Fréttir
Íslandskort og texti

Snjóflóðaforsíða á vefnum

24.2.2012

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar sinnir daglegri vöktun á snjóflóðahættu í byggð og býr yfir rauntímaupplýsingum um snjóalög og snjóflóðahættu sem vel geta gagnast almenningi. Unnið er að því að birta efnið hér á vefnum og nú er kort með rauntímaupplýsingum um snjóflóð á landinu síðastliðna viku, ásamt töflu, komið í loftið á sérstakri snjóflóðaforsíðu.

Notendur eru hvattir til að tilkynna snjóflóð sem þeir verða varir við en hnappur hægra megin við kortið (Tilkynna snjóflóð) opnar skráningarformið.

Taflan sýnir snjóflóðatilkynningar síðustu viku eða síðasta sólarhrings og eru þær flokkaðar eftir landshlutum. En hafa ber í huga að flestar tilkynningar berast frá svæðum þar sem snjóathugunarmenn starfa og að önnur snjóflóð geta hafa fallið án þess að tilkynning hafi borist.

Stærð hvers snjóflóðs kemur fram í tákni á kortinu en litakóðinn sýnir hversu margir dagar eru liðnir síðan viðkomandi snjóflóð féll. Nánari upplýsingar um flóðið fást með því að leggja bendilinn yfir táknið. Undir kortinu eru síðan tenglar á helstu vefsíður sem varða ofanflóð; meðal annars er þar útskýring á stærðarflokkun snjóflóða.

Notendum, sem vanir eru að hafa t.d. veðurforsíðu á sinni tölvu, er bent á að snjóflóðaforsíðuna er að finna á dökkbláum flipa við hliðina á vatnafarsforsíðu. Hver notandi getur valið forsíðu að eigin smekk.

Stefnt er að því að snjódýpt lesin af mælistikum verði birt hér innan tíðar, svo og snjógryfjur en það eru snið sem sýna lagskiptingu og stöðugleika snjóþekjunnar. Mælistikurnar eru margar í miklum bratta en snjóathugunarmenn lesa af þeim með sjónauka.

grafið í fönn

Unnið í Heiðardal ofan Reykja í Ólafsfirði 5. mars 2010. Í baksýn Reykjadalur og Lágheiði. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.

Viðfangsefni ofangreindra mælinga er snjóflóðahætta. Hins vegar hefur snjódýpt á veðurathugunarstöðvum lengi verið birt á vefnum en þær eru flestar á láglendi.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica