
Að mæla ösku
Mælitæki
Veðurstofan fékk nýlega að láni LiDAR frá National Centre for Atmospheric Science (NCAS) í Bretlandi. LiDAR er mælitæki sem byggist á því að skjóta leysigeisla upp í loftið og mæla endurvarp hans.
Tækið hafði verið sett upp undir Eyjafjöllum til að mæla fokösku en var flutt í gær til Keflavíkurflugvallar til að fylgjast með ösku yfir vellinum. Um kl. 20 í gærkvöldi fór tækið að sýna vaxandi öskumagn í lofti og hélst það fram eftir nóttu.
Veðurstofa Íslands á veðursjá sem staðsett er á Miðnesheiði, nærri Keflavíkurflugvelli. Aðalhlutverk veðursjárinnar er að fylgjast með úrkomu, en hún mælir endurkast frá vatnsdropum í lofthjúpnum. Það hefur sýnt sig að veðursjáin nýtist einnig ágætlega til að fylgjast með gosmekki en þá sér hún endurkast ýmissa gosagna í rökum mekkinum.

Í Eyjafjallajökulsgosinu kom í ljós að veðursjáin var notadrjúgt tæki, en fjarlægðin til gosstöðvanna (sem var 160 km) dró þó nokkuð úr gæðum gagnanna. Vegna þessa var ákveðið að festa kaup í færanlegri X-band veðursjá og fá aðra að láni frá ítölsku almannavörnunum meðan verið er að ganga frá kaupunum.
Færanlega veðursjáin er nú staðsett nærri Kirkjubæjarklaustri eða í um 80 km fjarlægð frá gosstöðvunum í Grímsvötnum. Starfsmenn VÍ fylgjast því með þróun eldgossins með tveimur veðursjám.
