Tíðarfar ársins 2015
Yfirlit
Tíðarfar ársins 2015 var óhagstætt lengi framan af. Veturinn var óvenju umhleypingasamur, illviðri tíð og úrkomur miklar. Oft urðu umtalsverðar samgöngutruflanir og foktjón varð í nokkrum illviðranna. Mest kvað að sunnanveðri sem gerði þann 14. mars. Síðari hluta vetrarins skánaði tíð nokkuð um landið austanvert.
Í kringum sumarmál skipti um veðurlag. Norðlægar áttir urðu nær einráðar með kulda og mjög óhagstæðri tíð um landið norðan- og austanvert. Sömuleiðis var kalt syðra en tíð þó talin skárri. Snjóa leysti seint. Heldur hlýnaði þegar á leið sumarið en tíð hélst samt óhagstæð nyrðra og eystra með miklum úrkomum; syðra var veður mun skaplegra.
Mánuðirnir september til nóvember urðu þeir hagstæðustu á árinu. Nokkuð úrkomusamt var syðra en norðaustan- og austanlands var talin hagstæð tíð. Í lok nóvember snjóaði óvenjumikið um landið suðvestanvert og varð desember heldur skakviðrasamur. Mikið illviðri gerði þann 7. til 8. og varð víða mikið foktjón. Annað illviðri gerði í lok ársins.
Árið var það kaldasta á öldinni, hingað til, en þó var hiti víðast hvar í rúmu meðallagi áranna 1961 til 1990. Árið í heild var úrkomusamt um meginhluta landsins og hefur úrkoma t.d. ekki mælst jafnmikil í Reykjavík frá árinu 2007.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 4,5 stig og er það 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Er þetta 20. árið í röð með hita yfir meðallagi. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,1 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi og á Akureyri 3,8 stig, einnig 0,6 stigum yfir meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 4,8 stig og er það í meðallagi. Á landsvísu var hitinn 0,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2005 til 2014 °C |
Reykjavík | 4,5 | 0,3 | 55 til 56 | 145 | -0,9 |
Stafholtsey | 3,2 | 20 | 27 | -0,8 | |
Bláfeldur | 4,2 | 17 | 18 | -0,9 | |
Stykkishólmur | 4,1 | 0,6 | 43 til 44 | 170 | -0,7 |
Bolungarvík | 3,3 | 0,4 | 57 | 118 | -0,7 |
Litla-Ávík | 3,3 | 17 | 20 | -0,6 | |
Bergstaðir | 3,3 | 23 | 37 | -0,5 | |
Grímsey | 3,4 | 1,0 | 27 | 141 | -0,4 |
Akureyri | 3,8 | 0,6 | 45 | 133 | -0,5 |
Grímsstaðir | 1,0 | 0,7 | 44 | 108 | -0,5 |
Miðfjarðarnes | 2,9 | 15 | 16 | -0,4 | |
Skjaldþingsstaðir | 3,6 | 15 | 21 | -0,4 | |
Egilsstaðir | 3,6 | 0,6 | 27 | 60 | -0,4 |
Dalatangi | 4,4 | 0,9 | 25 | 77 | -0,2 |
Teigarhorn | 4,4 | 0,7 | 33 til 34 | 142 | -0,3 |
Höfn í Hornafirði | 5,1 | -0,3 | |||
Fagurhólsmýri | 4,9 | 0,7 | 50 | 112 | -0,6 |
Vatnsskarðshólar | 5,1 | 0,0 | 26 | 38 | -0,9 |
Stórhöfði | 4,8 | 0,0 | 82 til 83 | 139 | -1,0 |
Árnes | 3,6 | 0,1 | 63 til 64 | 135 | -0,9 |
Hjarðarland | 3,4 | 20 | 26 | -0,9 | |
Eyrarbakki | 4,4 | 0,4 | 48 | 123 | -0,7 |
Keflavíkurflugvöllur | 4,5 | 0,5 | 43 | 63 | -1,0 |
Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey, 5,8 stig. Næsthæstur var ársmeðalhitinn 2015 á Steinum undir Eyjafjöllum, 5,7 stig. Lægstur var ársmeðalhitinn á Þverfjalli, -2,2 stig, og lægstur í byggð í Svartárkoti, 0,8 stig, en líklega 0,7 stig í Möðrudal (þar féllu mælingar niður í tæpan mánuð vegna bilunar).
Sé miðað við 1961 til 1990 var að tiltölu kaldast á Stórhöfða og í Vatnsskarðshólum en hlýjast í Grímsey. Meðaltal síðustu tíu ára er til fyrir mjög margar sjálfvirkar stöðvar og miðað við það var að tiltölu hlýjast á Dalatanga, +0,1 stig ofan meðallags, en kaldast á Gufuskálum, -1,1 stig undir meðallagi. Listi um meðalhita og útgildi á sjálfvirkum stöðvum er væntanlegt (sjá neðst).
Hæsti hiti ársins á landinu mældist á Seyðisfirði 7. september, 24,1 stig, en mest mældist frostið -28,0 stig við Kárahnjúka á jóladag, 25. desember. Sama dag mældist mest frost í byggð, -27,0 stig í Svartárkoti. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 23,4 stig á Skjaldþingsstöðum 7. september en mest frost, -20,5 stig, á Grímsstöðum á Fjöllum þann 26. desember.
Hæsti hiti í Reykjavík mældist 20,7 stig þann 25. ágúst en mest 20,5 stig á Akureyri hinn 26. júní.
Úrkoma
Úrkoma var ofan meðallags áranna 1971 til 2000 um meginhluta landsins, mest á Austfjörðum, en lítillega undir meðallagi í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum (sjá töflu).
NAFN | úrk. 2015 | hlutf. 1971-2000 | 2005-2014 | mest | úrkd. | >=1,0mm | alhvítt | alautt |
Reykjavík | 1025,1 | 124,7 | 118,5 | 29,8 | 252 | 179 | 70 | 256 |
Korpa | 1237,3 | # | 113,6 | 33,8 | 249 | 186 | 88 | 230 |
Stafholtsey | 979,3 | 129,2 | 116,1 | 35,6 | 221 | 165 | 34 | 264 |
Hjarðarfell | 1541,9 | 114,8 | # | 41,2 | 224 | 194 | 121 | 197 |
Bláfeldur | 1530,3 | # | 102,9 | 49,1 | 261 | 190 | 49 | 202 |
Stykkishólmur | 804,4 | 113,4 | 105,8 | 30,0 | 222 | 151 | # | # |
Brjánslækur | 1285,6 | 109,7 | 117,9 | 45,1 | 192 | 152 | 96 | 182 |
Lambavatn | 1050,2 | 108,1 | 116,6 | 42,8 | 211 | 159 | # | # |
Hólar í Dýrafirði | 1317,5 | 105,8 | # | 37,2 | 263 | 175 | 111 | 172 |
Litla-Ávík | 1039,4 | # | 119,5 | 82,7 | 280 | 165 | 105 | 185 |
Hlaðhamar | 554,4 | 100,6 | # | 30,3 | 239 | 126 | 37 | 242 |
Hraun á Skaga | 475,3 | 92,3 | 85,8 | 20,0 | 212 | 101 | 78 | 205 |
Bergstaðir | 405,1 | 87,1 | 87,5 | 15,8 | 187 | 94 | 108 | 214 |
Litla-Hlíð | 361,9 | 95,1 | 93,2 | 15,6 | 183 | 94 | 108 | 204 |
Skeiðsfoss | 1019,0 | 106,6 | 110,7 | 44,7 | 207 | 140 | 171 | 144 |
Tjörn | 648,8 | 127,4 | 101,8 | 25,7 | 220 | 127 | 122 | 143 |
Akureyri | 586,6 | 113,1 | 100,3 | 32,1 | 203 | 113 | 108 | 230 |
Lerkihlíð | 831,9 | 106,4 | 98,7 | 51,4 | 237 | 138 | 182 | 159 |
Mýri | 490,5 | 112,1 | 96,1 | 24,0 | 184 | 98 | 124 | 182 |
Staðarhóll | 508,3 | 79,4 | # | 18,6 | 191 | 115 | 106 | 181 |
Grímsstaðir | 406,4 | 115,8 | 97,9 | 17,7 | 205 | 106 | 143 | 168 |
Miðfjarðarnes | 637,0 | # | 97,0 | 84,9 | 209 | 118 | 8 | 223 |
Skjaldþingsstaðir | 1327,2 | # | 109,6 | 87,0 | 203 | 136 | 71 | 223 |
Dalatangi | 2112,2 | 140,9 | 131,5 | 107,7 | 279 | 183 | 87 | 236 |
Höfn í Hornafirði | 1435,9 | 107,0 | # | 57,2 | 237 | 146 | 36 | 322 |
Vatnsskarðshólar | 2042,1 | 125,5 | 122,2 | 80,2 | 270 | 212 | 67 | 241 |
Eyrarbakki | 1499,3 | 105,0 | # | 50,0 | 244 | 210 | 17 | 316 |
Hjarðarland | 1508,8 | 112,6 | 114,3 | 58,0 | 214 | 182 | 78 | 232 |
Írafoss | 2129,9 | 117,4 | 110,8 | 78,7 | 176 | 168 | 68 | 198 |
Keflavíkurflugvöllur | 1091,1 | 97,8 | 103,0 | 34,2 | 259 | 192 | 57 | 263 |
Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971-2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961-1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2005 til 2014 (liðinn áratug).
(4) Sólarhringshámarksúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.
Úrkoman í Reykjavík mældist 1025,1 mm og hefur ekki verið meiri síðan 2007. Þetta eru 25 prósent ofan meðallags áranna 1971 til 2000. Á Akureyri mældist úrkoman 586,6 mm, 13 prósentum ofan meðallags 1971 til 2000, en í meðallagi síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist úrkoman 2112,2 mm og hefur aðeins einu sinni mælst meiri á einu ári frá upphafi mælinga 1938. Það var 1950.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 179, þ.e.a.s. 31 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990, og hafa ekki verið fleiri síðan 2003 (þá 180) og hafa reyndar aðeins 5 sinnum verið fleiri en nú, flestir 190 árið 1921. Á Akureyri voru slíkir dagar 113 nú, tíu fleiri en í meðalári.
Mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri stöð mældist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 5. ágúst, 128,5 mm. Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 29,8 mm, 1. október, en mest 32,1 mm á Akureyri þann 27. ágúst.
Snjór
Veturinn 2014 til 2015 telst snjóþungur í Reykjavík, alhvítir dagar í mánuðunum desember til mars voru 17 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000 og flestir frá vetrinum 1999 til 2000. Snjóalög voru hins vegar nærri meðallagi á Akureyri. Á árinu 2015 öllu voru alhvítir dagar í Reykjavík 70, þ.e.a.s. 5 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Óvenjusnjóþungt var suðvestanlands um mánaðamótin nóvember-desember og mældist snjódýpt þá meiri en áður hefur gerst í Reykjavík í desembermánuði.
Alhvítir dagar ársins 2015 á Akureyri urðu 104 og er það 13 færri en í meðalári 1971 til 2000. Mest snjódýpt á árinu mældist 130 cm, í Skeiðsfossvirkjun 1. og 2. febrúar.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir mældust 1389,5 í Reykjavík, 121 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en aftur á móti 71 færri en að meðallagi síðustu tíu ár. Á Akureyri var árið óvenjusólrýrt, sólskinsstundirnar mældust aðeins 897,2 eða 148 færri en að meðaltali 1961 til 1990. Svo fáar sólskinsstundir hafa ekki mælst á Akureyri síðan 2002 og þar áður 1983.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1001,4 hPa og er það -4,5 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er með lægsta móti; ársmeðalþrýstingur hefur aðeins 5 sinnum orðið lægri frá upphafi samfelldra mælinga 1822.
Hæsti þrýstingur ársins mældist 1035,4 hPa á Önundarhorni 7. febrúar en lægstur á Kirkjubæjarklaustri 30. desember, 930,2 hPa. Þetta er lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 1989.
Vindhraði og vindáttir
Meðalvindhraði var sá mesti síðan 1993.
Stutt upprifjun á einstökum mánuðum
Janúar
Þótt hiti væri ofan meðallags áranna 1961 til 1990 var mánuðurinn samt kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í janúar á seinni árum. Úrkomusamt var um nær allt land en þó ekki nærri metum. Nokkuð var umhleypingasamt en þó ekki mörg stórviðri.
Febrúar
Mánuðurinn var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í febrúar á seinni árum. Úrkomusamt var um nær allt land. Umhleypingasamt var og veðurlag nokkuð stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Skaðar urðu vegna flóða í hlýindum fyrir miðjan mánuð.
Mars
Mánuðurinn var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands. Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 um land allt en undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Vesturlandi. Veðurlag var stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Fokskaðar urðu víða, sérstaklega í óvenjuhörðu sunnanveðri þann 14.
Apríl
Mjög kalt var fyrstu tvo daga mánaðarins og sömuleiðis í síðustu vikunni. Tíð var lengst af hagstæð um landið norðaustan- og austanvert en þótti síðri í öðrum landshlutum. Úrkomusamt var norðan til á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands – en úrkoma var í slöku meðallagi um landið suðvestan- og vestanvert. Mikið hret skall á á sumardaginn fyrsta og var upphaf langs kuldakafla.
Maí
Mjög kalt var á landinu í maí. Tíðarfar var óhagstætt og gróður tók lítt við sér. Mun kaldara var þó í maí 1979 og víða á landinu var ámóta kalt í maí 1982 og nú. Fyrstu tvær vikurnar voru sérlega kaldar og tíð þá erfið en síðari hluta mánaðarins var tíðin skárri og heldur hlýrra var í veðri lengst af.
Júní
Júnímánuður var kaldur miðað við hitafar það sem af er öldinni en nærri meðallagi sé miðað við tímabilið 1961 til 1990. Annars var tíðarfar óhagstætt lengst af og gróður tók seint við sér. Lítið var um illviðri í mánuðinum.
Júlí
Júlímánuður var mjög kaldur um mestallt land. Á litlu svæði um landið suðvestanvert var hann þó lítillega hlýrri en meðaltal áranna 1961 til 1990. Sólarlítið var um landið norðaustanvert og mjög dauf þurrkatíð.
Ágúst
Tíðarfar í ágúst var talið óhagstætt allvíða um landið norðan- og austanvert en annars skárra. Sérlega úrkomusamt var á norðanverðu Austurlandi, sums staðar í útsveitum norðanlands og á Ströndum; og úrkoma á fáeinum stöðvum meiri en hún hefur áður mælst í ágústmánuði. Suðvestanlands var úrkoma nærri meðallagi.
September
Tíðarfar var almennt talið hagstætt á landinu og hlýtt var í veðri. Á fáeinum stöðvum varð mánuðurinn sá hlýjasti á árinu. Úrkoma var lítillega yfir meðallagi um landið sunnanvert en víðast undir meðallagi fyrir norðan. Á fáeinum stöðvum vestan til á Norðurlandi var óvenjuþurrt.
Október
Tíð var hagstæð um meginhluta landins þótt úrkomusamt í meira lagi þætti um landið suðvestan- og sunnanvert. Hlýtt var á landinu, sérstaklega þó norðaustan- og austanlands.
Nóvember
Tíð var lengst af hagstæð. Framan af mánuðinum var hlýtt í veðri, úrkoma var þá mikil um landið sunnanvert en þurrviðrasamt nyrðra. Skammvinnt kuldakast gerði í kringum þann 20. og aftur var kalt í lok mánaðarins. Þá snjóaði óvenjumikið á höfuðborgarsvæðinu.
Desember
Tíð var umhleypinga- og úrkomusöm en hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Tvö minnisstæð illviðri gerði með töluverðu tjóni. Í því síðara (þ.30.) mældist loftþrýstingur lægri en orðið hefur á landinu í meira en 25 ár.
Skjöl fyrir árið
Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2015 (textaskjal)
Þessa grein, Tíðarfar ársins 2015, er einnig hægt að lesa eða sækja sem pdf-skjal (0,6 Mb).