Tíðarfar í apríl 2012
Stutt yfirlit
Tíðarfar í apríl var hagstætt um meginhluta landsins. Þó var frekar svalt við austurströndina. Mjög þurrt var víða um landið sunnanvert. Apríl var kaldari en mars á svæðinu frá norðanverðum Vestfjörðum austur um Norðurland og suður til Hornafjarðar.
Hiti
Hiti var undir meðallagi austast á landinu en annars yfir því. Hlýjast var að tiltölu vestanlands og á hálendinu vestanverðu. Þar var hiti 1,3 til 1,8 stigum yfir meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík mældist 4,3 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 2,2 stig sem er 0,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,1 stig og -1,6 á Hveravöllum. Sjá má meðalhita og vik á fleiri stöðvum í töflu.
Meðalhiti og vik í apríl 2012
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 4,3 | 1,4 | 27 | 142 |
Stykkishólmur | 3,5 | 1,9 | 23 | 167 |
Bolungarvík | 1,8 | 1,1 | 35 | 115 |
Akureyri | 2,2 | 0,5 | 50 til 51 | 131 |
Egilsstaðir | 0,8 | -0,4 | 36 | 57 |
Dalatangi | 0,9 | -0,6 | 54 | 73 |
Teigarhorn | 1,7 | -0,6 | 83 | 140 |
Höfn í Hornaf. | 3,1 | |||
Kirkjubæjarklaustur | 4,1 | 1,0 | 26 | 86 |
Árnes | 3,4 | 1,3 | [27] | [131] |
Stórhöfði | 4,2 | 0,8 | 38 til 39 | 135 |
Hveravellir | -1,6 | 1,8 | 10 | 47 |
Um austurhluta landsins og víðast norðanlands var apríl talsvert kaldari heldur en mars. Mestu munaði á Dalatanga, 2,7 stigum. Sjaldgæft er að munur á mánuðunum sé svo mikill á þennan veg og hefur reyndar aðeins tvisvar orðið meiri en 2,7 stig eftir 1960, á Brú á Jökuldal 1991 og í Fagradal í Vopnafirði 1964. Aprílmánuðir áranna 1959, 1953 og 1948 voru meir en 2,7 stigum kaldari heldur en mars víða um land. Árið 1953 var meðalhiti í apríl 5,1 stigi lægri heldur en í mars á Teigarhorni.
Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist 5,1 stig á Garðskagavita og í Surtsey. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, -5,3 stig. Meðalhiti í byggð var lægstur í Möðrudal, -1,5 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Hallormsstað þann 30., 18,2 stig. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafirði sama dag, 17,2 stig.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -25,7 stig. Það var á Brúarjökli þann 2. Lægsti hiti í byggð mældist -17,7 stig á Brú á Jökuldal þann 3. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 2, -16,8 stig.
Tvö dægurlandslágmarkshitamet voru slegin í mánuðinum. Þann 3. mældist lágmarkið á Brúarjökli -22,9 stig (eldra met frá Möðrudal árið 1986) og þann 26. var lágmark á sama stað -19,6 stig (eldra met frá Setri árið 2000).
Úrkoma
Víðast hvar var í þurrara lagi á Suðvestur- og Vesturlandi. Í Reykjavík mældist úrkoma þó í meðallagi, 59,7 mm. Á Akureyri mældist úrkoma 26,1 mm og er það um 10 prósent undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman aðeins 17,6 mm og hefur ekki verið jafnþurrt í apríl á þeim slóðum síðan 1978, úrkoma var þó litlu meiri í apríl 2008. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 41,3 mm og er það um 35 prósent meðalúrkomu. Þetta er þurrasti apríl á Stórhöfða síðan 1998. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 31,8 mm sem er 60 prósent af meðallagi aprílmánaðar.
Snjóalög
Snjólétt var á landinu. Aldrei varð alhvítt í Reykjavík en að meðaltali er þar alhvítt í 3 daga í apríl. Ekki varð heldur alhvítt á Akureyri í apríl en að meðaltali eru þar 11 alhvítir dagar í þeim mánuði.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 153,5 og er það 13 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 134,8 eða 5 stundum fleiri en í meðalári.
Loftþrýstingur og vindhraði
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1013,6 hPa og er það 3,1 hPa yfir meðallagi. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist 1026,6 hPa á Dalatanga þann 15. Lægstur þrýstingur mældist 978,8 hPa á Höfn í Hornafirði þann 9.
Vindhraði í byggð var um 0,9 m/s undir meðallagi. Er þetta hægviðrasamasti apríl síðan 1998 en þá var meðalvindhraði jafn og nú.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins
Hlýtt hefur verið það sem af er árinu. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,6 stig og er það 1,8 stigum yfir meðallagi. Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa aðeins sex sinnum verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Það var 1926, 1972 og 1974, en í þau skipti var hiti aðeins lítillega hærri en nú, og 2003, 1929 og 1964 þegar talsvert hlýrra var heldur en að þessu sinni.
Á Akureyri hefur verið enn hlýrra að tiltölu heldur en í Reykjavík, meðalhitinn fyrstu fjóra mánuði ársins er 2,0 stig og er það 2,8 stigum yfir meðallagi. Frá því að samfelldar mælingar hófust á Akureyri 1881 hafa fyrstu fjórir mánuðir ársins aðeins fjórum sinnum orðið hlýrri en nú. Það var 1929, 1974, 2003 og 1964.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa verið úrkomusamir í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri úrkoma á sama tíma árs síðan 1953. Úrkoma hefur verið í meðallagi á Akureyri í janúar til apríl.