Fréttir
Freysteinn Sigmundsson flytur erindi.
1 2

FUTUREVOLC og hagsmunaaðilar

Hvernig verður árangurinn hagnýttur fyrir samfélagið?

9.11.2015

FUTUREVOLC verkefnið var kynnt á fjölmennum fundi hagsmunaaðila þann 5. nóvember síðastliðinn, eins og fram kom í kynningarfrétt Veðurstofunnar í lok október.

Erlendir gestir

Af erlendum gestum sem sóttu fundinn má nefna aðila frá bresku og frönsku veðurstofunum, sem gefa út viðvaranir um öskumengunum í háloftunum þegar eldgos verða, og yfirmann í ítölsku almannavörnunum sem hefur umsjón með mati á eldfjallaáhættu í Napolí en borgin er byggð á og við eldfjöllin Campi Flegrei og Vesúvíus.

Hagsmunaaðilar

Fulltrúar íslenskra hagsmunaaðila voru m.a. frá embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunni á Suðurnesjum, almannavarnadeild RLS, almannavörnum á Suðurlandi, Vegagerðinni, Landhelgisgæslunni, ISAVIA, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu.

Umræðuefni og niðurstaða

Á fundinum kom fram mikill áhugi á verkefninu og því hvernig náinni samvinnu ólíkra aðila þessa stóra rannsóknahóps var háttað. Margvíslegar spurningar voru lagðar fyrir þáttakendur og eins ræddu hagsmunaaðilar saman í hópum og kynntu sín sjónarmið.

Fundarmenn voru sammála um að verkefnið sannaði gildi þess að stórir rannsóknahópar ynnu sameiginlega að rannsóknum og vöktun á eldvirkum svæðum og gildi þess að aðilar frá almannavörnum væru virkir þátttakendur í slíkum rannsóknarverkefnum alveg frá upphafi.

Þá var rætt hvernig vísindamenn FUTUREVOLC verkefnisins hafa hannað aðferðir til að meta þróun kvikuhreyfinga neðanjarðar en þeir hafa sýnt fram á að það sé mikilvægur liður í því að geta sagt fyrir um eldgos. Hagsmunaaðilar spurðu m.a. hvort hægt væri að bæta viðvaranir um yfirvofandi eldgos og eins hvort bæta mætti mat á því hvernig eldgosavirkni þróast eftir að gos er hafið.

Að öllu þessu er stefnt með þeirri samþættingu gagna, bæði rannsókna og vöktunar, sem FUTUREVOLC stuðlar að.

Vefhandbók íslenskra eldfjalla

Eins og kom fram í kynningarfréttinni, var ekki aðeins rætt um hagnýtingu FUTUREVOLC fyrir samfélagið, heldur einnig lagðar fram margvíslegar upplýsingar um eldgos og eldfjallavá, en dagskrána má lesa í frétt á vef verkefnisins. Flutt voru þrjú erindi frá Veðurstofunni, þrjú frá Jarðvísindastofnun Háskólans, eitt frá Almannavarnadeild RLS og fimm erindi erlendis frá.

Eitt erindanna kynnti nýopnaða vefhandbók íslenskra eldfjalla eða Catalogue of Icelandic Volcanoes sem styrkt er af Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO. Flytjandi var íslenskur eldfjallafræðingur, Evgenia Ilyinskaya fyrrum starfsmaður Veðurstofunnar, en hún hefur verkstýrt vinnu við gerð handbókarinnar frá upphafi. Evgenia starfar nú við háskólann í Leeds. Gerð handbókarinnar er leidd af Veðurstofunni og unnin í samstarfi við Jarðvísindastofnun Háskólans og Almannavarnadeild RLS. Vefhandbókin byggist á jarðfræðirannsóknum og kortlagningum fjölda íslenskra jarðvísindamanna og -kvenna.

Í vefhandbókinni eru tekin saman ógrynni upplýsinga um öll íslensk eldfjöll og tenglar eru á ítarefni og gagnaraðir sem þeim tengjast. Efnið er sett þannig fram að notandinn geti vel afmarkað hvaða upplýsingar skal sækja og hversu djúpt skal leita. Þannig standa vonir til þess að vefhandbók íslenskra eldfjalla nýtist jafnt almenningi, hagsmunaaðilum, nemendum og fræðasamfélaginu.

""

Ljósmyndir

Myndir í meginmáli sýna umræður gesta og spurningar. Þær tók Sigurlaug Gunnlaugsdóttir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica