Fréttir
Grófar útlínur flóðanna sem féllu í morgun miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir núna. Flóðið sem er merkt með brotalínu féll vestan við leiðigarða við Urðarteig yfir Strandgötu og í sjó fram. Þá féll flóð úr Nesgili, utarlega í bænum, á nokkur íbúðarhús við göturnar Starmýri og Hrafnsmýri, og bjargaðist fólk sem statt var í þessum húsum án alvarlegra slysa. Flóð úr Bakkagili stöðvaðist skammt ofan byggðarinnar við Gauksmýri.

Aflétting hættustigs á Austfjörðum

Óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum er áfram í gildi.

27.3.2023

Uppfært 01.04. kl. 22:00

Öllum rýmingum í Neskaupstað var aflétt klukkan 16 í dag. Rýmingum vegna snjóflóða- og krapaflóðahættu í Seyðisfirði og rýmingum vegna krapaflóðahættu á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði var einnig aflétt í kjölfarið. Hættustigi á þessum stöðum er þá aflýst en óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum er áfram í gildi.

Það hefur verið úrkomulaust frá hádegi í dag, laugardag, og veðurspá gerir ráð fyrir þurru veðri fram á mánudag. Þá fer kólnandi fram til morguns og líklegt að það frysti til fjalla. Þegar birti upp í dag sáust mörg snjóflóð í Seyðisfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og víðar sem hafa fallið síðustu daga. Flest þeirra féllu eftir að það hlýnaði í veðri og geta sum þeirra hafa fallið í morgun. Krapaflóð féll yfir veg í sunnanverðum Reyðarfirði síðdegis í dag en mikil leysing hefur verið á öllu svæðinu og vatn sums staðar flætt yfir vegi. Ekki er útilokað að stöku krapaflóð og vot snjóflóð geti fallið áfram á meðan vatnið sígur úr snjóþekjunni en dregið hefur úr ofanflóðahættunni eftir að það stytti upp með kólnandi veðri.

Uppfært: 31.03. kl. 14:30

Mikil úrkoma hefur verið á Austurlandi frá því í gær. Það hefur hlýnað og er frostlaust upp í um 1000 m hæð. Spáð er áframhaldandi rigningu fram yfir hádegi á morgun.

Mörg snjóflóð hafa fallið síðasta sólarhringinn fyrir austan. Stærstu snjóflóðin féllu í Neskaupstað í gær og féllu tvö þeirra á varnir ofan byggðarinnar. Snjóflóð sem hafa fallið í dag hafa verið minni og stöðvast ofar. Í dag hafa fallið krapaflóð víða m.a. í Berufirði, Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði.

Það dregur úr hættu á stórum snjóflóðum þegar blotnar í snjó á láglendi og fer að rigna í upptakasvæðum. Hinsvegar eykst hætta á krapaflóðum í rigningunni í dag og á morgun.

Hluta rýminga sem hafa verið í gildi vegna snjóflóðahættu var aflétt í morgun. Þ.e. öllum rýmingum vegna snjóflóðahættu á Eskifirði og hluta rýminga á Seyðisfirði og í Neskaupstað.

Í gær voru rýmd nokkur hús á Eskifirði og Stöðvarfirði og eitt í Fáskrúðsfirði vegna krapaflóðahættu. Nokkur hús til viðbótar voru rýmd í Fáskrúðsfirði í morgun.

Vitað er um krapaflóð allvíða í nótt og í dag á sunnanverðum Austfjörðum, t.d. í Berufirði, Breiðdal og í Fáskrúðsfirði.

P3280168

Þetta er mynd sem Ragnar Heiðar Þrastarson fagstjóri hjá Veðurstofunni tók mánudaginn síðastliðinum. Hér má sjá ummerki kófhlaups mánudag á 17 metra háum þvergarði undir Drangagili í Neskaupstað. Snjóflóðið rakst á garðinn á miklum hraða og snjórinn klesstist inn í netgrindur sem eru til styrkingar á brattri garðhliðinni. Snjórinn kastaðist upp á garðtoppinn á um 80 m löngum kafla og náði 10-20 m niður á neðri garðhliðina. Fimmtudaginn 30. mars féll annað snjóflóð á keilur fyrir ofan sama varnargarð en það stöðvaðist áður en það náði garðinum.

Uppfært 30.03. kl 20:30

Óvissustig vegna snjóflóða- og krapaflóðahættu er í gildi á Austfjörðum og mörg hús hafa verið rýmd. Mikil úrkoma hefur verið á svæðinu síðasta sólarhringinn. Úrkoman hefur verið í formi rigningar eða slyddu á láglendi en snjókomu til fjalla. Í dag hefur hlýnað, sérstaklega sunnan til á fjörðunum og er krapi á láglendi.

Snjóflóð hafa fallið ofan Neskaupstaðar í dag. Flest þeirra hafa stöðvast í 100-200 m hæð en tvö flóðanna voru nokkuð stór og féllu á varnir undir Drangagili og Tröllagili. Efstu hús undir varnargörðum voru rýmd að nýju í Neskaupstað í dag og í kvöld taka gildi viðbótarrýmingar í ytri hluta Neskaupstaðar og undir Bjólfi á Seyðisfirði vegna hættu á snjóflóðum.

Minni snjóflóð hafa einnig fallið úr Hólmatindi í Eskifirði og úr Hellufjalli í Stöðvarfirði.

Einnig er talið að krapaflóðahætta geti skapast á Austurlandi þegar hlýnar enn frekar í kvöld og fram á morgundaginn, einkum þar sem mikill snjór er í giljum. Hús hafa verið rýmd á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Seyðisfirði vegna þessa. Erfitt er að spá fyrir um hvar krapaflóð geta fallið en algengt er að þau falli í ár- og lækjarfarvegum og er því fólk hvatt til þess að sýna aðgæslu nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til að sýna aðgæslu og dvelja ekki í kjallaraherbergjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan á rigningin gengur yfir.

Skv. veðurspá hlýnar áfram, einkum upp úr hádegi á morgun, og mun þá rigna í fjöll á öllu svæðinu. Úrkoman verður áfram mikil fram á laugardag, en þá ætti að stytta upp eftir hádegið.


Uppfært 30.03. kl 15:15

Ákveðið hefur verið að rýma nokkur hús á Eskifirði og Stöðvarfirði vegna krapaflóðahættu og eitt hús í Fáskrúðsfirði. Um hádegið í dag féll nokkuð stórt snjóflóð úr Innra-Tröllagili í Neskaupstað og niður á varnarkeilur. Ákveðið hefur verið að rýma hús sem standa næst varnargörðum undir öðrum farvegum í öryggisskyni. Eins og gert er ráð fyrir að sé gert í miklum snjóflóðahrinum þegar snjóflóð eru farin að falla eða geta fallið niður á varnir. Einnig var farið í frekari rýmingar í Neskaupstað klukkuan 15:00 í dag.

Uppfært 30.03. kl 11:40

Veðurspá frá því í gær hefur gengið eftir að mestu. Veruleg úrkoma hefur verið á Austfjörðum síðan í nótt, slydda eða rigning á láglendi en snjókoma til fjalla. Eftir því sem líður á daginn mun hlýna jafnt og þétt á sunnanverðum fjörðunum og það tekur að rigna upp í miðjar hlíðar, en áfram verður slydda og snjókoma ofarlega í fjöllum. Kaldara verður norðan Mjóafjarðar fram á kvöld og þar fer ekki að hlýna að ráði fyrr en í nótt, aðfaranótt föstudags.

Aðstæður á Austfjörðum eru óvenjulegar að því leyti að mikill nýfallinn snjór er á svæðinu og gert ráð fyrir hlýindum og rigningu næstu daga. Því er hætt við að blaut snjóflóð falli úr neðri hluta hlíða þegar hlýnar og fer að rigna, en eftir því sem líður á veðrið má búast við því að krapaflóð geti fallið þegar snjórinn blotnar og mettast. Erfitt er að spá fyrir um hvar krapaflóð falla en algengast er að þau eigi upptök í vatnsfarvegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgæslu nærri farvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og dvelja ekki í kjallaraherbergjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan rigningin gengur yfir.

Appelsínugul viðvörun í gildi fyrir Austfirði í kvöld og á morgun

Uppfært 29.03. kl 11:00

Mikilli úrkomu er spáð á Austfjörðum og Suðausturlandi á fimmtudag og fram á laugardag. Til að byrja með verður úrkoman að mestu snjókoma. Það hlýnar og verður rigning láglendi Suðaustanlands megnið af tímanum. Á fimmtudagskvöldið er reiknað með að víðast verði farið að rigna til fjalla.

Harmonie-igb_island_accum_total_precip_2023032900_66

Uppsöfnuð úrkoma til 18 á föstudag.

Mikil snjóflóðahætta er á Austfjörðum og rýmingar í gildi á Seyðisfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Í veðrinu verður hætta á snjóflóðum, bæði votum og þurrum. Þá verður hætta á krapaflóðum í rigningunni þar sem snjór er víða mikill. Grípa gæti þurft til frekari aðgerða vegna þessa veðurs.


Uppfært 28.03. kl 18:45

Í dag hefur verið skaplegasta veður á Austfjörðum en þó ekki mjög gott skyggni alveg upp á fjallatoppa til að sjá upptök snjóflóðanna sem fallið hafa. Snjóathugunarmenn Veðurstofunnar byrjuðu að skoða aðstæður snemma í morgun og er enn að störfum við að kortleggja og meta eðli og útbreiðslu snjóflóða á svæðinu í samvinnu við björgunarsveitir og fleiri aðila.

Í Neskaupstað féll stórt flóð úr Bakkagili en náði ekki húsum, úr Nesgili féll annað flóð á fjölbýlishús við Víðimýri. Snjóflóð féll úr Skágili og braut niður hluta skógræktar og síðan á varnarkeilur og alla leið niður á varnargarðinn undir Drangagili. Úr báðum Tröllagiljum féllu snjóflóð á varnarkeilur ofan varnargarðsins þar. Stórt flóð féll úr Klofagili og Miðstrandargili sem rann út í sjó meðfram leiðigarði innan við þéttbýlið.

Image-27


Mynd-2-neskaupstadur

Myndir tekinar með flygildi frá björgunarsveitinni Gerpi af tungum snjóflóða sem féllu úr Bakkagili, Nesgili og Skágili. Bláu örvarnar sýna hvar snjóflóðin féllu, en tungurnar eru þunnar og ekki auðvelt að greina þær af myndum.

Á Eskifirði hefur sést til brotstáls innarlega í Harðskafa, líklega frá því snemma í veðrinu. Úr Hólmatindi féll flóð yfir veg utan við álverið í Reyðarfirði. Einnig fóru tvö snjóflóð yfir veg úr Grænafelli á Fagradal, annað þeirra var um 60 m breitt og 2 m þykkt.

Á Seyðisfirði féll snjóflóð úr Bjólfsöxl á mannlaust hús utan við þéttbýlið ásamt fleiri flóðum í Bjólfi. Einnig féll flóð úr Strandartindi niður undir veg á Borgartanga.

Mörg þessara flóða virðast hafa verið býsna hraðfara en fremur þunn og því eru ummerki þeirra ógreinileg í slæmum birtuskilyrðum.

Uppfært 28.03. kl. 9:40

Í dag er gert ráð fyrir skaplegu veðri á Austfjörðum en þó verður einhver éljahraglandi viðloðandi í austlægri vindátt. Snjóathugunarmenn Veðurstofunnar byrjuðu að skoða aðstæður snemma í morgun.

Í Neskaupstað hafa ummerki sést um fleiri snjóflóð eftir að skyggni batnaði. Stórt flóð féll úr Bakkagili en það náði ekki húsum. Snjóflóð féll einnig úr Skágili og lenti utan í skógrækt og síðan á varnarkeilum og alla leið niður á varnargarðinn undir Drangagili. Úr Ytra-Tröllagili fór snjóflóð sem nær niður að varnarkeilum. Áður var vitað um snjóflóð úr Nesgili sem féll á fjölbýlishús við Víðimýri í gærmorgun og snjóflóð úr Miðstrandargili (Miðstrandarskarði) sem féll út í sjó meðfram leiðigarði innan við þéttbýlið. Einnig fór snjóflóð yfir veg í Fannardal.

Á Eskifirði hafa ekki sést snjóflóð en snjóflóð úr Hólmatindi náði út á veg utan við álverið í Reyðarfirði.

Á Seyðisfirði féll snjóflóð úr Bjólfsöxl á mannlaust hús utan við þéttbýlið, og talið er að fleiri flóð hafi fallið í Bjólfi en að þau hafi verið lítil.

Mörg þessara flóða eru frekar þunn og virðast hafa farið hratt og getur verið erfitt að sjá ummerki um þau þegar birtuskilyrði eru slæm.

Mikill snjór er til fjalla víða á svæðinu og veikleiki virðist vera útbreiddur. Rýmingar eru í gildi í Neskaupstað, á Eskifirði og Seyðisfirði. Veður ætti að haldast þokkalegt í dag og dregið hefur verulega úr snjóflóðahættu frá því í gær, en ekki er hægt að útiloka stöku snjóflóð á meðan ennþá éljar og skefur aðeins til fjalla. Á morgun bætir í úrkomu á ný með vaxandi vindi í austlægri átt. Spáð er mikilli úrkomu fram á laugardag. Heldur hlýnar og gæti orðið slydda í byggð en snjókoma til fjalla. Viðbúið er að snjóflóðahætta aukist á ný á Austfjörðum í þessu veðri.

Óvissustig á Austfjörðum og hættustig í Neskaupstað og Seyðisfirði

Uppfært 27.03. kl. 12.40

Snjóflóð féllu í morgun úr a.m.k. þremur giljum ofan byggðarinnar í Neskaupstað, sjá meðfylgjandi kort. Snjóflóð úr Miðstrandarskarði og/eða Klofagili féll skammt innan þéttbýlisins þar sem flóðið rann meðfram leiðigarði og út í sjó. Þá féll snjóflóð úr Nesgili, utarlega í bænum, á nokkur íbúðarhús við göturnar Starmýri og Hrafnsmýri, og bjargaðist fólk sem statt var í þessum húsum án alvarlegra slysa. Snjóflóð úr Bakkagili, sem er næsta gil utan við Nesgil, stöðvaðist skammt ofan byggðarinnar við Gauksmýri.

Í kjölfar flóðanna voru mörg hús rýmd undir Nes- og Bakkagiljum, og einnig atvinnuhúsnæði á snjóflóðahættusvæðum innan þéttbýlisins. Í öryggisskyni voru jafnframt öll hús í efstu húsaröðum undir varnargörðum í Neskaupstað rýmd, en það er jafnan gert í alvarlegum snjóflóðahrinum þar sem varnargarðar hafa verið reistir.

Hús voru einnig rýmd á Seyðisfirði en þaðan hafa ekki borist fréttir af snjóflóðum.

Það er spáð minnkandi úrkomu í dag og NA-átt og ætti að vera orðið úrkomulaust í kvöld. Óvíst er á þessu stigi hversu lengi rýming verður í gildi.


Grófar útlínur snjóflóðanna sem féllu í morgun miðað við upplýsingar sem liggja fyrir núna. Flóðið sem er merkt með brotalínu féll vestan við leiðigarða við Urðarteig yfir Strandgötu og í sjó fram. Þá féll snjóflóð úr Nesgili, utarlega í bænum, á nokkur íbúðarhús við göturnar Starmýri og Hrafnsmýri, og bjargaðist fólk sem statt var í þessum húsum án alvarlegra slysa. Snjóflóð úr Bakkagili stöðvaðist skammt ofan byggðarinnar við Gauksmýri. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Ekki hefur sést til hlíðarinnar milli flóðanna en líklegt er að einhver flóð hafi einnig fallið þar. Stoðvirki hafa verið reist í hluta upptakasvæða í Tröllagiljum og Drangagili en flóð kunna að hafa fallið í hlíðinni neðan stoðvirkjanna og í giljunum sjálfum þar sem ekki eru stoðvirki.

Á næstu dögum verða ummerki snjóflóða í hlíðinni könnuð til þess að afla upplýsinga um snjóflóð sem kunna að hafa fallið ofan varnargarða og kanna aðstæður í upptaksvæðum hlíðarinnar. Einnig verða könnuð ummerki snjóflóðsins sem leiðigarður innan við þéttbýlið beindi til sjávar til þess að athuga hversu hátt það rann upp á garðinn.

Fyrirhuguð uppbygging varnarvirkja fyrir byggðina undir Nes- og Bakkagiljum

Í Neskaupstað hafa verið reist varnarvirki fyrir byggðina neðan hættulegustu snjóflóðafarvega hlíðarinnar, þ.e. neðan Tröllagilja og Drangagils, og einnig neðan Urðarbotns sem er þar á milli. Varnarvirki hafa jafnframt verið hönnuð fyrir byggðina undir Nesgili og Bakkagili, þar sem snjóflóðin féllu nú, og verða þau reist á næstu árum. Undir Nesgili og Bakkagili stendur byggðin fjær fjallinu en innar í bænum. Þar þarf því stærri flóð til þess að skapa hættu í byggðinni en var áður en varnarvirki voru reist ofan þeirra svæða, sem skýrir röð framkvæmda.


Uppfært 27.03. kl. 9.20

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi fyrir Austfirði. Talsvert hefur snjóað á svæðinu í norðaustan hríðarveðri í nótt og morgun. Tvö snjóflóð féllu snemma í morgun í Neskaupstað og fór annað þeirra á íbúðarhús undir Nesgili.

Hættustigi hefur verið lýst yfir í Neskaupstað og hafa hús utarlega undir Nesgili og Bakkagili verið rýmd auk atvinnuhúsnæðis innst í bænum. Einnig var efsta húsaröð undir varnargörðum rýmd í öryggisskyni. 

Hættustigi hefur verið lýst yfir á Seyðisfirði og hafa hús verið rýmd norðan og sunnan fjarðarins. 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica