Alþjóðlegi veðurdagurinn 2015
Alvarlegar loftslagsbreytingar
Nýliðið ár, 2014, var líklega það hlýjasta í að minnsta kosti 165 ár. Á listanum yfir 10 hlýjustu árin er einungis eitt frá síðustu öld, árið 1998. Það ár stóð yfir öflugasti El Nino atburður sem vitað er um, með þeim afleiðingum að yfirborðssjór í hitabeltinu í Kyrrahafi varð óvenjuhlýr. Hlýindi ársins 2014 verða hins vegar ekki rakin til hlýsjávar í Kyrrahafinu, því þar var sjávarhiti nærri því sem tíðkast í meðalári.
Vísindamenn eru almennt sammála um að hlýindi síðustu áratuga megi rekja til aukinna gróðurhúsaáhrifa, sem stafa að stórum hluta af bruna jarðefnaeldsneytis. Verði ekki dregið verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis er viðbúið að jörðin haldi áfram að hlýna.
Ýmis rök eru fyrir því að hlýnun jarðar hafi nú þegar áhrif á veðrakerfi. Í yfirlýsingu í tilefni Alþjóðlega veðurdagsins hinn 23. mars 2015 benti Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (Sþ), á að aftakaveður og svæðisbundnar breytingar á loftslagi hefðu nú þegar áhrif á velferð mannkyns:
„Á síðustu þremur áratugum hafa flóð, ágangur sjávar, þurrkar og gróðureldar valdið miklum mannskaða og efnahagslegu tjóni. Eyðileggingin sem fylgdi fellibylnum Pam á Vanuatu og víðar í Eyjaálfu er einungis síðasta dæmið um það tjón sem fylgt getur aftakaveðri,“ segir í yfirlýsingu hans.
Þrátt fyrir að óumdeilt sé að tjón vegna aftakaveðra fari vaxandi er ekki auðvelt að aðskilja áhrif versnandi veðurlags og breyttra búsetuhátta. Hagvöxtur og fólksfjölgun á strandsvæðum getur t.d. aukið áhættu hvað varðar efnahagstjón og mannskaða, jafnvel þó að tíðni aftakaveðra sé óbreytt. Tilfellið er þó að tjón vegna hamfara tengdum veðri og vatni hafa á liðnum áratugum aukist meira en tjón vegna annarra náttúruhamfara.
Þótt ekki sé ljóst hvort þetta sýni að hlýnun jarðar sé nú þegar farin að hafa áhrif á tíðni aftakaatburða, ætti að valda áhyggjum hversu illa þjóðfélög víða um heim ráða við ríkjandi tíðni aftakaveðra. Þannig segir í skýrslu Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsbreytingar (IPCC) frá árinu 2014 að áhrif aftakaveðra á umliðnum árum bendi til þess að sum vistkerfi og mörg félagsleg kerfi séu berskjölduð og viðkvæm gagnvart núverandi breytileika í veðurfari.
Í sömu skýrslu kemur fram að þótt það sé mismunandi hversu berskjölduð þjóðfélög og hópar eru, sé almenna reglan sú að hópar sem eru illa settir félagslega eða efnahagslega, eða búa við ótryggt stjórnarfar og slaka innviði, eru sérstaklega viðkvæmir fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og hafa takmarkaða getu til aðlögunar eða annarra viðbragða. Niðurstaðan er sú að loftslagstengd náttúruvá eykur annað álag og hefur oft neikvæð áhrif á lífsbjargir, sérstaklega fyrir fátækari hópa.
Á Alþjóðaveðurdeginum þann 23. mars gaf Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) út yfirlýsingu (skýrslu) um ástand veðurs í heiminum árið 2014. Michel Jarraud, aðalritari WMO, benti af þessu tilefni á að þekking á eðli loftslagsbreytinga væri þegar nægilega mikil til að hægt væri að halda verstu afleiðingunum í skefjum. Kostnaður þess að aðhafast ekkert væri hár og myndi aukast í framtíðinni: „Við verðum að horfast í augu við ábyrgð okkar gagnvart ófæddum kynslóðum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda áður en það verður of seint.“
Helstu atriði í skýrslu WMO
Árið 2014 var meðalhiti jarðar 0,57 stigum yfir meðaltali áranna 1961–1990. Methiti var á árinu í 19 Evrópulöndum. Merkjanlega hlýtt var einnig í vestanverðri N-Ameríku ásamt Alaska, austanverðri Evrasíu, megninu af Afríku, stórum hluta af S-Ameríku og V-Ástralíu, en á stórum svæðum í Bandaríkjunum og Kanada var kaldara en í meðalári.
Fyrir hnöttinn í heild var meðalúrkoma nærri langtímameðaltali, sem er 1033 mm. Þurrkur ríkti í suðvesturríkjum Bandaríkjanna, norðaustur Kína, Austur-Brasilíu, auk landa í Mið-Ameríku. Flóð á Balkanskaga í maí og júní höfðu áhrif í Serbíu, Bosníu-Herzegovínu og Króatíu. Aftakaúrkoma olli flóðum í Bangladesh, Pakistan og á Indlandi í ágúst og september og á Sri Lanka í desember. Í Afríku áttu flóð sér stað í Marokkó, Mósambík, Suður-Afríku, Keníu, Eþíópíu, Sómalíu og Tansaníu. Flóð á vatnasviði Paranaárinnar höfðu áhrif í Paragvæ, Argentínu og Brasilíu.
Náttúrulegur breytileiki getur valdið aftakaveðrum sem þessum en há tíðni flóða víða um heiminn er í samræmi við það sem búast má við í hlýrri heimi þar sem hringrás vatnsins er orðin hraðari.
Hafísþekja hefur veruleg áhrif á loftslag nærri heimskautasvæðum. Hafís hefur áhrif á streymi hita og raka milli pólsjávar og lofthjúpsins, auk þess sem hann speglar geislum sólar og hefur þar með áhrif á það hversu mikið sólin hitar yfirborð jarðar. Lágmarksútbreiðsla hafíss á norðurhveli átti sér stað þann 17. september og var 5,02 milljón ferkílómetrar, sem er sjötta lægsta lágmarksstaðan síðan samfelldar mælingar hófust. Umhverfis Suðurskautslandið var hafísútbreiðslan nærri hámarki mest allt árið og náði metúbreiðslu þriðja árið í röð. Verið er að skoða tvær líklegar orsakir þessa, annars vegar styrkingu vestanátta – og hins vegar lækkandi seltu í yfirborðssjó umhverfis Suðurskautslandið. Það síðarnefnda stafar af bráðnun á íshellum Suðurskautslandsins.
Á Grænlandsjökli var yfirborðsbráðnun yfir meðaltali áranna 1981–2010 í júní til ágúst. Sumarið var það hlýjasta sem mælst hefur við Kangerlussuaq á Vestur-Grænlandi, en þar er yfirborðsbráðnunin hvað mest.
78 hitabeltislægðir mynduðust á árinu. Þetta er minna en árið 2013 (þá mynduðust 94 lægðir) og undir meðaltali áranna 1981-2010 (sem er 89) en meira en árið 2010 en það ár mynduðust 67 fellibylir, og var það lágmarksfjöldi frá því að eftirlit með gervihnöttum hófst.
Höfundur: Halldór Björnsson
Eldra efni
Efni á vef Veðurstofunnar um alþjóðlega veðurdaginn: