Óvissustigi lýst yfir vegna landriss í Öskju
Í næstu viku munu Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun eldstöðvarinnar
Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra lýsir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju. Síðustu vikur hafa mælst hraðar landbreytingar í Öskju, bæði á GPS-mælitæki staðsett þar og eins með nákvæmri úrvinnslu gervitunglamynda. Landrisið er rúmlega 7 sentimetrar sem telst mikið á þessu tímabili.
Líklegasta skýringin er að á 2-3 km dýpi sé kvika að
safnast fyrir. Í næstu viku munu
Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun í
Öskju til þess að efla vöktun og til að geta fylgst enn betur með hegðun
eldstöðvarinnar.
Í ljósi nýjustu gagna hefur Veðurstofan breytt fluglitakóða fyrir Öskju úr grænum í gulan. Það er gert þegar eldstöð sýnir merki um virkni, umfram venjulegt ástand.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.
Gröfin sýna færslur á GPS
stöðinni OLAC í norður, austur og upp fyrir tímabilið 27. júlí til 9.
september, 2021. Stöðin, sem er staðsett nærri miðju landrissins (sjá InSAR
mynd), sýnir að um mánaðarmótin júlí-ágúst fór ris að mælast.