Fréttir
Regnbogi við Elliðaey 14. júlí 2014.

Tíðarfar ársins 2014

Stutt yfirlit

26.1.2015

Árið 2014 einkenndist af miklum hlýindum meginhluta ársins en víða var mjög úrkomusamt og sumarið sólarrýrt.

Óvenjuhlýtt var á landinu öllu. Við norðurströndina og víða austanlands er árið það hlýjasta frá upphafi mælinga, þar á meðal bæði í Grímsey og á Teigarhorni þar sem mælt hefur verið samfellt að kalla frá 1874 og 1872. Í flestum öðrum landshlutum var það næsthlýjasta eða þriðjahlýjasta ár sem þekkt er. Kaldast að tiltölu var það á Vestfjörðum þar sem það verður nálægt því að verða hið 5. hlýjasta. Sumarið var óvenjuhlýtt, sérstaklega á landinu norðaustanverðu þar sem það var sums staðar það hlýjasta frá upphafi mælinga.

Þrátt fyrir hlýindin þótti tíðarfar nokkuð blendið. Fyrstu mánuðir ársins voru sérlega úrkomusamir um landið austan- og norðaustanvert og var tíð þar þá erfið á köflum. Vestanlands var á sama tíma þurrt og hagstætt tíðarfar lengst af. Sumarið var hlýtt og hagstætt norðanlands og austan en lengst af votviðrasamt og sólarlítið syðra. Haustið var hagstætt en árið endaði með umhleypingasömum og fremur köldum desember.

Hiti

Árið var mjög hlýtt, á bilinu 1,5 til 2,6 stig yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var kaldast á Stórhöfða (hiti 1,4 stigum yfir meðallagi) en hlýjast í Grímsey (hiti 2,6 stigum ofan meðallags).

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig, það er 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990. Þetta er 19. árið í röð með hita ofan þess meðallags. Einnig var hlýtt miðað við hin seinni ár því ársmeðaltalið er 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Árið var hið næsthlýjasta í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, árið 2003 var lítillega hlýrra. Á Akureyri mældist meðalhitinn 5,3 stig, 2,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er einnig næsthlýjast ára á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga 1881, hlýrra var 1933.

Hitavik
""
Hiti var nánast óslitið langt yfir meðallagi þar til í október. Reykjavík bláar súlur, Akureyri rauðar. Nóvember var einnig með afbrigðum hlýr en desember mun kaldari og varð kaldasti mánuður ársins að tiltölu.

Ársmeðalhiti á fáeinum veðurstöðvum ásamt vikum og röðun frá hlýjasta ári.

stöð hiti vik 1961 til 1990 röð af vik 2004 til 2013
Reykjavík 6,0 1,7 2 144 0,6
Stykkishólmur 5,3 1,8 3 169 0,6
Bolungarvík 4,7 1,7 5 117 0,7
Bergstaðir 4,7 2 37 0,9
Grímsey 4,9 1 141 1,3
Akureyri 5,3 2,1 2 133 1,0
Grímsstaðir 2,8 2,3 1 108 1,3
Egilsstaðir 5,1 2,2 1 60 1,3
Dalatangi 5,3 1,9 1 76 0,7
Teigarhorn 5,8 2,1 1 142 1,1
Höfn í Hornafirði 6,5 1,9 1,2
Fagurhólsmýri 6,4 1,8 1 112 0,9
Stórhöfði 6,2 1,4 2 138 0,4
Hveravellir  0,9 1,9 2 50 0,6
Árnes 5,3 1,7 2 134 0,7
Eyrarbakki 5,6 1,5 3 123 0,4

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey, 7,2 stig, en lægstur á Brúarjökli, -1,3 stig. Lægsti ársmeðalhiti í byggð mældist í Svartárkoti, 2,2 stig. Hæstur ársmeðalhiti á vegagerðarstöð mældist á Steinum, 7,2 stig, en lægstur á Steingrímsfjarðarheiði 1,0 stig.

Hitinn í Surtsey er hæsti ársmeðalhiti sem mælst hefur á landinu, var 7,1 stig þar 2010. Ámótatölur hafa sést á vegagerðarstöðvunum í Steinum og í Hvammi undir Eyjafjöllum en þær mælingar hafa enn ekki verið rýndar að fullu.

Á mönnuðu stöðvunum mældist ársmeðalhitinn hæstur á Vatnsskarðshólum, 6,5 stig.

Hæsti hiti ársins mældist 23,3 stig á Húsavík þann 23. júlí. Hámarkshiti ársins á landinu öllu hefur ekki verið jafnlágur síðan 2001. Hæsti hiti ársins á mannaðri veðurstöð mældist 22,6 stig á Skjaldþingsstöðum þann 14. september. Hæsti hiti á vegagerðarstöð mældist 22,2 stig, í Hvammi undir Eyjafjöllum 29. júlí og við Markarfljót 11. ágúst.

Lægsti hiti ársins mældist -28,9 stig í Svartárkoti þann 19. febrúar. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -21,6 á Grímsstöðum á Fjöllum þann 18. mars. Lægsta lágmark á vegagerðarstöð mældist -22,1 stig á Fljótsheiði þann 18. febrúar.

Staða ársins á hlýindalista

Fyrir áhugasama má lesa grein þar sem hlýindi ársins 2014 eru skoðuð á fjölda veðurstöðva.

Einnig er hér birt kort (stækkanlegt) sem sýnir stöðu ársins 2014 á hlýindalista nokkurra veðurstöðva en taka ber fram þetta eru bráðabirgðaniðurstöður. Hverri stöð fylgir lítið fylki upplýsinga, sjá skýringar :

Feitletruð tala er sæti ársins á hlýindalista viðkomandi stöðvar (t.d. er árið 2014 nr. 1 á hlýindalista fyrir Grímsey). Tveggja til þriggja stafa tala er fjöldi ára í listanum á hverjum stað (til dæmis 141 ár veðurmælinga í Grímsey). Ef ártal fylgir, er það hlýjasta árið (1941 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum).

Tugabrot sýna vik í °C frá áður hlýjasta ári og þar er rautt letur til marks um það hversu miklu hlýrra árið 2014 var (heldur en áður hlýjasta ár) og blátt letur til marks um það sem árið 2014 vantar upp á til að ná áður hlýjasta ári.


Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land. Í Reykjavík mældist hún 963,1 mm og er það um 20 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 678,8 mm, eða rétt í tæpu meðallagi. Úrkoman var sérlega mikil norðaustan- og austanlands, á Akureyri mældist hún 743,7 mm, eða 50 prósent umfram meðallag. Árið er það úrkomumesta þar frá upphafi mælinga, 1928 (úrkoman var þó aðeins fáum mm minni árið 1989).

Úrkomuvik
""
Óvenjuþurrt var í Reykjavík í febrúar (bláar súlur) en annars var úrkoman oft langt ofan meðallags. Sérstaklega var mikil úrkoma á Akureyri í febrúar, mars, júlí og desember (rauðar súlur) en í júní, júlí og september í Reykjavík.

Á Dalatanga var úrkoman 2069,6 mm, sömuleiðis nærri 50 prósent umfram meðallag og sú næstmesta frá upphafi mælinga þar, 1938. Meiri úrkoma mældist á Dalatanga árið 1950 og árið 2011 var úrkoman nærri því eins mikil og nú. Á Grímsstöðum á Fjöllum mældist ársúrkoman 514,8 mm og hefur aðeins tvisvar sinnum mælst meiri á ári en nú. Það var árin 1961 og 1943. Árið 2012 var hún nánast sú sama og nú. Úrkomu á fleiri stöðvum má sjá í töflu.  

Nafn úrk. 2014 hlutf. 6190 hlutf. 2004-2014 hám. úrkd. úrkd. >= 1 mm
Reykjavík 963,1 1,21 1,12 37,6 223 160
Stafholtsey 829,4 0,97 28,0 182 144
Bláfeldur 1460,7 0,97 32,0 272 195
Stykkishólmur 678,8 0,96 0,87 20,0 218 136
Litla-Ávík 835,0 0,96 34,1 267 164
Bergstaðir 458,2 0,98 22,6 177 92
Sauðanesviti 1017,5 1,15 28,2 239 158
Akureyri 743,7 1,52 1,33 23,0 225 133
Grímsstaðir 514,8 1,46 1,28 22,5 228 133
Miðfjarðarnes 765,0 1,20 36,4 233 130
Skjaldþingsstaðir 1980,1 1,79 115,6 237 162
Dalatangi 2069,6 1,47 1,32 72,6 275 189
Höfn í Hornafirði 2060,9 1,62 57,4 253 189
Vatnsskarðshólar 1851,9 1,19 1,11 58,9 270 213
Eyrarbakki 1486,1 1,08 0,87 50,0 234 200
Hjarðarland 1203,8 0,89 35,7 198 158
Keflavíkurflugvöllur 1130,6 1,05 1,05 43,6 249 172

Taflan sýnir heildarúrkomu ársins á nokkrum veðurstöðvum ásamt hlutfalli af meðalúrkomu tímabilanna 1961 til 1990 og 2004 til 2013. Einnig er sýnd mesta sólarhringsúrkoma ársins og úrkomudagafjöldi (úrkoma >= 0,1 mm og úrkoma >= 1,0 mm).


Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 160 í Reykjavik, 12 fleiri en að meðaltali á árunum 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar 133, 30 fleiri en að meðaltali, og hafa aldrei verið jafnmargir eða fleiri frá upphafi athugana.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri stöð mældist á Hánefsstöðum í Seyðisfirði þann 13. nóvember, 164,2 mm.  Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík þann 31. ágúst, 37,6 mm, en mest 23,0 mm á Akureyri þann 5. desember.

Snjór

Veturinn 2013 til 2014 telst snjóléttur í Reykjavík. Alhvítir dagar voru þá 42 (þar af 22 í desember). Er það 23 dögum undir meðaltali áranna 1971 til 2000. Eftir áramót voru snjóhvítir dagar til vors aðeins 14, 26 dögum færri en í meðalári. Alautt var í nóvember en tvisvar alhvítt í október og 25 daga í desember en það er með mesta móti í þeim mánuði. Alhvítir dagar ársins urðu 41 og er það 24 dögum færri en í meðalári.

Á Akureyri var snjóþungt veturinn 2013 til 2014. Alhvítir dagar voru 139 og er það 21 degi fleiri en að meðaltali 1971 til 1990. Desember 2014 var einnig snjóþungur. Alls voru alhvítu dagarnir á árinu 2014 133 og er það 16 dögum yfir meðallagi.

Mesta snjódýpt ársins mældist 165 cm við Skeiðsfossvirkjun 22. og 23. mars.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust færri en verið hefur undanfarin ár, bæði í Reykjavik og á Akureyri. Voru sólskinsstundirnar um 100 færri en að meðallagi 1961 til 1990 á báðum stöðum og rúmlega 200 færri en að meðaltali síðustu 10 árin. Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 1168,3 og hafa ekki mælst jafnfáar síðan 1993 – en þá voru þær nánast jafnmargar og nú – en aftur á móti mun færri 1992. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 944,9 og hafa ekki verið jafnfáar síðan 2002 en langt frá meti eins og í Reykjavík.

Sólskinsstundavik
""
Sólskinsstundafjöldi var lengst af undir meðallagi bæði í Reykjavík (bláar súlur) og á Akureyri (rauðar súlur). Sumarið var sólskinsrýrt lengst af – sól skein langmest í ágúst.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,7 hPa og er það 4,2 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er með lægra móti, en meðalþrýstingur ársins 2011 var þó enn lægri en nú.

Hæsti þrýstingur ársins mældist 1033,6 hPa á Egilsstaðaflugvelli þann 29. mars en lægstur mældist hann á Gufuskálum þann 9. desember, 948,1 hPa.

Þrýstivik
""
Bláar súlur sýna vik hvers mánaðar 2014 en stærstu vik sem vitað er um í hverjum mánuði á tímabilinu 1823 til 2014 eru einnig á myndinni (stærstu jákvæðu vikin eru grænmerkt en þau neikvæðu eru rauð). Þrýstingur var lengst af undir meðallagi og var sérlega lágur í janúar og febrúar - en þó langt frá metum. Þrýstingur í júní var óvenjuhár.

Vindhraði

Vindhraði var í meðallagi á árinu í heild, talsvert meiri en að meðallagi í febrúar og desember, en langhægastur að tiltölu í júní.

Vindhraðavik
""
Vindhraðavik allra veðurstöðva einstaka mánuði ársins 2013. Að tiltölu var hægviðrasamast í júní.

Vindáttir

Allar vindathuganir á skeytastöðvum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðameðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra áranna 1961 til 1990. Austlægar og norðlægar vindáttir voru sérlega algengar í janúar og febrúar og var austanþátturinn sá öflugasti í þessum mánuðum, að minnsta kosti frá því um 1950. Sama má segja um norðanþáttinn í febrúar. Sunnanþátturinn var hins vegar með allra sterkasta móti í september.

Vigurvindvik
""
Vigurvik ársins 2014 (austan- og norðanþættir jákvæðir). Mikil norðan- og austanátt var ríkjandi í janúar og febrúar. Sunnanátt var sérlega þrálát í september.

Stutt upprifjun á einstökum mánuðum

Janúar

Janúar var nokkuð vindasamur, úrkoma mikil austanlands en um landið vestan- og norðvestanvert var tíð í þurrara lagi. Mánuðurinn var óvenjuhlýr, sérstaklega um landið austanvert þar sem hann var sums staðar sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga.

Febrúar

Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í febrúar. Sérlega þurrt var um landið vestanvert, allt norður fyrir Breiðafjörð, og sömuleiðis inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Á þessu svæði var febrúar hinn þurrasti um áratugaskeið. Úrkoma var hins vegar með mesta móti nyrst á Vestfjörðum og á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýtt var í veðri og þótti tíð suðvestanlands góð en víða var þó kvartað undan næðingum og þrálátum svellum á jörð. Gæftir þóttu ekki góðar. Óvenjumikill snjór var víða til fjalla á Vestfjörðum norðanverðum og á Norðaustur- og Austurlandi og truflaði þar samgöngur. Við sjávarsíðuna var hins vegar snjólétt. Óvenjusnjólétt var vestan- og suðvestanlands.

Mars

Mars var umhleypinga- og úrkomusamur um meginhluta landsins, sérstaklega þó norðaustan- og austanlands þar sem einnig var töluverður snjór og mikill inn til landins. Snjórinn olli samgöngutruflunum á þeim slóðum. Snjólétt var vestanlands og -sunnan og samgöngur greiðar. Lengst af var hlýtt í veðri, sérstaklega austanlands.

Apríl

Aprílmánuður var hlýr og telst hagstæður víðast hvar. Lengst af var þurrt í veðri norðaustanlands en á Austfjörðum var úrkoma nokkuð yfir meðallagi. Í öðrum landshlutum var úrkoma í kringum meðallag eða lítillega undir því.

Maí

Tíðarfar í maí var hagstætt á landinu og vorgróður tók vel við sér. Hiti var vel ofan við meðallag víðast hvar. Úrkoma var yfir meðallagi á Suður- og Austurlandi en í því eða undir víða um norðvestan- og norðanvert landið.

Júní

Júnímánuður var sérlega hlýr á landinu, einhver sá hlýjasti sem komið hefur síðan mælingar hófust. Víðast hvar um suðvestanvert landið – og víða vestan- og sunnanlands – var hann einnig í hópi úrkomusömustu júnímánaða sem vitað er um. Mat á tíðarfari var því nokkuð misjafnt.

Júlí

Júlímánuður var mjög votviðrasamur um mestallt land. Sérstaklega lítið var um þurrka um landið vestan- og sunnanvert og þar var einnig sólarlítið. Kalt var í byrjun mánaðarins og einnig voru tveir síðustu dagarnir kaldir. Að öðru leyti var hlýtt um land allt, hlýjast að tiltölu við norðurströndina sem og á mestöllu Norðaustur- og Austurlandi.

Ágúst

Tíðarfar í ágúst var hagstætt víðast hvar. Lengst af var hlýtt á landinu nema fyrstu dagana. Úrkoma var lengst af talsvert minni en að meðallagi um mestallt land en þó um eða yfir því austan til á landinu.

September

Tíðarfar í september var óvenjuhlýtt, hlýjast að tiltölu norðan- og austanlands. Á Dalatanga er þetta hlýjasti september frá upphafi mælinga 1938 og sá þriðji hlýjasti í Grímsey en þar hefur verið mælt frá 1874. Svalast að tiltölu var á Suðvesturlandi þar sem hiti var þó yfir meðallagi síðustu tíu ára. Óvenju úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt á Norðausturlandi.

Október

Í október voru austlægar og norðlægar áttir ríkjandi en veðurlag var lengst af meinlítið. Fremur kalt var að tiltölu í mánuðinum miðað við flesta aðra mánuði ársins. Úrkoma var í meira lagi víða austan- og suðaustanlands en var nærri meðallagi annars staðar. Þó var hún talsvert undir því á stöku stað um landið vestanvert.

Nóvember

Austlægar áttir voru ríkjandi lengst af í nóvember. Kuldakast gerði í fáeina daga í kringum þann 10., en annars var óvenjuhlýtt á landinu öllu og mánuðurinn meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Úrkoma var í meðallagi eða undir því víða um vestanvert landið en suðaustan- og austanlands var úrkomumikið.

Desember

Tíðarfar í desember var rysjótt um mestallt land. Kalt var í veðri, kaldasti mánuður ársins að tiltölu. Talsverður snjór var á jörðu.

Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti mannaðra stöðva 2014.

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2014.

Þessa grein, Tíðarfar ársins 2014, er einnig  hægt að lesa eða sækja sem  pdf-skjal (0,6 Mb).

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica