Fréttir
Fundur í tilefni af Degi vatnsins 2016.

Vel heppnaður fundur um Nýtingu og verndun vatns

Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin

6.4.2016

Húsfyllir var á morgunverðarfundi Íslensku vatnafræðinefndarinnar og Íslensku UNESCO-nefndarinnar þann 31. mars 2016, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi vatns þann 22. mars. Mikil ánægja var með fundinn þar sem fjallað var um nýtingu og verndun vatns út frá mismunandi sjónarhornum.

Sveinn Agnarsson dósent við Háskóla Íslands reið á vaðið með fyrirlestrinum Án vatns er enginn vinnandi vegur þar sem hann reifaði m.a. niðurstöður skýrslu um hagfræðilega greiningu á nýtingu vatns.

Næst kom Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sem fjallaði um Að veita vatni og kynnti þar m.a. starfsemi OR og þau margþættu verkefni sem þar fara fram með sérstakri áherslu á nytjavatnsauðlindina. Í fyrirlestri hennar komu einnig fram upplýsingar um þann mannauð sem OR hefur á að skipa varðandi veituframkvæmdir en þar er lítil nýliðun iðnaðar- og verkamanna sérstakt áhyggjuefni. Þessar upplýsingar rímuðu vel við yfirskrift alþjóðlega vatnadagsins sem var í ár “Water and Jobs”.

Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum flutti síðasta fyrirlesturinn sem nefndist Verndun og nýting vatns: Siðferðislegar spurningar en þar velti hann fyrir sér hinum ýmsu siðferðislegu spurningum sem tengjast efninu og tók Mývatn og Þingvallavatn sérstaklega fyrir sem dæmi þar sem skoða þyrfti vel alla fleti á nýtingu og verndun vatns.

Hægt er að spila upptöku af fundinum og hlusta á erindin.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica