Fréttir
Sjálfvirk stöð á Staðarhóli í Þingeyjarsýslu.

Nýjar sjálfvirkar stöðvar

4.10.2012

Nýlega var sett upp sjálfvirk stöð á Staðarhóli í Þingeyjarsýslu. Stöðin mælir hita, vind og vindátt en fyrir er mönnuð úrkomustöð á staðnum.

Á úrkomustöðinni er mæld úrkoma og gerðar athuganir á snjóalögum á hverjum morgni og má sjá þær á úrkomukorti á vef Veðurstofunnar.

Mælingar á hita og vindi birtast nú að auki.

Með þessu er tryggt að veðurupplýsingar berist frá þessu svæði og gagnasöfnun haldi áfram, en athugað hefur verið á Staðarhóli frá árinu 1961.

Sjálfvirk stöð á Grímsstöðum á Fjöllum.

Einnig var bætt við þjónustu Veðurstofunnar á Grímsstöðum á Fjöllum. Nú er hægt að nálgast upplýsingar um hita, vind og raka þaðan allan sólarhringinn úr sjálfvirkum mælum.

Veðurathugunarstöðin á Grímsstöðum er ein af elstu veðurstöðvum Veðurstofunnar og eru til samfelldar athuganir þar aftur til ársins 1907 en þá var stöðin stofnsett.

Gerðar eru almennar athuganir á hita, vindi, loftþrýstingi, veðri, skyggni, skýjum, úrkomu og snjóalögum og verða engar breytingar á því. Þessar athuganir eru gerðar 5 sinnum á sólarhring, utan snjóalögin sem eru athuguð einu sinni á sólarhring þegar við á. Nú fást til viðbótar upplýsingar um hita og vind utan hefðbundinna athugunartíma og einnig verður mögulegt að bæta og leiðrétta mjög langa tímaröð hitamælinga á Grímsstöðum.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Sibylle von Löwis of Menar þann 21. september 2012.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica