Tíðarfar í febrúar 2014
Stutt yfirlit
Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í mánuðinum. Sérlega þurrt var um landið vestanvert, allt norður fyrir Breiðafjörð, og sömuleiðis inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Á þessu svæði var febrúar hinn þurrasti um áratugaskeið, í Reykjavík frá 1966 og frá 1977 í Stykkishólmi. Úrkoma var hins vegar með mesta móti nyrst á Vestfjörðum og á Norðaustur- og Austurlandi.
Hlýtt var í veðri og hiti vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en í meðallagi sé miðað við hin óvenjuhlýju ár síðasta áratuginn. Besta veður þótti vera suðvestanlands en víða var kvartað undan næðingum og þrálátum svellum á jörð. Gæftir þóttu ekki góðar. Óvenjumikill snjór var víða til fjalla á Vestfjörðum norðanverðum og á Norðaustur- og Austurlandi og truflaði þar samgöngur. Við sjávarsíðuna var hins vegar snjólétt. Óvenjusnjólétt var vestan- og suðvestanlands.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 1,7 stig og er það 1,4 stigum ofan við meðaltalið 1961 til 1990, en 0,2 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti -0,2 stig, 1,3 stigum ofan við meðaltal 1961 til 1990 en 0,1 stigi undir meðaltali síðustu tíu ára. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | t | vik 30 | röð | af | vik 10 |
Reykjavík | 1,7 | 1,4 | 25 | 144 | 0,2 |
Stykkishólmur | 0,6 | 1,3 | 35 | 169 | -0,1 |
Bolungarvík | -0,3 | 0,7 | 40 | 117 | -0,2 |
Akureyri | -0,2 | 1,3 | 41 | 133 | -0,1 |
Egilsstaðir | -0,1 | 1,8 | 19 | 60 | -0,7 |
Dalatangi | 1,8 | 1,2 | 20 | 76 | 1,5 |
Teigarhorn | 2,2 | 1,9 | 20 til 22 | 142 | 0,0 |
Höfn í Hornafirði | 2,5 | ||||
Stórhöfði | 3,0 | 1,1 | 25 | 138 | 0,2 |
Hveravellir | -5,5 | 0,5 | 23 | 49 | -1,0 |
Árnes | 0,5 | 1,5 | [21] | 134 | 0,4 |
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,2 stig, en lægstur við Sátu norðaustan Hofsjökuls, -6,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,0 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 10,4 stig á Fagurhólsmýri þann 28. Á mannaðri stöð mældist hann hæstur 9,0 stig á Vatnsskarðshólum þann 28. Lægsti hiti á landinu mældist í Svartárkoti þann 19., -28,9 stig. Sjónarmun kaldara, -29,0 stig, varð í Svartárkoti í febrúar 2009. Á mannaðri stöð mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 19., -20,0 stig.
Tvö ný landsdægurlágmarksmet voru sett í mánuðinum. Þann 18. fór frost í -28,0 stig við Mývatn. Mesta frost sem áður var vitað um þennan dag var -20,2 stig sem mældist í Reykjahlíð 1966. Þann 19. fór frostið í -28,9 stig í Svartárkoti. Mesta frost sem áður var vitað um þennan dag var -23,6 stig sem mældust við Upptyppinga árið 2000.
Úrkoma
Úrkoma var langt undir meðallagi um landið vestanvert, norður fyrir Breiðafjörð. Sömuleiðis var sérlega þurrt inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Austan-og norðaustanlands var úrkoma hins vegar talsvert yfir meðallagi.
Í Reykjavík mældist úrkoman 13,6 mm og er aðeins 19% af meðallaginu 1961 til 2000. Þetta er minnsta úrkoma í Reykjavík í febrúar síðan 1966 og sú fjórða minnsta í mæliröðunum (1885 til 1907 og 1921 til 2014). Á Akureyri mældist úrkoman 101,3 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma þar á bæ, sú mesta í febrúar síðan 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 1,9 mm, eða 3% af meðalúrkomu. Í Stykkishólmi hófust úrkomumælingar haustið 1856 og hafa staðið nær samfellt síðan. Aðeins einu sinni hefur úrkoma í febrúar verið minni en nú. Það var 1977 og mældist úrkoman þá 1,0 mm.
Úrkoma hefur verið mæld á Eyrarbakka að mestu leyti samfellt frá 1924. Á því tímabili hefur úrkoma aldrei verið minni í febrúar en nú (26,2 mm). Úrkoma var einnig mæld á Eyrarbakka á tímabilinu1880 til 1911. Þá mældist úrkoman þrisvar sinnum minni í febrúar heldur en nú, minnst 1,2 mm 1885.
Engin úrkoma mældist í Stafholtsey í mánuðinum, en þar hefur verið mælt síðan 1988 og svo virðist sem úrkoma hafi aldrei mælst minni í febrúar heldur en nú á 16 stöðvum öðrum á landinu.
Úrkoma varð meiri en áður vitað er um í febrúar á fáeinum stöðvum norðan til á Vestfjörðum og á Norðaustur- og Austurlandi, þar á meðal á Skjaldþingsstöðum þar sem mánaðarúrkoman var meiri en 340 mm.
Úrkoma mældist 1 mm eða meiri fjóra daga í Reykjavík og er það 9 dögum færri en í meðalári. Úrkomudagar af þessu tagi voru einnig fjórir í febrúar 2010. Í Stykkishólmi var sólarhringsúrkoma aldrei 1 mm eða meiri, 12 dögum færri en í meðalári. Það gerðist síðast í febrúar 1977 en hefur annars aldrei gerst þau 158 ár sem úrkomumælingar hafa verið gerðar þar að úrkoma einhvers dags hafi ekki náð 1 mm. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 14 daga mánaðarins, 6 dögum oftar en að meðaltali.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 96,3 og er það 44 stundum umfram meðallag, flestar í febrúar frá 2007. Sólskinsstundir voru fáar á Akureyri, 11,6. Er það 25 stundum færri en í meðalári. Sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í febrúar á Akureyri síðan 1957.
Snjólag
Aldrei varð alhvítt í Reykjavík í mánuðinum og hefur það ekki gerst í febrúar síðan 1977, aldrei varð heldur alhvítt í febrúarmánuðum áranna 1932 og 1965. Að meðaltali voru 13 alhvítir dagar í Reykjavík í febrúar á árunum 1971 til 2000. Á Akureyri var jörð alhvít allan mánuðinn. Það er 7 dögum umfram meðallag og hefur það ekki gerst í febrúar síðan árið 2000 að alhvítir dagar væru 28. En þar sem árið 2000 var hlaupár var ekki alhvítt allan þann febrúar. Síðasti alhvíti febrúar á Akureyri var 1990. Á tímabilinu 1924 til 1989 var febrúar 12 sinnum alhvítur á Akureyri.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði á landinu var um 1,4 m/s yfir meðallagi og sá mesti í febrúar síðan 1992. Hvassast varð þann 3. og þann 20. Austanátt var óvenjuþrálát í mánuðinum og hefur aldrei, svo vitað sé, orðið jafn- eindregin í febrúar og nú.
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 986,3 hPa og er það 16,3 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur hefur ekki orðið svona lágur í febrúar síðan 1997. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1020,5 hPa á Egilsstöðum þann 18. en lægstur mældist hann 962,2 hPa í Önundarhorni þann 12.
Fyrstu tveir mánuðir ársins 2014
Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa verið óvenjuhlýir, þó ekki jafnhlýir og í fyrra (2013). Meðalhitinn í Reykjavík er sá 8. hæsti frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og á Akureyri sá 11. hæsti.
Þurrkarnir um landið vestanvert hafa verið óvenjulegir. Heildarúrkoma í janúar og febrúar hefur aðeins fjórum sinnum verið minni í Reykjavík heldur en nú. Það var 1936, 1977, 1941 og 1966. Í Reykjavík hefur verið mælt samfellt síðan 1921 en einnig voru samfelldar mælingar þar 1885 til 1907. Í Stykkishólmi hefur úrkoma tveggja fyrstu mánaða ársins aðeins einu sinni verið minni en nú. Það var 1936. Byrjað var að mæla haustið 1856. Á Akureyri hefur heildarúrkoma janúar og febrúarmánaða aðeins fjórum sinnum verið meiri heldur en nú. Það var 1974, 1989, 1990 og 2002. Mælingarnar ná aftur til 1928.
Meðalloftþrýstingur í janúar og febrúar hefur aðeins fjórum sinnum verið jafnlágur eða lægri í Reykjavík heldur en nú. Mælingaröðin nær aftur til 1823. Árið 1883 byrjaði jafnlágt og nú, en þrýstingur í þessum tveimur mánuðum saman var lægri en nú 1842, 1989 og 1990. Síðastnefnda árið var meðalþrýstingurinn mun lægri en nú.
Skjöl fyrir febrúar
Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í febrúar 2014.
Þessa grein má einnig lesa eða sækja sem Tíðarfar í febrúar 2014 (pdf-skjal 0,4 Mb).