Tíðarfar í mars 2015
Stutt yfirlit
Mánuðurinn var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands. Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 um land allt, en undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Vesturlandi. Veðurlag var stórgert og meðalvindhraði óvenjuhár. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Fokskaðar urðu víða, sérstaklega í óvenjuhörðu sunnanveðri þann 14.
Norðurljósavirkni var mikil, einkum 17. mars 2015, eins og sést á nokkrum myndum frá Oddi Sigurðssyni.
Hiti
Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +0,7 stig, +0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +1,1 stig, +2,3 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990 og +0,6 yfir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu:
stöð | hiti °C | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2005-2014 |
Reykjavík | 0,7 | 0,3 | 63 | 145 | -1,0 |
Stykkishólmur | 0,6 | 1,4 | 43 | 170 | -0,3 |
Bolungarvík | 0,0 | 1,6 | 37 | 118 | 0,1 |
Grímsey | 0,6 | 2,4 | 24 | 142 | 0,7 |
Akureyri | 1,1 | 2,3 | 26 til 27 | 134 | 0,6 |
Egilsstaðir | 0,7 | 2,2 | 19 | 61 | 0,8 |
Dalatangi | 2,2 | 2,2 | 20 | 77 | 0,8 |
Teigarhorn | 1,9 | 1,5 | 36 | 143 | 0,4 |
Höfn í Hornafirði | 2,4 | 1,3 | 0,0 | ||
Stórhöfði | 1,9 | 0,2 | 64 | 139 | -0,8 |
Hveravellir | -4,9 | 1,1 | 18 | 51 | -0,6 |
Árnes | -0,4 | 0,3 | 55 | 136 | -0,9 |
Að tiltölu var hlýjast um landið norðaustan- og austanvert en kaldast við suður- og suðvesturströndina. Að tiltölu var hlýjast í Ásbyrgi, hiti var þar +0,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu var við Skarðsfjöruvita og í Laufbala þar sem hiti var -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, +3,0 stig, en lægstur á Þverfjalli og Brúarjökli, -5,9 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, -2,9 stig.
Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 16 daga mánaðarins.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,5°C í Neskaupstað þann 21. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Sauðanesvita þann 14., 15,1 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -21,2 stig á Brúarjökli þann 2. Lægsti hiti í byggð mældist -17,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -14,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum – einnig þann 3.
Eitt landsdægurhámark féll í mánuðinum þegar hiti fór í 16,5 stig í Neskaupstað þ. 21. Gamla metið, 15,4 stig var sett á Hvanneyri 2005.
Úrkoma
Úrkomusamt var í mánuðinum um mikinn hluta landsins – en þó var úrkoma undir meðallagi víða á Norður- og Norðausturlandi.
Úrkoma í Reykjavík mældist 137,3 mm og er það nærri 70 prósent umfram meðallag og mesta úrkoma sem mælst hefur í mars frá árinu 2000. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 131,9 mm. Það er 80 prósent umfram meðallag og það mesta í mars frá 1974. Á Akureyri mældist úrkoman 30,1 mm og er það um 30 prósent undir meðallagi. Þetta er minnsta úrkoma í mars á Akureyri síðan 2005 en var ámóta lítil í mars 2012. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 240,0 mm.
Úrkoma var meiri en áður hefur mælst í mars við Korpu, í Bolungarvík, á Gilsá í Breiðdal og Stafafelli í Lóni.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 24 í Reykjavík, 10 fleiri en í meðalári og hafa ekki verið fleiri í mars síðan 1961, jafnmargir þó 1976. Á Akureyri voru slíkir dagar 10 og er það í meðallagi.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 118,5 og er það 7 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, og 10 stundum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 89,3 og er það 12 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.
Snjólag
Snjór var lengst af ekki mikill að magni til en samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14, það er 2 dögum fleiri en að meðaltali í mars á árunum 1971 til 2000. Aðeins var alhvítt í 9 daga á Akureyri, 10 dögum færri en í meðalmars.
Vindhraði og loftþrýstingur
Meðalvindhraði var óvenjumikill, 0,9 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði í mars frá árinu 2000 að telja.
Vindáttir voru óstöðugar, suðlægar áttir þó ríkjandi frá 4. og fram til 22. Mjög stormasamt var fram yfir þann 20. Sunnanveðrið þann 14. var sýnu verst. Fárviðri mældist þá á mörgum stöðvum í byggð en það er óvenjulegt. Í veðrunum þann 4., 6., 10. og 13. var áttin af suðaustri eða suðri en vestlægari í veðrinu þann 16. Talsvert tjón varð í þessum veðrum, langmest þó í veðrinu þ.14., og ollu þau einnig samgöngutruflunum.
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 995,7 hPa og er það -7,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er lægsti meðalþrýstingur í mars síðan 2007, þá var hann jafnlágur. Lægstur mældist þrýstingurinn á Rauðanúpi þann 6., 953,9 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1033,1 hPa á Fonti þann 20.
Veturinn desember 2014 til mars 2015
Veturinn (desember - mars) var svalur miðað við undanfarin ár, sérstaklega á Suður- og Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi var hann á svipuðu róli og á árunum 2008 til 2011. Auk þess var hann bæði vinda- og úrkomusamur. Tíð taldist óhagstæð um mikinn hluta landsins en var þó langskárst á Norðaustur- og Austurlandi.
Meðalhiti
Meðalhiti í Reykjavík var -0,1 stig og er það -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Er þetta lægsti vetrarmeðalhiti í Reykjavík frá aldamótum, lítillega kaldara var veturinn 1999 til 2000. Á Akureyri var meðalhitinn -0,6 stig, +0,8 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990 en -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu. Aldrei hefur jafnlitlu munað á meðalhita vetrarins í Grímsey og í Vestmannaeyjum (samanburður nær aftur til ársins 1878) og ekki jafnlitlu á vetrarhita í Reykjavík og Akureyri síðan 1925 (samanburður aftur til 1882).
Meðalhiti vetrarins, desember 2014 til mars 2015, ásamt vikum frá meðallagi
stöð | vetur | mhiti | kaldast síðan | röð | af | vik 1961-1990 | vik 2005 til 2014 |
Reykjavík | 14/15 | -0,1 | 2000 | 76 til 77 | 145 | -0,1 | -1,4 |
Stykkishólmur | 14/15 | -0,1 | 2002 | 47 | 170 | 0,8 | -0,8 |
Bolungarvík | 14/15 | -0,7 | 2002 | 51 | 118 | 0,5 | -0,8 |
Grímsey | 14/15 | 0,3 | 2009 | 24 til 25 | 141 | 1,5 | -0,3 |
Akureyri | 14/15 | -0,6 | 2010 | 34 | 135 | 1,2 | -0,6 |
Egilsstaðir | 14/15 | -0,8 | 2011 | 19 | 61 | 1,2 | -0,3 |
Teigarhorn | 14/15 | 0,9 | 2008 | 40 | 142 | 0,8 | -0,5 |
Stórhöfði | 14/15 | 1,2 | 1995 | 84 | 138 | -0,5 | -0,6 |
Úrkoma
Veturinn var mjög úrkomusamur á landinu. Í Reykjavík mældist úrkoman 467,8 mm sem er 53 prósent umfram meðallag. Hún var lítillega meiri veturinn 2011 til 2012. Úrkoman í Stykkishólmi var 78 prósent umfram meðallag, sú mesta síðan 1992, og 68 prósent umfram á Akureyri - enn meiri úrkoma mældist á Akureyri veturinn 2013 til 2014.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri urðu 77 í Reykjavík, 23 fleiri en í meðalári. Snjór var í meira lagi um landið sunnanvert. Alhvítir dagar voru 70 í Reykjavík, 17 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Ámóta margir dagar voru alhvítir veturinn 2011 til 2012, en annars hafa alhvítir dagar ekki verið jafnmargir í Reykjavík í mánuðunum desember til mars síðan árið 2000, þá voru þeir 88. Á Akureyri var alhvítt í 81 dag og er það í meðallagi. Snjómagn í Reykjavík var um 70 prósent umfram meðallag, en var ívið meira veturinn 2011 til 2012 heldur en nú.
Sólskinsstundir, vindhraði og loftþrýstingur
Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík var lítillega undir meðallagi en lítillega ofan þess á Akureyri.
Loftþrýstingur var lágur, 993,2 hPa að meðaltali í Reykjavík. Það er -6,8 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur vetrarins í fyrra, 2013 til 2014, var þó enn lægri.
Meðalvindhraði vetrarins á mönnuðum stöðvum var 7,1 m/s. Það er það mesta frá vetrinum 1992 til 1993 að telja. Ámóta vindhraði mældist þó einnig veturinn 1994 til 1995.
Skjöl fyrir mars
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2015 (textaskjal)
Þessa grein, Tíðarfar í mars 2015, er einnig hægt að sækja sem pdf-skjal (0,3 Mb).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.