Fréttir
snæviþakin fjöll í fjarska
Snjólétt á láglendi en snjór til fjalla. Myndin er tekin á Árskógsströnd þann 11.11.2011.

Tíðarfar í nóvember 2011

Stutt yfirlit

1.12.2011

Óvenju hlýtt var lengst af í nóvember og þótt síðustu dagarnir hafi verið kaldir er mánuðurinn samt í hópi hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Hlýjast var að tiltölu austanlands en heldur svalara um landið norðvestanvert. Úrkoma var í meira lagi um land allt, mest þó að tiltölu suðaustanlands. Lengst af var snjólítið.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 4,3 stig og er það 3,2 stigum ofan meðallags. Þetta er áttundi hlýjasti nóvember í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Á Akureyri var meðalhitinn 2,9 stig, 3,2 stigum ofan meðallags. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,5 stig og 5,2 á Höfn í Hornafirði. Meðalhita nokkurra stöðva má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 4,3 3,2 8 141
Stykkishólmur 3,5 2,6 12 167
Bolungarvík 2,9 2,1 15 114
Akureyri 2,9 3,2 12 131
Egilsstaðir 3,4 4,1 4 57
Dalatangi 5,2 3,3 5 74
Teigarhorn
Höfn í Hornafirði 5,2 3,2
Kirkjubæjarklaustur 4,0 2,9
Árnes 3,3
Stórhöfði 5,3 2,9 5 135
Hveravellir  -0,9 3,9 4 47

Hæstur varð meðalhiti í mánuðinum í Surtsey, 6,2 stig, en lægstur í Sandbúðum -2,6 stig. Lægsti meðalhiti í byggð var í Svartárkoti, -0,3 stig. Hæsti hiti í mánuðinum mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum þann 8., 21,0 stig, þá mældust 20,5 stig á mönnuðu stöðinni á sama stað og var það hæsti hiti á mannaðri stöð í mánuðinum. Lægsti hiti mánaðarins mældist -20,6 stig. Það var á Þingvöllum þann 30. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafirði þann 30, -19,0 stig.

Úrkoma

Mánuðurinn var úrkomusamur. Í Reykjavík mældist úrkoman 89,9 mm og er það 24% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 82,2 mm og er það um 50% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 195,8 mm. Það er 94% umfram meðallag. Í Stykkishólmi var úrkoman einnig 90% umfram meðallag og 47% umfram á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Vindhraði

Vindhraði var 0,3 m/s undir meðallagi. Mánuðurinn var illviðravægur miðað við árstíma. Víða varð hvasst að kvöldi þess 7. og aðfaranótt 8. með lítilsháttar foktjóni.

Sólskinsstundir

Í Reykjavík mældust 35,2 sólskinsstundir í nóvember og er það rúmum 3 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 19,2 og er það 5 stundum umfram meðallag.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 992,2 hPa og er það 11,9 stundum undir meðallagi. Þetta er í lægra lagi og hefur mánðarmeðalþrýstingur í nóvember ekki verið svona lágur síðan árið 1993.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist á Höfn í Hornafirði þann 13. eða 1028,3 hPa. Lægstur varð þrýstingurinn á sama stað þann 24., 961,8 hPa.

Haustið (október og nóvember)

Haustið var mjög hlýtt, það 10. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1870, það 16. hlýjasta frá upphafi í Stykkishólmi (frá og með 1846) og það 15. hlýjasta á Akureyri (frá 1881). Mjög úrkomusamt var um mikinn hluta landsins í þessum tveimur mánuðum.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu 11 mánaða ársins í Reykjavík er 6,0 stig og er það um 1,3 stigum hlýrra en í meðalári 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags miðað við 2001 til 2010. Í Stykkishólmi er meðaltal fyrstu 10 mánaða ársins 1,2 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en í meðallagi sé miðað við 2001 til 2010. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 11 mánuða ársins 1,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990, en í meðallagi sé miðað við 2001 til 2010.

Í Reykjavík er úrkoma fyrstu 10 mánaða ársins um 15% ofan meðallags en 35% yfir því á Akureyri. Sólskinsstundir fyrstu 10 mánuði ársins hafa mælst 196 fleiri en í meðalári í Reykjavík. Er það mjög í anda þess sem verið hefur síðustu 8 árin en mun meira heldur en var venjulegt á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 66 fleiri en í meðalári fyrstu 11 mánuði ársins. Desember er oft alveg sólarlaus á Akureyri.

áð í hlíðinni

Áð í Esjuhlíðum þann 19. nóvember 2011. Enginn snjór. Myndina tók Gunnlaugur Jónsson.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica