Fréttir

Um óvissustig og hættustig

Hugtök er varða náttúruvá

4.3.2015

Nú er aukin snjóflóðahætta víða um landið og spár um snjóflóðahættu mikið lesnar ásamt mati ofanflóðavaktar á snjóflóðaaðstæðum. Því er þörf á að skýra enn og aftur muninn á óvissustigi og hættustigi vegna snjóflóðahættu:

Óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggðinni heldur að hætta geti skapast. Óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði áður en ákvarðanir eru teknar um aðgerðir svo sem rýmingu húsnæðis. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.

Óvissustig er samræmt hugtak sem notað er af almannavörnum í viðbúnaði við náttúruvá, jafnt fyrir snjóflóð, sjávarflóð, storma og annað sem getur skapað fólki hættu eða valdið eignatjóni.

Hættustig er næsta stig viðbúnaðar. Fyrir þéttbýli felur hættustig í sér rýmingu húsnæðis á ákveðnum reitum sem skilgreindir hafa verið í rýmingaráætlun. Í dreifbýli eru oftast rýmd einstök hús.

Snjóflóðaspár

Auk viðbúnaðar vegna snjóflóðahættu í byggð hóf Veðurstofan fyrir tveimur árum að gefa út reglubundnar snjóflóðaspár fyrir óbyggð og fjalllendi á stórum svæðum (sjá grein).

Í svæðisspánum, sem einkum eru hugsaðar með ferðalanga í huga, er snjóflóðahætta skilgreind í fimm stigum eftir aðþjóðlegri skilgreiningu fyrir slíkar spár. Umtalsverð snjóflóðahætta samkvæmt svæðisspá þarf ekki að fela í sér hættu á snjóflóðum í byggð á viðkomandi svæði.

Dæmi af snjóflóðaforsíðu. Gildir fyrir stór landssvæði og þarf því ekki að vera lýsandi fyrir byggð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica