Verðlaunahafar á Degi íslenskrar náttúru
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti í dag þáttaröðinni „Lífríkið í sjónum við Ísland“ eftir þá Erlend Bogason og Pétur Halldórsson Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Við sama tækifæri veitti hún Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en hana hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum.
Handhöfum voru veitt verðlaun sín og viðurkenningar í sal Veðurstofu Íslands á Bústaðavegi 7 með viðhöfn og að viðstöddu fjölmenni á Degi íslenskrar náttúru (sjá upptöku af athöfninni).
Í frétt á vef ráðuneytisins má lesa rökstuðning dómnefndar og rökstuðning ráðherra.