Viðvörun vegna norðanstorms í dag, föstudag, og frameftir laugardegi
Veðurstofan vill minna á að stormur (vindhraði á bilinu 18-25 m/s) geisar á Vestfjörðum og á annesjum fyrir norðan. Mun veðrið færa sig inn á land norðan- og norðvestanlands eftir hádegið (í dag, föstudag) og einnig suður um vestanvert landið seinnipart föstudags með hviðum sem geta náð yfir 40 m/s.
Verður víða stormur á því svæði í kvöld (föstudagskvöld) og hvessir þá einnig sunnan- og austantil á landinu. Búast má við að vindhraði þar verði 18-23 m/s og hviður yfir 40 m/s sunnan Vatnajökuls og hlémegin við fjöll.
Þessu fylgir snjókoma á norðurhelmingi landsins en allvíða slydda eða rigning við ströndina fram eftir degi (föstudegi). Staðbundið má búast við talsvert mikilli ofankomu, einkum nyrst á Tröllaskaga. Stöku él verða fyrir sunnan. Kólnar í veðri.
Vegfarendum er bent á að fylgjast náið með upplýsingum um færð og veður, bæði textaspá, veðurþáttaspá og vefsíðum Vegagerðarinnar.
Dregur úr vindi og ofankomu seint í nótt (aðfaranótt laugardags), fyrst á Vestfjörðum, en ekki fyrr en seint á morgun austast.