Tíðarfar í mars 2011
Stutt yfirlit
Tíðarfar var nokkuð umhleypingasamt og þótti jafnvel óhagstætt um vestanvert landið. Hiti í mánuðinum var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Hiti var lítillega undir meðallagi á Vestfjörðum en ofan við það um landið norðan- og austanvert.
Úrkoma var yfir meðallagi víðast hvar.
Meðalhiti var 0,2 stig í Reykjavík, 0,2 stigum undir meðallagi. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,8 stig og er það nákvæmlega í meðallagi. Meðalhitinn á Akureyri var -1,0 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,9 stig, 0,7 stigum yfir meðallagi.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í sérstakri töflu. Þar er einnig röð mánaðarins meðal hitameðaltala þess tíma sem mælingar hafa verið gerðar á. Raðað er frá hæstum hita.
Meðalhiti í mars 2011 og vik hans frá meðallagi á nokkrum stöðvum.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 0,2 | -0,2 | 80 | 141 |
Stykkishólmur | -0,8 | 0,0 | 80 | 166 |
Bolungarvík | -2,3 | -0,6 | 77 | 114 |
Akureyri | -1,0 | 0,2 | 62 | 130 |
Egilsstaðir | -0,6 | 0,8 | 17 | 57 |
Dalatangi | 0,8 | 0,8 | 33. til 34. | 73 |
Teigarhorn | 0,9 | 0,5 | 54. til 56. | 139 |
Höfn í Hornaf. | 1,9 | 0,7 | ||
Stórhöfði | 1,6 | -0,1 | 77. til 78. | 134 |
Hveravellir | -5,8 | 0,2 | 24 | 46 |
Hæsti meðalhiti mánaðarins á sjálfvirkri stöð mældist í Surtsey, 2,7 stig, en lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli -8,0 stig. Á sjálfvirkri stöð í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,1 stig.
Hæsti hiti í mánuðinum mældist 14,2 stig í Kvískerjum þann 3. Á skeytastöð varð hitinn hæstur 12,6 stig á Skjaldþingsstöðum þann 2.
Lægstur mældist hitinn -25,9 stig við Kolku þann 10. Í byggð mældist lægsti hitinn -20,1 stig í Möðrudal þann 12. Á skeytastöð varð hitinn lægstur -17,2 stig þann 10. á Grímsstöðum á Fjöllum.
Úrkoma
Mánuðurinn var úrkomusamur, í Reykjavík mældist úrkoman 101,5 mm og er það um fjórðungi umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 79.2 mm sem er ríflega 80% umfram meðallag. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var úrkoma í meðallagi, en 70% umfram meðallag í Stykkishólmi.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust aðeins 65, það er 46 stundum undir meðallagi og það minnsta í mars síðan 1993. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 59 og er það 18 stundum undir meðallagi.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði var í meðallagi í mánuðinum en veðurlag þótti þó með órólegra móti miðað við það sem algengast hefur verið undanfarin ár. Helstu illviðradagar voru sá 5. og 14. til 15.
Loftþrýstingur í Reykjavík var í meðallagi.
Snjór
Snjór var meiri um landið sunnan- og vestanvert en verið hefur í marsmánuði undanfarin ár. Talsvert meiri snjór var þó í mars árið 2000, hann lá þá lengur en nú og að auki var hann þá talsvert meiri að magni til. Alhvítir dagar voru 17 í Reykjavík og er það 5 dögum yfir meðallaginu 1971 til 2000. Norðanlands var snjór minni en í meðalári og á Akureyri voru alhvítu dagarnir 15, en eru 19 í meðalmars.
Veturinn (desember 2010 til mars 2011)
Veturinn var mjög hlýr, í Reykjavík 1,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 en í meðallagi sé miðað við síðustu 10 veturna á undan. Á Akureyri var nýliðinn vetur 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en í meðallagi áranna 2001 til 2010.
Vetrarúrkoman í Reykjavík var í rétt rúmu meðallagi en þar var mjög þurrt í desember. Á Akureyri var úrkoman um 14% ofan meðallags.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 33 og er það 20 dögum færra en í meðalári. Meira en helmingur þessara daga var í mars. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 69 en það er 15 dögum færra en í meðalári. Í þessum tölum er nóvember undanskildur en þá var alhvítt á Akureyri alla daga nema einn.