hraði sjávarborðshækkunar eykst, metbráðnun evrópskra jökla og aftakaveður valda eyðileggingu 

8.11.2022

Vegna síaukinnar uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda hafa síðastliðin átta ár mælst þau átta hlýjustu í sögunni. Áhrif hlýnunar verða sífellt áþreifanlegri. Gríðarlegar hitabylgjur, þurrkar og aftakaflóð hafa haft áhrif á milljónir manna og valdið milljarða tjóni það sem af er þessu ári. 
Meðalhiti á heimsvísu árið 2022 er nú metinn um það bil 1,15°C yfir meðaltali tímabilsins 1850-1900, fyrir iðnbyltingu, og hlýnunin heldur áfram. Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um stöðu loftslags á heimsvísu árið 2022, State of the Global Climate 2022. Stofnunin birti skýrsluna við upphaf loftslagsráðstefnunnar, COP27, í Sharm-El-Sheikh í Egyptalandi þann 6. nóvember síðastliðinn.
 
Hnattraen-hitafravikMynd 1 Hitafrávik við yfirborð jarðar árið 2022 (janúar-september) í samanburði við meðalhita tímabilsins 1981-2020. Rauður merkir yfir meðallagi og blár undir meðallagi.  

Í skýrslunni kemur fram að hækkun yfirborðs sjávar er nú tvöfalt hraðari en árið 1993 og hefur sjávarstaða hækkað um nær 10 mm frá því í janúar 2020, sem er methækkun.  

Árið 2021 mældist sjávarhiti hærri en nokkurn tíma og hefur hraði hlýnunar sjávar verið sérstaklega mikill á síðastliðnum 20 árum.  

Jöklar í evrópsku Ölpunum hafa ekki farið varhluta af hlýnun jarðar og benda frumniðurstöður til metbráðnunar árið 2022. Meðalþykktartap jöklanna var um 3-4 metrar sem er vel yfir því sem mældist síðast þegar þetta varhugaverða met var slegið árið 2003. Ísbreiðan á Grænlandi varð fyrir massatapi 26. árið í röð auk þess sem það rigndi þar í fyrsta skipti í september, í stað þess að snjóa.  


Medalhiti-jardarMynd 2 Meðalhiti jarðar í samanburði við meðalhita tímabilsins 1850-1900, fyrir iðnbyltingu.  


Árið 2022 stóðu stór svæði í Evrópu endurtekið frammi fyrir miklum hitum. Í Bretlandi var hitamet slegið þegar hiti mældist yfir 40°C í fyrsta skipti. Því fylgdu miklir þurrkar með tilheyrandi eyðileggingu og gróðureldum. Yfirborð evrópskra vatnsfalla, svo sem Rínar, Loire og Danúbe, var við þolmörk. 

Í austur Afríku hefur úrkoma mælst undir meðallagi fjögur regntímabil í röð. Bendir allt til þess að næsta regntímabil muni einkennast af lítilli úrkomu. Þessir löngu þurrkar ásamt öðrum samverkandi þáttum ollu því að matvælaöryggi um það bil 18-19 milljóna manna var ógnað fyrri hluta árs 2022. Mannúðarsamtök benda á að annað tímabil með lítilli úrkomu geti leitt til uppskerubrests og ýtt undir enn frekari matarskort í Kenía, Sómalíu og Eþíópíu.  

Auknar veðuröfgar undirstrika mikilvægi viðvörunarkerfa

„Þeim mun meiri hlýnun, þeim mun verri afleiðingar. Uppsöfnun koldíoxíðs í andrúmsloftinu er svo mikil núna að lægri mörk Parísarsamkomulagsins, 1,5°C, eru varla í sjónmáli,“ sagði Petteri Taalas aðalrritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO .  

„Allt of oft eru það þeir sem minnst áhrif hafa á loftslagsbreytingar sem verða fyrir mestum skaða, eins og við höfum orðið vitni að í hinum hræðilegu flóðum í Pakistan og banvænu þurrkum í Afríku. En jafnvel vel undirbúin samfélög hafa orðið fyrir barðinu á öfgunum þetta árið eins og sést á langvarandi hitabylgjum og þurrkum á stórum svæðum í Evrópu og suður Kína,“ sagði Taalas.  

„Auknar veðuröfgar undirstrika mikilvægi þess að tryggja að allir á jörðinni hafi aðgang að viðvörunarkerfum,“ segir Taalas. Þessi áhersla hans endurspeglast í skilaboðum aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antóniu Guterres, á leiðtogafundi á COP27 þann 7. nóvember. Þar kynnti hann aðgerðaáætlun um viðvörunarkerfi fyrir alla, „ Early Warnings for All “.  

“Sífelld aukning í losun gróðurhúsalofttegunda ýtir undir veðuröfgar víðsvegar um heiminn. Slíkir atburðir hafa kostað líf og valdið fjárhagslegu tjóni sem nemur hundruðum milljarða. Þrefalt fleiri íbúar jarðar hafa þurft að flýja heimili sín vegna loftslagshörmunga en vegna stríðs. Helmingur mannkyns er nú þegar á hættusvæði,“ sagði Guterres.  

„Við verðum að fjárfesta til jafns í aðlögun og seiglu. Það felur í sér upplýsingar sem gera okkur kleift að spá fyrir um ofsaveður, hitabylgjur, flóð og þurrka. Með það í huga hef ég farið fram á að hver íbúi á jörðinni verði varinn með viðvörunarkerfum innan fimm ára, með áherslu á að styðja fyrst við þá sem eru hvað berskjaldaðastir,“ sagði Guterres. 







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica