Fréttir
undirritun
Undirritun aðildar Íslands að ECMWF, Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, hinn 9. mars 2011 í Þjóðmenningarhúsinu. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Dominique Marbouty, forstjóri ECMWF.
1 2 3

Undirritun aðildar Íslands að ECMWF

9.3.2011

Ísland varð í dag fullgildur aðili að ECMWF, Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, eftir að hafa verið aukaaðili frá því seint á 8. áratug síðustu aldar.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Dominique Marbouty, forstjóri ECMWF, undirrituðu formlegan samning þess efnis í Þjóðmenningarhúsinu nú í dag, 9. mars 2011. Einnig fór fram kynning á starfsemi miðstöðvarinnar og mikilvægi hennar fyrir Ísland.

Veðurstofur flestra aðildarþjóða nota spár ECMWF í rekstri sínum, gjarnan með því að nota reikniniðurstöður líkana ECMWF sem innlagsgögn fyrir veðurspárlíkön með þéttu reiknineti.

Á Íslandi eru reikniniðurstöður ECMWF notaðar á þennan hátt (sem hluti af samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands og Reiknistofu í veðurfræði) og einnig eru þær notaðar víða í spákerfum Veðurstofunnar. Spár ECMWF eru til dæmis grundvöllur fyrir veðurspár á Atlantshafi, fyrir flugþjónustu allt að norðurpólnum og margar textaspár sem Veðurstofan gefur út. Á vefnum vedur.is má víða sjá neðanmálstilkynningar um að gögnin byggist á útreikningum líkans frá ECMWF.

ECMWF rekur mjög öflugt gagnaver með ofurtölvum. Með fullri aðild Íslands að ECMWF mun Veðurstofan fá aðgengi að reikniafli stofnunarinnar og mun það væntanlega skila sér í bættum veðurspám.

Nánar má lesa um sögu reiknimiðstöðvarinnar, hlutverk hennar og mikilvægi, í sérstakri grein.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica