Fréttir
aðalbláber
Aðalbláberjalyng í Dýrafirði 23. ágúst 2011.

Tíðarfar í ágúst 2011

Stutt yfirlit

1.9.2011

Tíðarfar telst hagstætt um mestallt land. Hiti var yfir meðallagi um landið sunnan- og vestanvert, í meðallagi norðanlands en á Austurlandi var ívið kaldara heldur en í meðallagi. Vestanlands var þurrt lengst af og úrkoma var undir meðallagi um stóran hluta landsins. Úrkomusamt var allra austast á landinu.

Hitafar

Meðalhiti í Reykjavík var 11,2 stig og er það 0,9 stigum yfir meðallagi. Mjög hlýtt hefur verið í ágúst flest undanfarin ár. Ívið kaldara var í ágúst 2007 heldur en nú. Meðalhiti á Akureyri var 9,9 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi. Nánast sami hiti mældist á Akureyri í ágúst 2007.

Á Höfn i Hornafirði var meðalhitinn 10,5 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallagi og meðalhiti á Hveravöllum var 7,0 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi. Meðalhiti á Egilsstöðum var 8,9 stig og er það 0,7 stigum lægra en í meðalágúst. Þetta er lægsti meðalhiti í ágúst á Egilsstöðum síðan 1993.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð t vik röð af
Reykjavík 11,2 0,9 30 141
Stykkishólmur 10,3 0,7 45 166
Bolungarvík 9,2 0,5 55 til 56 114
Akureyri 9,9 -0,1 66 130
Egilsstaðir 8,9 -0,7 44 til 45 56
Dalatangi 8,1 -0,2 56 73
Teigarhorn 8,8 0,0
Höfn í Hornaf. 10,5 0,3
Hæll 10,5 0,4 55 131
Stórhöfði 10,3 0,7 40 til 43 135
Hveravellir  7,0 0,8 21 47

Meðalhiti í ágúst var hæstur á sjálfvirku stöðinni á Garðskagavita, 11,6 stig, næsthæstur var hann á Þyrli í Hvalfirði. Lægstur var mánaðarmeðalhitinn á Brúarjökli, 2,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal 7,5 stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 21,8 stig á Þingvöllum þann 7. og á Brú á Jökuldal þann 30. Á mannaðri stöð varð hiti hæstur á Hæl í Hreppum, 21,1 stig þann 9.

Lægsti hiti mánaðarins mældist í Möðrudal þann 27., -4,1 stig. Lægstur á hiti mannaðri stöð mældist í Torfum í Eyjafirði þann 27., -2,6 stig. Aðfaranótt þess 18. mældist lágmarkshiti á Þingvöllum -3,0 stig. Það er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu þann dag mánaðarins.

Úrkoma

Þurrviðrasamt var á Norður- og Vesturlandi. Úrkoma í Reykjavík mældist 23,1 mm og er það 37% meðalúrkomu. Þetta er þurrasti ágúst í Reykjavík frá árinu 1985. Á Akureyri mældist úrkoman 24,5 mm og er það 72% meðalúrkomu.

Sólarhringsúrkoman í Reykjavík mældist 5 sinnum 1 mm eða meiri. Þetta er 7 dögum færra heldur en í meðalágúst og hafa úrkomudagar, taldir á þennan hátt, ekki verið færri síðan í ágúst 1964.

Endanleg úrkomuuppgjör liggja ekki fyrir þegar þetta er skrifað (1. ágúst). Þurrkmet virðast ekki hafa verið slegin á stöðvum sem athugað hafa lengur en í 20 ár nema í Andakílsárvirkjun.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 216,1 í Reykjavík og er það 61,3 stundum umfram meðallag – en langt frá meti. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 115,6 og er það 20,1 stund undir meðallagi.

Vindur og loftþrýstingur

Vindhraði var í meðallagi á landinu, þó lítillega undir því á sjálfvirku stöðvunum. Loftþrýstingur í Reykjavík var 1,6 hPa yfir meðallagi. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1025,9 hPa í Bolungarvík þann 24., en lægstur á Höfn í Hornafirði þann 14., 989,9 hPa.

Það sem af er sumri (júní til ágúst)

Sumarið hefur verið hlýtt um landið sunnan- og vestanvert. Meðalhiti í Reykjavík í júní til ágúst er 10,9 stig og er það 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Ef miðað er við tímabilið 2001 til 2010 er sumarið nú 0,4 stigum neðan meðallags. Á Akureyri hefur hitinn til þessa í sumar hins vegar verið 0,4 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,2 stigum undir meðallagi áranna 2001 til 2010. Mestu munar um afspyrnukaldan júnímánuð. Júlí var hlýr, en ágúst í meðallagi.

Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðanna þriggja 0,5 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, í Bolungarvík var hitinn 0,6 stigum ofan meðallags og sömuleiðis í Vestmannaeyjum.

Kalt hefur verið um hluta Austurlands. Meðahiti í júní til ágúst á Egilsstöðm er aðeins 8,5 stig. Þetta er 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 1,7 stigum undir meðallagi síðustu 10 ára. Svo kaldir hafa júní til ágúst ekki orðið á Egilsstöðum síðan 1993 en þá var talsvert kaldara en nú. Vikin á Hallormsstað eru -1,0 stig miðað við 1961 til 1990 og -1,8 stig miðað við 2001 til 2010.

Sumarið hefur til þessa verið óvenjuþurrt um landið vestan- og norðanvert. Í Reykjavík mældist úrkoman í júní til ágúst aðeins 83,2 mm, eða 51% meðalúrkomu. Þessir þrír mánuðir saman hafa ekki verið jafnþurrir síðan 1963. Einnig hefur verið þurrt á Akureyri. Þar hefur úrkoman mælst aðeins 55% af meðaltali, hið sama og í sömu mánuðum 1995.

Úrkomusamt hefur verið allra austast á landinu og virðist úrkoma þar hafa verið um 40% umfram meðallag.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Að meðaltali hefur verið hlýtt á landinu fyrstu átta mánuði ársins. Meðalhiti í Reykjavík er 5,9 stig og er það um 1,0 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 0,1 stigi kaldara en meðaltalið 2001 til 2010. Á Akureyri er hitinn fyrstu átta mánuði ársins nú 0,8 stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990 en 0,2 undir meðaltalinu 2001 til 2010.

Úrkoma í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins er um 13% umfram meðallag og vantar aðeins 34 mm upp á heildarúrkomu síðasta árs, en það var fádæma þurrt. Á Akureyri er úrkoma fyrstu átta mánuði ársins um 5% umfram meðallag.

Jarlhettur við Eystri-Hagafellsjökul hinn 26. ágúst 2011. Ljósmynd: Árni Sigurðsson.

Jarlhettur





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica