Fréttir

Ragnar Stefánsson jarðsunginn í dag

Ragnar var leiðtogi og stjórnandi jarðeðlisfræðilegrar vöktunar og rannsókna á Veðurstofu Íslands í nær fjóra áratugi

10.7.2024

Ragnar Stefánsson fæddist í Reykjavík þann 14. ágúst 1938. Hann lést á Landspítalanum þann 25. júní sl. á 86. aldursári.

Ragnar var leiðtogi og stjórnandi jarðeðlisfræðilegrar vöktunar og rannsókna á Veðurstofu Íslands í nær fjóra áratugi.

Ragnar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958. Síðan hélt hann til háskólanáms í Svíþjóð og lauk fil.kand.-prófi í stærðfræði og eðlisfræði frá Uppsalaháskóla árið 1961 og í jarðeðlisfræði 1962. Hann lauk síðan fil.lic.-prófi í jarðskjálftafræði frá sama skóla 1966.

Ragnar kom fyrst til starfa á Veðurstofunni 1962 og gegndi starfi deildarstjóra jarðeðlisfræðideildar í eitt ár. Endanlega heim kominn frá námi 1966 tók hann aftur við sama starfi og gegndi því til 2003, eftir skipulagsbreytingar 1994 undir starfsheitinu forstöðumaður jarðeðlissviðs. Árin 2004 og 2005 var hann forstöðumaður rannsóknarútibús Veðurstofu Íslands við Háskólann á Akureyri og prófessor í jarðvárfræðum við sama skóla frá 2006 til formlegra starfsloka 2008.


Ragnar að störfum á Veðurstofunni umkringdur fræðigreinum og skýrslum. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Úrsúla E. Sonnenfeld)

Alla starfsævi sína var meginverksvið Ragnars fólgið í vöktun á jarðskjálftum og eldgosum, sem og að rannsóknum sem höfðu það að markmiði að draga úr hættu af völdum þessara þátta. Á þessu sviði var hann í forystusveit á alþjóðlegum vettvangi. Um tveggja áratuga skeið frá miðjum níunda áratugi síðustu aldar hafði hann öflugt frumkvæði og forystu um uppbyggingu nýrra mælikerfa og rannsókna sem miðuðu að því að vara við jarðskjálftum og eldgosum og hættum sem af jarðvá getur stafað. Ennfremur stýrði hann mörgum íslenskum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem miðuðu að sama marki. Árið 2011 sendi Ragnar frá sér bókina Advances in Earthquake Prediction, Research and Risk Mitigation, þar sem hann dregur saman meginniðurstöður rannsókna sinna og reynslu af jarðskjálftaspám. Árið 2022 kom síðan út bók hans Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta, en fyrir hana hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlauninÞessar tvær bækur eru grundvallarrit í jarðskjálfta- og jarðskjálftaspáfræði hérlendis og í alþjóðlegu samhengi. Fræðigreinin eins og hún er skilgreind í þessum tveimur bókum er ný og nokkuð umdeild meðal fræðimanna, en vænta má að hún þróist hratt á næstu árum og áratugum.

Sem að ofan greinir var Ragnar mjög virkur í alþjóðlegu samstarfi innan fræðasviðs síns. Hann sótti mjög fundi og ráðstefnur erlendis og flutti þar fjölda erinda um viðfangsefni sín. Þá var hann tíðum gestfyrirlesari við háskóla og rannsóknarstofnanir. Hann átti frumkvæði að því að afar fjölmennt og vel heppnað XXV allsherjarþing European Seismological Commission var haldið í Reykjavík 1996 og gegndi formennsku í undirbúnings- og skipulagsnefnd þess. Þá var hann annar tveggja varaforseta samtakanna frá 1994 til 1998.


Ragnar flytur erindi á ráðstefnu European Seismological Commission sem var haldin á Hótel Loftleiðum í Reykjavík 9.-14. september 1996.  (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)

Fyrstu ár sín á Veðurstofunni var Ragnar eini starfsmaður jarðeðlisfræðideildar. Fljótt kom í ljós að hann var eldhugi í starfi, afar hugmyndaríkur, fylginn sér og hafði mikinn metnað í þá átt að efla starfsemina. Fljótlega bættust því við fleiri verkefni og starfsmenn og með sífellt vaxandi, fjölþættari og meira krefjandi viðfangsefnum voru þeir orðnir verulega á annan tug þegar hann hætti sem yfirmaður syðra og hélt til starfa á Akureyri. Ragnar var vinsæll og vel látinn stjórnandi og bar hag starfsmanna sinna mjög fyrir brjósti. Hann var óformlegur í samskiptum og þægilegur viðræðu, þótt gustað gæti stöku sinnum. Hann aðhylltist skipulag sem hann kallaði „flatan strúktúr“ og taldi það skila bestum árangri í starfi, en hugnaðist síður hamlandi skrifræði og ósveigjanleiki.

Sem fyrr segir var Ragnar eldhugi og mikill afkastamaður. Umfangsmikil og krefjandi störf hans á Veðurstofunni komu ekki í veg fyrir að hann sinnti ýmsum áhugamálum og störfum á sviði stjórnmála og félagsmála. Ragnar ólst upp á mjög vinstrisinnuðu heimili og varð snemma mjög pólitískur. Hann var í forystu Æskulýðsfylkingarinnar, síðar Fylkingar byltingarsinnaðra kommúnista, allt frá heimkomu sinni frá Uppsölum 1966 og til 1984, lengst af formaður. Framan af formannsárum hans fyrir og um 1970 var Fylkingin mjög virk og áberandi í samfélaginu með starfi sínu og aðgerðum. Ragnar var maður grasrótarinnar og baráttunnar en gaf sig lítt að marxískum fræðikenningum. Hann lét málefnin ráða för og var undantekningalítið umtalsfrómur um pólitíska andstæðinga jafnt og aðra samferðamenn. Ragnar skipaði þrisvar sinnum efsta sæti á framboðslista Fylkingarinnar í Reykjavík til Alþingis á árunum 1974 til 1979.

Ragnar starfaði um árabil af krafti innan Starfsmannafélags ríkisstofnana og BSRB og tók m.a. virkan þátt í BSRB-verkfallinu mikla 1984. Hann stofnaði ásamt nokkrum skoðanabræðrum sínum útvarpstöðina Útvarp Rót sem starfaði með nokkrum blóma í kringum 1990 og kom þar nokkuð að dagskrárgerð.

Þótt Ragnar væri að upplagi byltingarsinnaður sósíalisti hægðist eilítið á þeim viðhorfum með árunum. Á yngri árum gaf hann sig nokkuð að heimspeki. Í honum var einnig að finna þjóðlega taug og hann lét hagsmuni landsbyggðarinnar sig mjög skipta eftir að hann flutti norður. Þannig var hann formaður Framfarafélags Dalvíkurbyggðar um alllangt skeið. Frá 2003 til 2008 var hann formaður samtakanna Landsbyggðin lifi. Hann var meðal stofnfélaga Vinstri hreyfingarinnar  græns framboðs árið 1999 og sat þar lengi í flokksráði.

Auk þeirra tveggja grundvallarverka Ragnars sem þegar hefur verið getið liggur eftir hann fjöldi ritgerða á sviði jarðskjálftafræði í tímaritum og ráðstefnuritum. Einnig ritaði hann ásamt fleirum allmargar skýrslur um niðurstöður verkefna sem styrkt voru af utanaðkomandi aðilum, s.s. úr sjóðum á vegum Evrópusambandsins. Þá ritaði hann fjölda greina um stjórnmál, verkalýðsmál, félagsmál og byggðamál í blöð og tímarit. Endurminningabók Ragnars, Það skelfur, kom út 2013.

Eftir heimkomu frá námi bjó Ragnar lengi vel með fjölskyldu sinni í Reykjavík. Síðar hélt hann heimili með seinni konu sinni í Svarfaðardal en átti jafnframt aðsetur í höfuðborginni.

Þótt Ragnar hefði lokið formlegu ævistarfi á Veðurstofunni var hann síður en svo sestur í helgan stein. Eldmóðurinn og áhuginn á fræðunum var enn til staðar og hann sinnti þeim af krafti fram á allra síðustu ár.

Fyrri eiginkona Ragnars var Astrid Malmström menntaskólakennari. Börn þeirra eru Kristína, Stefán Áki og Gunnar Bjarni. Með Björk Gísladóttur eignaðist hann Bryndísi Hrönn. Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Ingibjörg Hjartardóttir frá Tjörn í Svarfaðardal, bókasafnsfræðingur og rithöfundur. Synir hennar og stjúpsynir Ragnars eru Hugleikur og Þormóður Dagssynir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica