Fréttir
Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri Veðurstofu Íslands
Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri.

Um mælingar, upplýsingagjöf og ákvarðanatöku við eldgos

Sameiginleg ráðgjöf til flugmálayfirvalda

27.5.2011

Veðurstofa Íslands starfrækir umfangsmikinn búnað til þess að fylgjast með þeim þáttum náttúrunnar sem vakta þarf þegar eldgos verður. Meðal þess búnaðar eru færanleg veðursjá og afar þróað Lidar-leysigeislatæki til greiningar ösku, hvort tveggja nýlega tekið í notkun. Veðursjáin fékkst að láni hjá ítölskum almannavörnum og Lidar-tækið hjá National Centre of Atmospheric Sciences í Bretlandi, en mælingarnar ollu því að hægt var að halda Keflavíkurflugvelli opnum yfir lengra tímabil en annars hefði verið. Markmiðið er að Veðurstofan eignist slík tæki.

Einnig bárust Veðurstofunni niðurstöður svifryks- og öskumælinga frá Vilhjálmi Í. Sigurjónssyni (HÍ), Jónasi Elíassyni (HÍ) og Þóroddi Sveinssyni (flugmanni); svo og frá Konradin Weber við háskólann í Dusseldorf.

Veðurstofan vinnur í nánu samstarfi við VAAC, ráðgjafastofnun sem gefur meðal annars út öskudreifingarspár. Slíkar VAAC stöðvar (Volcanic Ash Advisory Centres) í heiminum eru níu og umsjónarsvæði London VAAC nær yfir Ísland.

Samkvæmt Sigrúnu Karlsdóttur, náttúruvárstjóra Veðurstofu Íslands, veitir Veðurstofan allar upplýsingar sem til eru um gosvirkni, gosmakkarhæð og hegðun gosmakkar á 3ja klukkustunda fresti og oftar þegar þörf krefur. Upplýsingar um gosmakkarhæð eru megin inntaksgögn í dreifingarreiknilíkan sem reiknar út dreifingu gosmakkar í andrúmsloftinu. London VAAC tekur við þessum upplýsingum, ber saman við mælingar og leiðréttir reikniniðurstöðurnar til að gefa sem besta spá um svæði þar sem vænta má ösku. Þetta eru leiðbeinandi upplýsingar sem veðurstofur nota til að gera viðvaranir fyrir flugmálayfirvöld.

Ákvarðanir um veitingu flugheimilda eru hins vegar teknar af viðeigandi yfirvaldi hvers ríkis. Á Íslandi er það Isavia sem veitir flugheimildir innan íslenska flugumferðarsvæðisins í samræmi við reglur frá flugmálastjórn. London VAAC hefur ekki ákvörðunarvald um hvaða flugumsjónarsvæði eru opin eða lokuð.

Veðurstofur í Evrópu sjá þannig um útgáfu viðvarana, byggðum á leiðbeiningum frá London VAAC.  Allar níu VAAC-stöðvarnar og veðurstofur vinna samkvæmt forskrift Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

EUROCONTROL er evrópsk stofnun sem getur gripið inn í stjórnun flugumferðar til að betrumbæta umferð innan þess svæðis sem stofnunin nær til, en er ekki miðlæg flugumferðastjórn fyrir Evrópu. Hlutverk þeirrar stofnunar er fyrst og fremst að auka skilvirkni og flæði flugstarfsemi innan Evrópusvæðisins en hún tekur ekki ákvarðanir um opnun eða lokun loftrýmis. Ísland er ekki aðili að EUROCONTROL en situr reglulega fundi.

Hér undir má sjá sérfræðinga Veðurstofunnar að störfum í afar krefjandi aðstæðum skammt frá Kirkjubæjarklaustri þann 22. maí 2011 (Grímsvatnagos).

með grímur fyrir vitum Þórarinn H. Harðarson, Geirfinnur S. Sigurðsson og Þorgils Ingvarsson leggja út í öskusortann með færanlegu veðursjána vegna eldgoss í Grímsvötnum. Mynd tekin 22. maí 2011.

öskusorti - mælitæki í ljósgeisla





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica