Greinar
svarthvít mynd, lítill hópur fólks fyrir utan steinhús, gömul bifreið
Grímsstaðir á Fjöllum.

Grímsstaðir á Fjöllum

Staðsetning: 65°38.539'N 16°07.249'V, hæð yfir sjó 384 m

Trausti Jónsson 24.9.2007

Þó að veðurstöðin á Grímsstöðum á Fjöllum sé nú opinberlega hundrað ára hófust veðurathuganir á vegum dönsku veðurstofunnar þar fyrr, eða þann 1. júlí 1881, og stóðu þá samfellt út apríl 1883. Þá þegar sást að veðurfar á þessum slóðum var nokkuð ólíkt flestum öðrum stöðvum sem höfðu athugað fram til þess tíma, en því miður missti stöðin af frostavetrinum fræga 1880-1881. Mesta frost í þessari syrpu var -31,1 stig, en það var í mars 1882 og í júní sama ár komst hitinn í 20,9 stig, en sumarið 1882 var eitt hið ömurlegasta sem komið hefur um landið norðanvert. Þó meðalhiti sumarsins (júní til september) hafi ekki verið nema 4,8 stig á Grímsstöðum, var hann enn lægri í Grímsey á sama tíma, 2,9 stig. Sami meðalhiti var þetta sumar á Akureyri og á Grímsstöðum.

Næst segir af athugunum á Grímsstöðum 1. janúar 1907. Þá var nýbúið að leggja ritsíma frá útlöndum til Seyðisfjarðar og unnið var að lagningu línu til Reykjavíkur. Fyrstu veðurskeytin frá Íslandi bárust frá Seyðisfirði seint í september 1906 og um áramótin fengu veðurspámenn í nágrannalöndunum fyrst beinar fréttir frá uppsveitum á Íslandi. Frá Reykjavík fréttist ekkert fyrr en tæpum fjórum vikum síðar.

Í árslok 1908 féllu skeytasendingar niður í þrjá mánuði og skömmu síðar var Grímsstaðastöðin dubbuð upp í að verða ein af svokölluðum aðalstöðvum á Íslandi (Hovedstation). Sumarið 1909 fór Dan B. la Cour, sem síðar varð forstjóri Dönsku veðurstofunnar og heimsþekktur vísindamaður, í eftirlitsferð um Ísland og kom m.a. að Grímsstöðum. Hann bar staðarmönnum vel söguna, en fannst staðsetning loftvogarinnar einkennileg, því fara þurfti upp í rúm til að lesa af. Það var að sögn til að halda barnaskara frá tækinu og ekki annað að sjá en að la Cour þætti þetta skynsamlegt.

Ársmeðalhiti á Grímsstöðum
Mynd 2: Ársmeðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum 1907 til 2012 eða í 106 ár. Hlýindi síðustu ára nálgast hlýindin fyrir miðbik 20. aldar. Hafísárin (sjá orðskýringar) voru köld á Grímsstöðum, en kaldasta árið var 1979. Hlýjast var 1933 eins og víðast hvar um norðaustanvert landið. Mánaðameðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum 1907 til 2012 fylgir í textaskjali (°C).
Aftur upp

Úrkomumælingar hófust sumarið 1910, en voru svo stopular allt fram til 1936 að ekki hefur tekist að búa til árssummur og trúverðugar mánaðasummur eru aðeins á stangli. Fyrr á árum (fyrir 1960) var oft lítið hugað að úrkomumælingum í mjög löngum þurrkaköflum og alveg þurrir mánuðir eru því fleiri en trúverðugt er. Segja má að öll mánaðagildi sem eru undir 1 mm heildarúrkomu þurfi varúðar við, ekki aðeins á Grímsstöðum heldur einnig annars staðar. Mánaðameðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum °C 1907 til 2012 fylgir.

 

Ársúrkoma á Grímsstöðum á Fjöllum
línurit
Mynd 3: Ársúrkoma á Grímsstöðum á Fjöllum 1936 til 2006. Fáein ár vantar inn í röðina, þá höfðu úrkomumælingar fallið niður um mánaðar skeið eða lengur. Engin leitni sést í röðinni. Meðalúrkoma 1971 til 2000 er 351 mm á ári. Á því tímabili var stöðin á Grímsstöðum sú næstþurrasta á landinu, lítillega þurrara var í Möðrudal (337 mm).

  

Sigurður Kristjánsson er einn fárra athugunarmanna sem stóð vaktina í meir en 50 ár, byrjaði 1907, en lést í fullu starfi 1959.

 

Athugunarmenn á Grímsstöðum:

  • Guðmundur Árnason 1881-1883
  • Sigurður Kristjánsson 1907-1959
  • Aðalbjörg Vilhjálmsdóttir 1959-1985
  • Gunnlaugur Ólafsson 1985-1990
  • Sigríður Hallgrímsdóttir frá 1990

 

Nokkur útgildi á Grímsstöðum:

Lægsti hiti: -38,0°C 21. janúar 1918 (kuldamet Íslands).

Hæsti hiti: 28,1°C 12. júlí 1911

Mesta sólarhringsúrkoma: 44,8 mm 15. september 2010.

Kaldasti mánuður: janúar 1918 -16,4°C

Hlýjasti mánuður: júlí 1991 12,3°C

Kaldasta ár: -1,8°C 1979

Hlýjasta ár: 2,6°C 1933

Þurrasta ár: 241 mm 1939 (ársummur úrkomu vantar alloft)

Votasta ár: 544 mm 1961

Þurrasti mánuður: Nokkrir mánuðir hafa verið úrkomulausir á Grímsstöðum, sá síðasti var maí 1977.

Votasti mánuður: 130,9 mm, ágúst 1936

Sjá einnig fróðleikspistil um mesta mælt frost á Íslandi.

Sjá Grímsstaða getið vegna fannfergis í tíðarfarsyfirliti nóvembermánaðar 2012.

Aftur upp

Íslensk náttúra
Snjóþungt var fyrir norðan á Degi íslenskrar náttúru hinn 16. september 2013. Myndin sýnir veðurathugunarmanninn á Grímsstöðum á Fjöllum, Sigríði Hallgrímsdóttur, við störf þann dag. Ljósmynd: Bragi Benediktsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica